— Ljósmynd/HAG
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hið opinbera velti árið 2022 um 1.650 milljörðum króna, sem þýðir að það ráðstafar tæplega annarri hverri krónu sem verður til í hagkerfinu. Hlutfallið hefur vaxið jafnt og þétt, allt frá lýðveldisstofnun, þegar um fimmta hver króna fór um hendur hins opinbera

Magdalena Anna Torfadóttir

magdalena@mbl.is

Hið opinbera velti árið 2022 um 1.650 milljörðum króna, sem þýðir að það ráðstafar tæplega annarri hverri krónu sem verður til í hagkerfinu. Hlutfallið hefur vaxið jafnt og þétt, allt frá lýðveldisstofnun, þegar um fimmta hver króna fór um hendur hins opinbera.

Þetta er meðal þess sem kom fram í skýrslu Viðskiptaráðs sem kynnt var á Viðskiptaþingi ráðsins í gær. Gunnar Úlfarsson hagfræðingur Viðskiptaráðs kynnti skýrsluna og niðurstöður hennar. Í skýrslunni er fjallað um hið opinbera og hvernig megi bæta þjónustu þess til lengri tíma litið.

„Í ljósi umfangs ríkis og sveitarfélaga er rétt að rýna hvernig þessum fjármunum er varið, hvar og hvernig megi gera betur og hvort hið opinbera þurfi að sinna öllum þeim verkefnum sem það hefur nú á sinni könnu,“ segir í skýrslunni.

Fjölmennt var á þinginu en yfirskrift þess var Hið opinbera: Get ég aðstoðað? Svanhildur Hólm Valsdóttir framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs stýrði þinginu en Ari Fenger fráfarandi formaður hélt opnunarávarp. Andri Þór Guðmundsson forstjóri Ölgerðarinnar tók síðan formlega við sem nýr formaður Viðskiptaráðs.

Rætt um hlutverk hins opinbera á ólíkum sviðum

Svanhildur Hólm stýrði umræðum með Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur, stofnanda Kara Connect, og Andra Heiðari Kristinssyni, fyrrverandi leiðtoga Stafræns Íslands. Þau ræddu meðal annars þær áskoranir og hindranir sem verða á vegi tæknifyrirtækja í samskiptum við opinberar stofnanir. Þorbjörg Helga lýsti meðal annars samskiptum sínum við opinberar stofnanir, þá sérstaklega embætti landlæknis, sem lagt hafa stein í götu félagsins og starfsemi þess. Hún sagði að þrátt fyrir yfirlýsingar stjórnmálamanna um nýsköpun í heilbrigðiskerfinu og mikilvægi þess að leita nýrra lausna í þjónustu væri því ekki fylgt eftir með almennilegum hætti.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hélt erindi og ræddi meðal annars hlutverk ríkisvaldsins. Þá ræddi Björgvin Ingi Ólafsson, meðeigandi og ráðgjafi hjá Deloitte, um það hvernig bæði ríki og sveitarfélög verja mikilli orku í að safna saman gögnum um þjónustu sína eða aðra þætti – án þess þó að leysa þau vandamál sem eru til staðar. Hann benti meðal annars á að á umfangsmikilli upplýsingasíðu Reykjavíkurborgar væri hægt að sjá rauntímaheimsóknir í sundlaugar en ekki hver staðan væri á biðlistum eftir leikskólaplássi. Fyrirlestur hans fékk góðar undirtektir meðal gesta.

Garðar Björnsson Rova, helsti sérfræðingur McKinsey á sviði gervigreindar, talaði um gervigreind og tækifæri í opinberum rekstri. Þórhildur Ólöf Helgadóttir forstjóri Íslandspósts fór yfir starfsemi félagsins og velti meðal annars upp þeirri spurningu í lok ávarps síns hvort ríkið væri rétti aðilinn til að standa að rekstri félagsins í samkeppni við einkaaðila.

Í lok viðburðar stýrði Snorri Másson fjölmiðlamaður pallborðsumræðum en fyrir svörum sátu þau Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra, Einar Þorsteinsson borgarstjóri og Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar. Meðal þess sem þau ræddu var opinber þjónusta og hvaða rekstri hið opinbera ætti að sinna og hverju ekki. Þar var meðal annars rætt um það hvort ríkið þyrfti að standa í smásölu á áfengi og rekstri fjölmiðils auk þess sem rætt var um þann vanda sem hefur skapast vegna fjölda hælisleitenda hér á landi.

Fjöldi starfsfólks tvöfaldast

Í fyrrnefndri skýrslu Viðskiptaráðs kemur fram að undanfarin þrjátíu ár hefur fjöldi starfsfólks í stjórnsýslunni tæplega tvöfaldast. Árið 1995 störfuðu 387 manns í um ellefu ráðuneytum en í dag starfa 724 í tólf ráðuneytum.

„Að mati Viðskiptaráðs sýnir þróunin að verulega skorti á hagræðingu hjá hinu opinbera. Leiða má líkur að því að lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins leggi stein í götu stjórnvalda til að bregðast við þegar verkefni breytast, falla niður eða ný verða til. Tækifæri til meira hagræðis í starfsmannahaldi eru vannýtt og stafræn umbylting virðist frekar hafa verið nýtt til að auka umfang stjórnarráðsins en annað. Það ætti ekki að vera náttúrulögmál að stöðugt fjölgi í stjórnarráðinu, þótt á þessu tímabili hafi starfsmönnum einungis fækkað á árunum 2013-2016,“ segir í skýrslunni.

Árið 2019 störfuðu 552 innan stjórnarráðsins, en árið 2023 724.1 Starfsmönnum í stjórnarráðinu hefur því fjölgað um rúmlega 30%.

Opinberum stöðugildum hefur fjölgað um 60% frá aldamótum á meðan stöðugildum í einkageiranum fjölgaði um 30%.

Áskoranir blasa við

Í skýrslunni var jafnframt farið yfir ýmsar áskoranir sem Ísland kemur til með að glíma við á næstu árum. Þá má helst nefna breytta aldurssamsetningu þjóðar og þá er mikil fjölgun ungra öryrkja áhyggjuefni. Árleg meðalfjölgun öryrkja hefur verið um 2,4% á ári frá 2009 til 2020 að því er fram kemur í skýrslunni en árlegur meðalvöxtur meðal endurhæfingarlífeyrisþega frá árinu 2007 til 2018 hefur verið tæplega 6%. Félagslegar tilfærslur til heimilanna námu tæpum 284 milljörðum árið 2022, en að viðbættum öðrum tilfærslugjöldum, sem námu 72,5 milljörðum króna, er um að ræða 20,5% af heildarútgjöldum hins opinbera.

„Fjölgunin er mun hraðari en á Norðurlöndunum en öryrkjum hefur aðeins fjölgað í Noregi, í hinum þremur löndunum hefur þeim farið fækkandi. Með hækkandi meðalaldri þjóðarinnar má búast við því að örorka muni aukast enn frekar,“ segir í skýrslunni.