Mismunandi útlit við Austurvöll Bakhliðar húsanna við Austurstræti 8-14 eru mismunandi og eru hugmyndir um að samræma útlitið.
Mismunandi útlit við Austurvöll Bakhliðar húsanna við Austurstræti 8-14 eru mismunandi og eru hugmyndir um að samræma útlitið. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, segir þegar búið að leigja út hluta þess rýmis við Austurvöll sem losnaði þegar þingmenn fluttu sig um set á dögunum. Þá hafi margir sýnt því áhuga að leigja aðra hluta rýmisins.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, segir þegar búið að leigja út hluta þess rýmis við Austurvöll sem losnaði þegar þingmenn fluttu sig um set á dögunum. Þá hafi margir sýnt því áhuga að leigja aðra hluta rýmisins.

Sem kunnugt er hafa þingmenn verið að máta sig við nýjar skrifstofur í Smiðjunni, nýbyggingu við Alþingishúsið, og sýnist sitt hverjum um nýju vistarverurnar.

Margir þingmenn hafa verið með skrifstofur við Austurstræti 8-14, en bakhlið húsanna snýr að Austurvelli.

Austurstræti 8-10, 12 og 14 eru í eigu Reita, sem auglýsa nú til leigu skrifstofurými í Austurstræti 8-10, sem er annars vegar 2.100 fermetrar og hins vegar 550 fermetrar.

ÁTVR og H.G.G.-fasteign ehf. eiga hins vegar Austurstræti 10a.

Í samtali við borgina

Spurður hvað Reitir hyggjast gera við húsnæðið segir Guðjón hugsanlegt að útbúnar verði íbúðir.

„Við höfum hugmyndir um að breyta húsnæðinu að hluta eða að öllu leyti í íbúðir. Við erum í samtali við Reykjavíkurborg um þær hugmyndir en það er ekki komið á endastað. Síðan hafa ýmsir aðilar sýnt því mikinn áhuga að leigja húsnæðið áfram undir skrifstofur.“

Þið hafið fengið fyrirspurnir?

„Meira en það. Við erum þegar búin að leigja hluta af þessu húsnæði í skammtímaleigu. Ólíkir aðilar úr ólíkum áttum hafa leitað til okkar, enda vilja margir hafa skrifstofuaðstöðu í miðbænum. Það eru margir möguleikar á að leigja þetta út til lengri eða skemmri tíma.“

Hvað tekur langan tíma að breyta húsnæðinu í íbúðir, ef það yrði gert?

„Það er ekki hægt að svara því í dag. Það er aðeins snúið að breyta atvinnuhúsnæði í íbúðir. Þetta snýst m.a. um aðkomu og sorpmál.“

Yrðu íbúðirnar leigðar til fyrirtækja sem myndu nýta þær fyrir starfsfólk og borga hugsanlega meira en hinn almenni leigjandi?

„Já, líklega yrði það raunin en það er ekki búið að botna það samtal. Þetta er verk í vinnslu. Við viljum vanda okkur. Við viljum að ramminn í kringum Austurvöll sé flottur og held að við finnum samhljóm í því hjá borginni. Það þarf meira líf í miðbæinn og ef þarna kæmu íbúðir væru ljósin kveikt á kvöldin, sem er ekki í dag. Þar til málin skýrast ætlum við að koma húsnæðinu í vinnu sem skrifstofuhúsnæði til skemmri eða lengri tíma.“

Minjavernd sendir inn álit

Það er búið að taka Landsímahúsið í gegn og opna hótel, sem breytti ásýnd Austurvallar. Hefurðu skoðun á útliti bakhliða húsanna, þ.e. hliðunum sem snúa að Austurvelli? Ætti að endurgera þær?

„Við höfum viðrað hugmyndir við borgina [um slíka andlitslyftingu] og þetta er komið á þann stað að aðilar á borð við Minjavernd eru að senda inn álit. Við hefðum áhuga á að samræma útlit húsanna sem snúa að Austurvelli betur en nú er gert. Þá til dæmis með þakgluggum sem hafa svipaða ásýnd og með svölum, hvort sem þær eru litlar eða stórar, franskar eða hvernig sem er. Húsin eru ólík að gerð og með því að samræma útlit þeirra væri hægt að fegra svæðið. Við myndum kjósa að það væri gert en úrslitavaldið í þessu máli liggur hjá skipulagsyfirvöldum,“ segir Guðjón.