Fjármunir almennings mega ekki vera afgangsstærð

Mikill vafi hlýtur að leika á um brúarsmíðina miklu yfir Fossvog. Ekki síður þó um hvernig verkefnið hefur undið stjórnlaust upp á sig, án pólitískrar tilsjónar eða ábyrgðar.

Kostnaðurinn hefur margfaldast en við bætast óþægilegar spurningar um þátt helsta ráðgjafa verkefnisins, sem jafnframt tók þátt í hönnunarkeppni um brúargerðina og sigraði þrátt fyrir að vera með tvöfalt dýrari tillögu en óskað var eftir.

Aðeins rúmum tveimur árum síðar hefur sú upphæð þó meira en tvöfaldast, svo að verk sem upphaflega átti að kosta 1.850 m.kr. að núvirði stendur nú í 8.800 m.kr.

Á Íslandi reynast opinberar framkvæmdir að jafnaði 63% dýrari en ætlað er. Það er sérstakt rannsóknarefni hvort þar ræður léleg verkkunnátta, ótæpileg bjartsýni eða blekkingarleikur gagnvart kjósendum. En það er nýtt met að yfir Fossvog eigi að leggja brú sem hefur 4-5-faldast í verði áður en skóflu hefur verið stungið niður. Kostnaðurinn gæti því hæglega endað í 15 milljörðum króna.

Það er óverjandi að meira en 10% fjárfestinga samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins renni í staka framkvæmd sem hefur hverfandi vægi í samgöngum svæðisins.

Svör Bergþóru Þorkelsdóttur forstjóra Vegagerðarinnar eru heldur fáfengileg, sum villandi eða beinlínis röng. Það lýsir óboðlegu viðhorfi til fjármuna almennings og góðrar stjórnsýslu. Á því þurfa innviðaráðherra, Alþingi og sveitarstjórnir að taka.

Hér og nú þarf hins vegar að leggja þessar fyrirætlanir um Fossvogsbrú til hliðar, áður en meira fé er til þeirra sóað, og rannsaka hvernig þetta allt gat gerst, að því er virðist algerlega stjórnlaust.