Krókháls Lóðin er við golfvöllinn við Grafarholt og gegnt Kia-umboðinu.
Krókháls Lóðin er við golfvöllinn við Grafarholt og gegnt Kia-umboðinu. — Ljósmynd/Reykjavíkurborg
Borgarráð hefur samþykkt að hefja viðræður við Ísold fasteignafélag vegna lóðarinnar við Krókháls 20-22. Lóðin er við golfvöllinn við Grafarholt og gegnt Kia-umboðinu, eins og sýnt er á loftmynd hér til hliðar

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Borgarráð hefur samþykkt að hefja viðræður við Ísold fasteignafélag vegna lóðarinnar við Krókháls 20-22. Lóðin er við golfvöllinn við Grafarholt og gegnt Kia-umboðinu, eins og sýnt er á loftmynd hér til hliðar.

Sagt var frá því í Morgunblaðinu í byrjun janúar að Reykjavíkurborg hefði auglýst á ný lóðina Krókháls 20-22 eftir að hún seldist ekki á föstu verði. Lóðin var auglýst til sölu 14. nóvember 2022 en var tekin úr sölu eftir að engin tilboð bárust. Borgin bauð hana á föstu verði, sem var 414,6 milljónir króna án gatnagerðargjalda.

Samkvæmt upplýsingum frá borginni lögðu fjögur félög fram tilboð í lóðina. Tandur hf. sendi inn tillögu um framleiðslu- og lagerhúsnæði auk skrifstofubyggingar. Fyrirtækið bauð 250 milljónir, en það sérhæfir sig í framleiðslu og dreifingu á hreinlætisvörum.

Tilboð frá Kynnisferðum

Þá sendu Kynnisferðir inn erindi um að nýta húsnæðið undir bækistöð fyrir almenningsvagna sem það nýtir í undirverktöku fyrir Strætó. Fyrirtækið bauð 300 milljónir í lóðina.

Í þriðja lagi sendi Öxar byggingarfélag inn tilboð um að byggja lífsgæðakjarna fyrir eldri borgara á lóðinni. Það hljóðaði upp á 300 milljónir.

Loks sendi Ísold fasteignafélag inn hugmynd að geymsluhúsnæði fyrir einyrkja, smærri fyrirtæki og einstaklinga. Nánar tiltekið kynnti Ísold hugmyndir að geymsluhúsnæði á 2-4 hæðum þar sem á jarðhæð væru 25-50 fermetra geymslur með innakstursdyrum. Fyrirtækið bauð 352 milljónir miðað við efri mörk umbeðins byggingarmagns.

Íbúðarbyggð ekki leyfileg

Samkvæmt upplýsingum frá borginni var tilboð Öxar ekki í samræmi við aðalskipulag, enda sé íbúðarbyggð ekki leyfileg á þessu svæði. Það hafi því ekki verið tekið til nánari skoðunar.

Lóðin Krókháls 20-22 er fyrsta lóðin sem Reykjavíkurborg skipuleggur úr landi Golfklúbbs Reykjavíkur í kjölfar þess að aðilar gerðu með sér samning þess efnis.