Lykilmaður Írski landsliðsmaðurinn Taiwo Badmus hefur reynst Val góður liðsauki og hér skorar hann gegn Haukum á Hlíðarenda í gærkvöld.
Lykilmaður Írski landsliðsmaðurinn Taiwo Badmus hefur reynst Val góður liðsauki og hér skorar hann gegn Haukum á Hlíðarenda í gærkvöld. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Valsmenn sigla hraðbyri í átt að deildameistaratitli karla í körfuknattleik eftir níunda sigurinn í röð í gærkvöld. Þeir tóku þá á móti Haukum, sem hafa aðeins unnið fjóra leiki af sautján í vetur, og sigruðu 82:72 í leik sem varð örlítið spennandi…

Valsmenn sigla hraðbyri í átt að deildameistaratitli karla í körfuknattleik eftir níunda sigurinn í röð í gærkvöld.

Þeir tóku þá á móti Haukum, sem hafa aðeins unnið fjóra leiki af sautján í vetur, og sigruðu 82:72 í leik sem varð örlítið spennandi undir lokin eftir nokkuð örugga forystu Vals allan tímann.

Valsmenn eru komnir sex stigum á undan fjórum næstu liðum, Keflavík, Njarðvík, Grindavík og Þór úr Þorlákshöfn sem eru öll með 22 stig eftir leikina í gær.

Kristinn Pálsson skoraði 19 stig fyrir Val, Taiwo Badmus 18 og Kristófer Acox 17.

David Okeke skoraði 18 stig fyrir Hauka, Osku Heinonen 15 og Everage Richardson 13.

Frestað vegna eldgossins

Náttúruhamfarirnar á Reykjanesi höfðu þó talsverð áhrif á úrvalsdeildina í gærkvöld en vegna skömmtunar á heitu vatni í kjölfar þess að hitaveitulögnin frá Svartsengi fór í sundur um hádegið í gær var íþróttahúsunum í Reykjanesbæ lokað. Leikjum Keflavíkur gegn Hetti og Njarðvíkur gegn Breiðabliki, sem fram áttu að fara í gærkvöld, var báðum frestað af þeim sökum.

Lykilsigur Grindvíkinga

Grindavík vann Þór á útivelli í Þorlákshöfn í lykilleik toppbaráttunnar, 92:84, og baráttan um sæti tvö til fjögur og betri stöðu fyrir úrslitakeppnina er gríðarlega hörð.

Dedrick Basile skoraði 24 stig fyrir Grindavík, Daniel Mortensen 24 og DeAndre Kane 20.

Tómas Valur Þrastarson skoraði 20 stig fyrir Þór, Darwin Davis 19 og Nigel Pruitt 15.

Álftanes gerir líka tilkall til fjórða sætisins og er aðeins tveimur stigum á eftir hinum fjórum eftir yfirburðasigur á Hamri í Hveragerði, 104:67. Hamar hefur tapað öllum 17 leikjum sínum og þarf að vinna síðustu fimm til að geta haldið sér uppi.

Douglas Wilson skoraði 24 stig fyrir Álftanes, Ville Tahvanainen 17, Dúi Þór Jónsson 15 og Norbertas Giga 15 en Franck Kamgain skoraði 26 stig fyrir Hamar.