Sveinn Aðalsteinsson
Sveinn Aðalsteinsson
Í lífrænum úrgangi frá íslenskum landbúnaði liggja mikil verðmæti sem hægt væri að nýta til framleiðslu á lífgasi og áburði.

Sveinn Aðalsteinsson

Víða í Evrópu er lögð vaxandi áhersla á svokölluð lífgasver sem vinna orku (metan) og koltvísýring úr lífrænum hliðarstraumum, t.d. búfjáráburði, garðyrkjuúrgangi eða jafnvel skólpi. Auk orku og verðmæts koltvísýrings kemur verðmætur, auðleysanlegur og gerilsneyddur lífrænn áburður út úr ferlinu. Lífgasver í Evrópu eru í eigu ýmissa hagsmunaaðila, t.d. bænda, samvinnufélaga, orkufyrirtækja eða sveitarfélaga.

Orkídea, samstarfsverkefni um nýsköpun í matvælaframleiðslu og líftækni á Suðurlandi, hefur lagt áherslu á að kynna þessa umhverfisvænu orkuframleiðslu enda er Orkídea, þrátt fyrir stuttan starfstíma, þátttakandi í tveimur stórum Evrópuverkefnum, Value4Farm og Terraforming LIFE, sem hverfast um lífgasvinnslu og hringrásarlausnir.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um aukinn áhuga samfélaga á þessu ferli. Ríki Evrópu leggja mikla áherslu á hringrásarferli og sjálfbæra orkuframleiðslu, ekki síst vegna afleiðinga innrásar Rússa í Úkraínu sem hefur valdið mikilli hækkun á orku og tilbúnum áburði. Bændur á Íslandi hafa ekki farið varhluta af þessum hækkunum, sem hafa orsakað mikla erfiðleika í búrekstri samhliða háum vöxtum á lánsfé.

Þó að Ísland sé í efsta sæti þjóða í notkun endurnýjanlegrar orku eru enn orkusvið hérlendis sem nýta jarðefnaeldsneyti, t.d. flutningar og vinnuvélar, ekki síst í landbúnaði. Ekki er víst að rafmagn sé heppilegasti valkosturinn þar, bæði vegna þyngdar véla og takmarkaðs vinnslutíma á hleðslu. Metanvinnuvélar og -flutningatæki hafa verið á boðstólum lengi og tæknin er þrautreynd, a.m.k. í vélum sem eru framleiddar sem slíkar frá gæðaframleiðendum. Notkun metans er vænlegur og nærtækur valkostur í áframhaldandi orkuskiptum þjóðarinnar.

Íslenskt samfélag er komið stutt á veg í vinnslu á lífrænum áburði og lífgasi. Nokkrar áhugaverðar tilraunir með lífgasgerð hafa verið gerðar en engin þeirra verið langlíf að undanskilinni metanframleiðslu Sorpu, bæði frá landfyllingu úrgangs og gasgerðarstöðinni GAJA í Álfsnesi. Veldur þar mestu skortur á innviðum hérlendis, t.d. skortur á gasneti og virkum markaði með metan. Í mörgum landshlutum höfum við notið ódýrs jarðhita og rafmagns sem hefur gert gasvæðingu óþarfa.

Á Íslandi er því lítil sem engin hefð, þekking eða reynsla af lífgasframleiðslu og því lítill stuðningur eða ívilnanir til þeirra sem hefðu áhuga á slíkri framleiðslu. Þrátt fyrir þetta er ljóst að í lífrænum úrgangi frá íslenskum landbúnaði liggja mikil verðmæti sem hægt væri að nýta til framleiðslu á lífgasi og áburði. Sem dæmi fluttu Íslendingar inn árið 2022 alls 50.809 tonn af áburði og jarðvegsbætandi efnum fyrir um 5,6 milljarða króna. Það er því mikill ávinningur af því að auka sjálfbærni með því að nýta innlenda efnisstrauma til áburðar- og orkuframleiðslu.

Til að svo megi verða þarf vilja og sameiginlegt átak helstu hagsmunaaðila, bændasamfélagsins, sveitarfélaga og ríkisvaldsins. Orkídea hefur unnið með garðyrkjubændum og kornbændum á Suðurlandi við að skoða rekstrargrundvöll áburðar- og lífgasvers því öllu máli skiptir að reksturinn sé sjálfbær. Við erum komin langt með þá vinnu og er samstarf um þekkingaröflun við líforkuver á Norðurlandi í burðarliðnum. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur einnig sýnt þessum málum mikinn áhuga og viðræður eru í gangi við ráðuneytið um framgang þessa verkefnis.

Framtíðin er mótuð, hringrásarferli og sjálfbærni er eina leiðin áfram.

Höfundur er framkvæmdastjóri Orkídeu, samstarfsverkefnis um nýsköpun í matvælaframleiðslu og líftækni á Suðurlandi, www.orkidea.is