Aðgerðastjórn Mikið mæðir á almannavörnum vegna eldsumbrota.
Aðgerðastjórn Mikið mæðir á almannavörnum vegna eldsumbrota. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Mun minni vatnsnotkun var á Suðurnesjum í gær en gert hafði verið ráð fyrir að sögn Hjördísar Guðmundsdóttur upplýsingafulltrúa almannavarna. Ráðherrar úr ríkisstjórninni funduðu með almannavörnum síðdegis í gær þar sem farið var yfir þær áskoranir sem eldgosinu fylgja

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

Mun minni vatnsnotkun var á Suðurnesjum í gær en gert hafði verið ráð fyrir að sögn Hjördísar Guðmundsdóttur upplýsingafulltrúa almannavarna.

Ráðherrar úr ríkisstjórninni funduðu með almannavörnum síðdegis í gær þar sem farið var yfir þær áskoranir sem eldgosinu fylgja.

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra segir að atburðir gærdagsins kalli á endurskoðun á hættumati.

„Við sáum hvað þetta gerðist skjótt og hvað jarðskjálftarnir voru litlir og hvað hraunið kom fljótt upp, sem segir okkur að í þessari Sundhnúkagígaröð er greinilega opið upp. Svo sáum við hvað hraunið rann hratt, fór í eins konar trekt, sem gerði það að verkum að það var þunnfljótandi og komst hratt yfir,“ segir Sigurður.

Hann segir allt stjórnkerfið í kapphlaupi við náttúruna. Unnið sé að því að greina alla veikleika. Vonast er til þess að hægt verði að koma heitu vatni í gagnið fyrir Suðurnes í dag. Mestu bjartsýnisspár segja að það verði upp úr miðjum degi að sögn Sigurðar.

Annað kaldavatnsból tiltækt

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að gert hafi verið ráð fyrir þeirri sviðsmynd sem nú er uppi á Suðurnesjum þótt hún hafi verið með þeim verri af þeim sem hugsanlegar voru.

„Ein sviðsmyndin var sú að þetta færi í kaldavatnsbólið og við erum meðal annars búin að vera að vinna í því að tryggja það að hafa annað tiltækt nú mánuðum saman.“

Vantaði varaaflstöð

Ýmsum verkefnum þurfti að sinna í gær. Meðal annars þurftu almannavarnir að fara í aðgerðir til þess að tryggja varaaflstöð og rafmagnsofna á tvö hjúkrunarheimili Hrafnistu við Nesveg og Hlévang. „Það á að vera tryggt núna. Eins og er þarf ekki að nota varaaflið og allt lítur vel út,“ segir Willum.

Höf.: Viðar Guðjónsson