Mannfjöldi Fjöldi íbúa landsins hefur verið verulega ofmetinn.
Mannfjöldi Fjöldi íbúa landsins hefur verið verulega ofmetinn. — Morgunblaðið/Eggert
Mannfjöldi á Íslandi hefur verið verulega ofmetinn í tölum Þjóðskrár og leiðir endurbætt aðferð Hagstofu Íslands við mat á íbúafjölda til þeirrar niðurstöðu að í stað þess að vera um 400 þúsund talsins eru landsmenn nú taldir vera 386 þúsund, að mati fjármála- og efnahagsráðuneytisins

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Mannfjöldi á Íslandi hefur verið verulega ofmetinn í tölum Þjóðskrár og leiðir endurbætt aðferð Hagstofu Íslands við mat á íbúafjölda til þeirrar niðurstöðu að í stað þess að vera um 400 þúsund talsins eru landsmenn nú taldir vera 386 þúsund, að mati fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Þetta hefur ýmis áhrif á opinberar hagtölur, t.a.m. skv. framansögðu er verðmætasköpun á mann orðin hin sama og var fyrir heimsfaraldur Covid. Lífskjör hafa náð sömu hæðum árið 2023 þegar landsframleiðsla á mann nam 7,7 milljónum króna. Þá má ætla að hagvöxtur á mann hafi numið 1,1% árið 2023 í stað 0,6% miðað við birtar mannfjöldatölur Þjóðskrár. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Um ástæður ofmatsins segir ráðuneytið að einstaklingar upplýsi síður um það þegar þeir flytja úr landi en til þess. Ríkur hvati sé til að skrá sig inn í landið, fá kennitölu og ýmsa þjónustu. Sá hvati sé ekki til staðar þegar einstaklingar flytji af landi brott. Gert er ráð fyrir að skekkjan í manntalinu hafi vaxið samhliða fjölgun erlendra ríkisborgara hér á landi.

Endurbætt aðferð Hagstofunnar miðar að því að draga frá þann fjölda manna sem sannarlega er fluttur af landinu og byggir matið á breiðari grunni en Þjóðskrár.