Át „Hvað drífur einstakling til mannáts þegar það er ekki leið til að bjarga sér frá hungurdauða?“
Át „Hvað drífur einstakling til mannáts þegar það er ekki leið til að bjarga sér frá hungurdauða?“ — Ljósmynd/Sandijs Ruluks
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tjarnarbíó Kannibalen ★★★½· Eftir: Johannes Lilleøre. Íslensk þýðing: Adolf Smári Unnarsson og Júlía Gunnarsdóttir. Leikstjórn: Adolf Smári Unnarsson. Lýsing og tæknilegar útfærslur: Magnús Thorlacius. Búningar: Júlía Gunnarsdóttir. Grafísk hönnun: Einar Hrafn Stefánsson. Tónlist: Ronja Jóhannsdóttir. Leikarar: Fjölnir Gíslason og Jökull Smári Jakobsson. Frumsýning í Tjarnarbíói 18. janúar 2024.

Leiklist

Silja Björk

Huldudóttir

Mannát hefur verið áberandi á síðum blaðsins að undanförnu í tengslum við nokkur nýleg listaverk þar sem sjónum er beint að þessu tabúi samfélagsins. Fyrir jólin sendi Bragi Páll Sigurðarson frá sér skáldsöguna Kjöt sem bauð upp á safaríka umfjöllun um listamann er fremur sinn síðasta gjörning á ferlinum sem felur í sér að hann er snæddur. Í byrjun árs kom út í íslenskri þýðingu bókin Hold og blóð – saga mannáts eftir sagnfræðinginn Reay Tannahill þar sem höfundur rekur sögu mannáts frá fornöld til nútímans með viðkomu í mannfórnum ýmissa trúarbragða.

Þegar betur er að gáð er menningin full af sögum um mannát. Sem dæmi má nefna að í söngleik Stephens Sondheims frá 1979 um Sweeney Todd nýtur frú Lovett góðs af morðóða rakaranum, enda fær hún hjá honum úrvals hráefni fyrir kjötbökur sínar sem fara að seljast eins og heitar lummur, og í hinum mjög svo blóðuga 16. aldar harmleik Titus Andronicus lætur Shakespeare titilpersónuna hefna fyrir nauðgun dóttur sinnar með því að véla móður nauðgaranna tveggja til að éta syni sína. Hver kannast síðan ekki við Grýlu sem á það sameiginlegt með norninni í sögunni um Hans og Grétu að éta börn?

Þrátt fyrir að mannát hafi augljóslega fylgt mannskepnunni frá örófi alda er þetta blessunarlega ekki útbreitt athæfi. Þannig virðist mannhelgin í huga flestra ná út fyrir dauðann og fáum sem dettur í hug að næla sér í matarbita úr líkhúsum.

Danska leikritið Kannibalen (2022) eftir Johannes Lilleøre í leikstjórn Adolfs Smára Unnarssonar sem frumsýnt var í Tjarnarbíói um miðjan síðasta mánuð beinir sjónum að mannáti í samtímanum, því leikritið byggist á raunverulegum atburðum sem áttu sér stað í þýsku borginni Rotenburg árið 2001. Verkið fjallar um Armin Meiwes, sem átti sér draum um að borða aðra manneskju – en aðeins að því tilskildu að hún vildi það sjálf. Slíkt viljugt fórnarlamb fann Meiwes í Bernd-Jürgen Brandes, sem dreymdi einmitt um að láta borða sig.

Mennirnir tveir kynntust á vefnum og eftir nokkurt spjall ákváðu þeir að hittast til að raungera þessar langanir sínar. Athæfið tóku þeir upp á myndband, sem nýttist í réttarhöldunum yfir Meiwes þegar hann var sóttur til saka og sakfelldur fyrir drápið á Brandes.

Leiktextinn einkennist af raunsæislegum og grafískum lýsingum á því sem gerðist á heimili Meiwes fyrir tæpum aldarfjórðungi. Sem dæmi fá áhorfendur að heyra hvernig Meiwes sker getnaðarliminn af Brandes, að ósk þess síðarnefnda, og matreiðir fyrir þá. Þrátt fyrir að blóðið fossi úr Brandes dregst dauðastundin á langinn með tilheyrandi taugaveiklun mannætunnar. Á seinustu stundu virðist fórnarlambið, sem fram að fyrstu áverkum egndi böðul sinn til verka ýmist með háði eða hótunum, vilja hætta við að deyja, sem spillir óneitanlega áformum og fróun Meiwes en minnir okkur á hversu ótrúlega sterkur lífsviljinn í raun getur verið.

Báðir virðast mennirnir hafa gert sér óraunhæfar og fegraðar hugmyndir um það sem til stæði, sem snarlega sigldu í strand þegar raunveruleikinn tók yfir. Með sama hætti hverfur kynferðislegi undirtónninn í upphafi verks, sem birtist í kossum mannanna tveggja þegar þeir hafa nýverið hist í fyrsta (og raunar eina) sinn í raunheimum og þegar þeir snæða fyrrnefndan lim Brandes, eins og hendi sé veifað aftur út úr uppfærslunni. Eins og leikstjórinn benti á í viðtali við Morgunblaðið í aðdraganda frumsýningar má auðveldlega sjá samskipti mannanna tveggja sem samþykkt ofbeldi. Framan af virðist fórnarlambið raunar stýra för í samskiptunum við böðul sinn, og þannig setur höfundur spurningarmerki við það hver sé raunverulegur gerandi og hver þolandi í samskiptunum. Yfirráð Brandes yfir aðstæðunum fjara hins vegar hratt út í réttu hlutfalli við blóðmissinn.

Leikstjórinn hefur valið að elta ekki raunsæisblæ leiktextans heldur vinna markvisst á móti honum, vitandi að ímyndunaraflið er alltaf sterkara en allar gerviblóðsbirgðir leikhússins. Leikararnir Fjölnir Gíslason og Jökull Smári Jakobsson bíða áhorfenda þegar þeir ganga í salinn og virðast í byrjun ætla að leiklesa verkið með handrit sín hvílandi á nótnastatífum. Handritin eru einnig notuð til að minna áhorfendur á samninginn sem mennirnir tveir gerðu með sér fyrir fram um framvindu samskipta þeirra. Þótt handritin séu fljótlega lögð til hliðar hvílir ákveðinn lestónn áfram yfir framsögninni. Hljóðnemar og kastarar eru áberandi hluti af leikmyndinni og minna okkur stöðugt á að við erum stödd í leikhúsi. Í anda hinna raunverulegu atburða fer einnig töluvert fyrir myndbandsupptökuvélinni í sviðsetningunni. Jafnframt er lýsingin notuð með hugvitsamlegum hætti til stemningssköpunar, hvort heldur það er til að fanga birtuna sem fellur til þegar frystikista er opnuð eða flass fréttaljósmyndara. Áhrifaríkast er þó þegar ljósið slokknar alveg í samspili við stundina þegar Brandes sortnar fyrir augum sem afleiðing af því áfalli líkamans að missa lim, því myrkrið magnar innri myndir áhorfenda af því sem berst til eyrna.

Fjölnir var trúverðugur í hlutverki sínu sem Meiwes og náði vel að túlka uppburðarleysi hans, sem jafnvel náði að kveikja samúð hjá áhorfendum með mannætunni. Jökull Smári átti auðvelt með að miðla myndugleika Brandes framan af og örvæntingu eftir því sem á nóttina örlagaríku leið. Að Brandes gegnum brá hann sér í ýmis hlutverk, m.a. nágrannakonu Meiwes, lögregluþjóns, lögfræðings og sambýlismanns Brandes, og tókst þar að skapa mjög skýrar persónur í fáum dráttum.

Á frumsýningu mátti iðulega heyra taugaveiklaðan hlátur leikhúsgesta bæði þegar hnyttin tilsvör féllu af munni persóna, en líka þegar framvindan tók á sig sífellt óraunverulegri blæ. Þessi viðbrögð voru góð áminning þess það er ekki til neitt sem heitir eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum.

Lilleøre reynir að feta fína línu milli þess að gera sér mat úr frásögn af raunverulegu og mjög svo óhuggulegu ofbeldi og þess að skilja hvað mönnunum tveimur gekk til. Því hvað fær manneskju til að vilja láta éta sig í lifanda lífi? Og hvað drífur einstakling til mannáts þegar það er ekki leið til að bjarga sér frá hungurdauða, líkt og reyndin var t.d. um eftirlifendur flugslyssins í Andesfjöllum 1976 sem fjallað hefur verið um í nokkrum kvikmyndum? Meiwes og Brandes virðast báðir vera markaðir af áföllum í æsku sem tengjast mæðrum þeirra. Það þjónar leikverkinu vel, en auðvitað er það ekki svo að áföll geri fólk sjálfkrafa að morðingjum eða fylli þá af sjálfshatri og ranghugmyndum. Raunar virðist Meiwes í brenglun sinni líta svo á að mannátið sé besta aðferðin til að vinna á þeim einmanaleika sem hann glímir við, því hann álítur að með því að borða vini sína verði þeir alltaf hluti af honum. Hér er á ferðinni forvitnileg stúdía sem skilur áhorfendur auðveldlega eftir með óbragð í munni.