Einar Gústavsson fæddist 5. júlí 1943 á Siglufirði. Hann lést í Garðabæ 25. janúar 2024. Foreldrar hans voru Gústav Þórðarson, f. 24.11. 1905, d. 5.12. 1981, og Dagbjört Valgerður Einarsdóttir, f. 27.8. 1911, d. 3.9. 1977. Eldri bróðir Einars var Sveinn, f. 12.4. 1938, d. 15.11. 2019. Eftirlifandi eiginkona hans er Erla Þ. Ingólfsdóttir f. 29.12. 1940.

Einar giftist eftirlifandi eiginkonu sinn, Grímu Gústavsson, árið 1969 og bjuggu þau nær allan sinn búskap í Bandaríkjunum. Þau fluttu til Íslands í júní 2021 og settust að í Garðabæ. Einar og Gríma eignuðust þrjár dætur, þær eru: Sif, f. 1970, Sarah, f. 1972, og Eva Maren, f. 1979. Eiginmaður Söru er Kurt Eggers, f. 1972. Dætur þeirra eru Sóley Summer, f. 2003, og Silka Elín, f. 2004.

Einar lauk námi við Verzlunarskóla Íslands og Pitt Business School í London.

Einar hóf feril sinn hjá Loftleiðum á flugvellinum í New York og vann sig upp í stöðu yfirmanns markaðssviðs Icelandair. Árið 1990 varð hann framkvæmdastjóri Ferðamálastofu í Norður-Ameríku og fékk þar viðurkenningu sem brautryðjandi í markaðssetningu á Íslandi. Hann var einnig kjörinn forseti ferðamálanefndar Evrópusambandsins margoft og gegndi formennsku í Scandinavian Tourist Board.

Einar stundaði veiðar af kappi, bæði á Íslandi og í Alaska en þar veiddi hann sinn stærsta feng, 113 kg lúðu og vann þannig til verðlauna. Einar varð einna fyrstur meðlimur í „Freeport Club“ en hann og Gríma hýstu alkóhólista í bata á heimili sínu á Long Island áður en hægt var að fá meðferð við sjúkdómnum hér á landi.

Útför Einars fer fram frá Garðakirkju í dag, 9. febrúar 2024, klukkan 13.

Nafnið Einar merkir frábær og það var Einar Gústavsson svo sannarlega. Föðurbróðir minn var einn sá alskemmtilegasti maður sem ég hef haft samneyti við í lífinu. Jákvæð orka og gleði var alltaf í fyrirrúmi þar sem hann var. Ef erfiðir hlutir voru ræddir var hann innilegur og gefandi. Ég á góðar æskuminningar um frænda, mikil tilhlökkun var þegar hann kom í heimsókn frá Ameríku, oft færandi okkur systrunum spennandi hluti sem heldur betur slógu í gegn.

Þegar við Magnús fluttumst í fyrsta sinn til Bandaríkjanna, rúmlega tvítug, til Flórída með Erlu dóttur okkar, fylgdist frændi vel með okkur, alltaf að athuga hvort allt væri í lagi og hvort hann gæti gert eitthvað fyrir okkur eða bara til að spjalla og segja skemmtilegar sögur, sem hann var mjög góður í. Sama átti við þegar seinna við fluttumst með þrjú börn til Arizona. Þegar síðustu flutningar til Bandaríkjanna áttu sér stað, þá til New York og með fjögur börn, kom ekkert annað til greina en að búa í Rye, í göngufæri við Einar, Grímu og stelpurnar. Á þeim sex árum sem við bjuggum í New York áttum við frábæra tíma saman.

Einar, eins og pabbi, hafði yfir sér alþjóðlegt yfirbragð alla tíð sem ég held að einkenni oft fólk sem ólst upp á Siglufirði á síldarárunum. Með fráfalli Einars er ekkert annað að gera en að ylja sér við góðar minningar um litlu fjölskylduna frá Sigló. Ég kveð kæran frænda minn með ljóðlínum ömmu hans, Höllu Eyjólfsdóttur frá Laugabóli:

Ég lít í anda liðna tíð,

er leynt í hjarta geymi.

Sú ljúfa minning – létt og hljótt

hún læðist til mín dag og nótt,

svo aldrei, aldrei gleymi.

Anna Sveinsdóttir.

Römm er sú taug

er rekka dregur

föðurtúna til.

Þessar línur úr ljóði eftir Ovid, þýtt af Sveinbirni Egilssyni, má vel heimfæra upp á vin okkar Einar Gústavsson. Eftir meira en fimm áratuga búsetu í annarri heimsálfu kom ekki annað til greina en koma heim þegar hann greindist með grimman sjúkdóm, sem breytti öllu.

Vinskapur okkar hófst þegar Einar fór að stíga í vænginn við vinkonu okkar, hana Grímu. Þótt langt væri á milli lengst af stóð vinskapurinn traustum fótum. Dætur þeirra komu til Íslands og dvöldu með okkar börnum og síðan dvöldu dætur okkar hjá þeim við gott atlæti ytra og allt gekk ljómandi vel. Við notuðum tækifærin þegar fjölskylda þeirra kom til landsins til að hittast og gleðjast. Við nutum þess að ferðast saman og minnumst dásamlegra ferða til Kaupmannahafnar, Barcelona og ekki síst þegar við vinkonurnar héldum upp á 75 ára afmælin okkar með dýrlegri ferð um Miðjarðarhafið.

Einar, Gríma og Sif dóttir þeirra fluttu til Íslands í júní 2021. Greinilegt var að hann gekk ekki heill til skógar og þurfti fljótlega á hjálp að halda. Það kom þó ekki í veg fyrir kætina, sem fylgdi Einari hvert sem hann fór – hann var alltaf með „glimt i öjet“ eins og Danskurinn segir. Síðustu sporin voru honum erfið en góð hjálp og umhyggja Grímu og Sifjar gerðu glímuna eins þolanlega og mögulegt var.

Um leið og við þökkum Einari ánægjulega samfylgd vottum við Grímu, Sif, Evu, Söru og Kurt og augasteinunum hans, Sóleyju og Silku, okkar innilegustu samúð. Blessuð sé minning góðs vinar.

Stefanía (Níní) og Þóra.

Frank Sinatra söng „If I can make it there, I can make it anywhere” og þessi lína er lýsandi fyrir vin minn og samstarfsfélaga Einar Gústavsson, sem var allt í senn New Yorker, Siglfirðingur en fyrst og fremst stoltur Íslendingur.

Ég var tvítugur þegar ég kynntist Einari, föðurbróður konunnar minnar, og við náðum strax vel saman, aldursmunur skipti ekki máli. Einar var frumkvöðull sem ruddi leið fyrir bandaríska ferðamenn til Íslands en fyrst og fremst var hann skemmtilegur maður sem hafði góð áhrif á samferðafólk sitt.

Sumarið 1997 flutti ég til New York, við tók sex ára tímabil þar sem við Einar urðum samstarfsfélagar, nágrannar og vinir. Verkefnin voru skemmtileg og krefjandi en áttu það sameiginlegt að kynna Ísland fyrir bandarískum neytendum. Heimsóknir erlendra blaðamanna til Íslands þar sem farnar voru ótroðnar slóðir margfölduðu umfjöllun erlendra fjölmiðla um Ísland. Töluvert færri en 10% af bandarískum neytendum vissu að Ísland væri til þegar það var mælt í fyrsta skipti árið 1999, markmiðið var að breyta því, það tókst, og nú streyma efnaðir Bandaríkjamenn til Íslands.

Einar var hugmyndaríkur, skemmtilegur og náði árangri með því að hrífa fólk með sér. Það voru forréttindi að kynnast honum í leik og starfi. Blessuð sé minning Einars Gústavssonar.

Magnús Bjarnason.

Við félagarnir minnumst vinar okkar og samstarfsmanns í ferðaþjónustuverkefnum til fjölda ára.

Það leyndist engum sem kynntist Einari að hann var mikill Siglfirðingur og einn okkar fór nokkrar skotferðir með honum þangað og fastur liður var að fara í bakaríið og kaupa mikið af einhvers konar hunangskökum sem greinilega voru „æskunammið“ sem hann síðan tók með sér til baka vestur um haf.

Þó svo Einar hafi starfað í Bandaríkjunum lengst af, sem sölustjóri hjá Icelandair og síðan framkvæmdastjóri skrifstofu Ferðamálastofu í New York, lágu leiðir okkar saman af og til allan þennan tíma. Í öllum samstarfsverkefnum okkar reyndist Einar vandvirkur og lausnamiðaður og hafði yfir að ráða ótrúlega vænlegu tengslaneti og þá ekki síst í Bandaríkjunum.

Hin síðari ár dvöldu þau hjón oft hér heima yfir sumartímann og hittumst við þá nokkuð oft í kaffispjalli og voru þá gömul atvik úr ferðaþjónustunni aðalumræðuefnin og stundum var farið í dagsferðir út fyrir borgarmörkin að skoða nýja ferðamannastaði. Þá var Einar hrókur alls fagnaðar enda glaðlyndur að eðlisfari og ávallt með bros á vör.

Svo kom höggið þegar Einar veiktist og var síðan vistaður á Ísafold, þar sem heilsu hans hrakaði hratt og var það okkur mikið áfall. Við erum þakklátir fyrir minningarnar sem við nú eigum um Einar en þær eru allar bjartar.

Við vottum Grímu, dætrum þeirra og öðrum nákomnum honum okkar dýpstu samúð.

Blessuð sé minning félaga okkar og vinar, Einars Gústavssonar.

Kjartan Lárusson, Kristján Jónsson, Steinn Lárusson.