Heimkoma Aron Sigurðarson í leik með íslenska landsliðinu gegn því eistneska fyrir rúmu ári. Aron leikur með KR næstu þrjú árin.
Heimkoma Aron Sigurðarson í leik með íslenska landsliðinu gegn því eistneska fyrir rúmu ári. Aron leikur með KR næstu þrjú árin. — Ljósmynd/Alex Nicodim
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Knattspyrnumaðurinn Aron Sigurðarson er staðráðinn í að koma KR aftur í hóp bestu liðanna á Íslandi, en hann samdi við Vesturbæjarfélagið fyrir tæpum mánuði eftir átta ár í atvinnumennsku. Gildir samningurinn til næstu þriggja ára, út tímabilið 2026

Fótboltinn

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Knattspyrnumaðurinn Aron Sigurðarson er staðráðinn í að koma KR aftur í hóp bestu liðanna á Íslandi, en hann samdi við Vesturbæjarfélagið fyrir tæpum mánuði eftir átta ár í atvinnumennsku. Gildir samningurinn til næstu þriggja ára, út tímabilið 2026.

„Tilfinningin er mjög góð. Byrjunin hefur verið vonum framar. Mér finnst hópurinn sterkari en ég bjóst við. Það eru margir ungir og mjög góðir leikmenn í þessu liði, sem geta verið byrjunarliðsmenn og atvinnumenn í framtíðinni.

Þjálfarateymið er mjög gott. Þetta er mjög skemmtilegur hópur og það er gaman að mæta á æfingar,“ segir Aron, sem var keyptur frá danska félaginu Horsens, í samtali við Morgunblaðið.

Eftir að hafa alist upp hjá Fjölni hófst atvinnumannaferillinn hjá Tromsö í Noregi árið 2016. Þaðan skipti hann yfir til annars norsks félags, Start, árið 2018 og var svo keyptur til Royale Union SG í Belgíu árið 2020.

Eftir eitt og hálft ár þar hélt Aron til Horsens og lék þar undanfarið tvö og hálft ár, þar af eitt tímabil í úrvalsdeild.

Orðið þreytt í Horsens

Hann átti eitt ár eftir af samningi sínum við Horsens, sem leikur í B-deild, og hafnaði auk þess nýju samningstilboði.

„Mér fannst þetta orðið svolítið þreytt í Horsens. Við vorum ekki með lið til að fara upp og mér fannst sem við yrðum ekki með lið sem færi upp á næstu árum. Svo kom fleira til.

Þjálfarateymið var ekkert spes. Eftir að ég fór er bara einn leikmaður eftir af þeim sem voru hluti af liðinu sem var í úrvalsdeildinni, og það er markvörðurinn. Þetta er rosalega nýtt lið og menn koma alls staðar að; til dæmis frá Fílabeinsströndinni, Bandaríkjunum og Svíþjóð.

Ég held það muni taka þá langan tíma að búa til nýtt lið. Ég sá hvað var í bígerð og þess vegna hafnaði ég tilboði þeirra,“ segir Aron, spurður hvers vegna hann hafi ekki verið áfram hjá Horsens.

Seldu mér verkefnið á staðnum

Voru fleiri erlend félög áhugasöm um að semja við þig?

„Já, eflaust. Við eiginlega athuguðum það ekkert og vorum ákveðin í að koma heim. Konan mín á von á öðru barni okkar í maí þannig að þetta var líka fjölskylduákvörðun. Ég er mjög ánægður með lendinguna,“ segir hann.

Fleiri íslensk félög höfðu hug á að krækja í Aron en eftir fund með KR varð fljótlega ljóst að félagið yrði fyrir valinu.

„Já, við fórum og ræddum við önnur félög. Það voru þrjú félög sem við ræddum almennilega við og mér fannst KR vera besta lendingin. Ég talaði við fyrst við þá og eftir þann fund var þetta eiginlega bara neglt. Þetta var frábær fundur, vel kynntur og seldi mér þetta verkefni eiginlega á staðnum,“ útskýrir Aron.

Búið að vera alvöru ferðalag

Hann er þrítugur og þeim kafla ferilsins sem fer fram í atvinnumennsku að öllum líkindum lokið. Aron horfir stoltur um öxl.

„Ég er þvílíkt sáttur. Ég hef verið í lykilhlutverki í hverju einasta liði sem ég hef farið í, spilað mikið og ekki misst mikið úr vegna meiðsla. Þetta er búið að vera alvöru ferðalag,“ segir Aron, sem hefur leikið 297 deildaleiki á Íslandi, í Noregi, Belgíu og Danmörku og skorað í þeim 75 mörk.

Alls eru A-landsleikirnir orðnir átta og mörkin tvö. Hann fer ekki í felur með að hafa viljað spila fleiri landsleiki.

„Að sjálfsögðu hefði ég viljað að þeir væru fleiri. Ég held að allir sem eru með einhvern metnað og eru í atvinnumennsku vilji fá fleiri landsleiki og fara í sterkustu deildir í heimi.

Maður horfir auðvitað til baka og hugsar „hvað ef“ en það þýðir ekkert að hugsa þannig. Ég er þvílíkt sáttur þegar ég horfi til baka.“

Aftur þangað sem KR á heima

Aron getur leyst hinar ýmsu stöður á vellinum og hefur Gregg Ryder, þjálfari KR, rætt við Aron hvar hann hugsar sér að nota hann.

„Framarlega á vellinum, við höfum talað um það. Hann er með stöðu í huga sem hann sér fyrir sér að ég spili. Ég get leyst hvaða stöðu sem er framarlega á vellinum og á miðjunni. Ég ætla ekki að móta það í stein hvar ég spila á vellinum. Mig langar bara að spila í þessu liði, alveg sama hvar, hjálpa því að komast í hæstu hæðir og berjast um titla.“

Væntingar hans til komandi tímabils með KR eru skýrar:

„Mínar væntingar eru að fá aftur upp alvöru stemningu í Vesturbæinn, spila skemmtilegan og orkumikinn fótbolta og skora mikið af mörkum. Við erum ekkert langt frá því að vera með lið sem berst um titla en við verðum að sjá hvort það komi einhverjir leikmenn í viðbót. Ég vil að við spilum góðan fótbolta og vil hjálpa þessu liði að komast aftur á þann stað sem það á heima. Þetta er risafélag, stærsta félagið á Íslandi. Það er bara þannig,“ segir Aron að lokum í samtali við Morgunblaðið.

Höf.: Gunnar Egill Daníelsson