Listamaðurinn Þór hefur alltaf unnið með fundna hluti. Á sýningu hans í Hafnarborg má finna ýmis leiðarstef.
Listamaðurinn Þór hefur alltaf unnið með fundna hluti. Á sýningu hans í Hafnarborg má finna ýmis leiðarstef. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þór Sigurþórsson sýnir verk á sýningunni Vísar í Hafnarborg. Í sýningartexta segir að í verkum hans megi „finna viss leiðarstef – vísa…

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Þór Sigurþórsson sýnir verk á sýningunni Vísar í Hafnarborg. Í sýningartexta segir að í verkum hans megi „finna viss leiðarstef – vísa – sem áhorfandanum er látið eftir að sjá hvert leiða hann. Þá vinnur listamaðurinn gjarnan með fundna hluti eða hversdagslega hluti sem hann setur í nýtt samhengi svo óvæntar tengingar myndast þvert á tíma og rúm. Efniviðurinn inniheldur leifar af tíma og vekur upp vangaveltur um endurtekningu, hringrás og gang tímans. Skilningi okkar á hversdagslegum hlutum er þannig snúið á hvolf og okkur birtast naum en næm myndljóð, þar sem reynsla, skynjun og úrvinnsla vísa til hverfuls heims á mörkum ræðni og óræðni.“

Ljóðrænt lím

Á sýningunni í Hafnarborg vinnur Þór, eins og svo oft áður, með fundna hluti. „Þetta eru skúlptúrar, flestir eru gerðir úr tjaldhælum, aðrir úr gömlum ljósaskermum og svo eru skúlptúrar úr klukknavísum,“ segir Þór. „Þetta eru allt gamlir og notaðir hlutir, eins og sést mjög vel á ljósaskermunum sem hafa gulnað áberandi mikið.“

Spurður af hverju hann noti fundna hluti í verk sín segir hann: „Ég veit ekki hvers vegna. Sumir listamenn fá snemma áhuga á að teikna eða mála en aðrir byrja snemma að safna hlutum að sér, handfjatla þá og skoða. Ég hef alltaf unnið með fundna hluti og geri mismikið við þá. Ljósaskermana hef ég eiginlega eins og þeir koma fyrir og stilli þeim upp á sýningarvegginn. Í mörgum öðrum skúlptúrum nota ég sterkt lím. Mér finnst eitthvað ljóðrænt við að nota lím sem festir hlutina í staðinn fyrir að til dæmis sjóða þá saman. Þegar ég nota lím til að skapa skúlptúr úr klukknavísum þá finnst mér eins og ég sé að líma tímann saman.“

Þór segist hafa haft mikla ánægju af að gera verkin. „Eitt verkanna, gert úr tjaldhælum, rís hátt og virkar viðkvæmt og óstöðugt, öfugt við tilgang tjaldhæla sem er að veita stöðugleika. Í öðru verki er mergð af tjaldhælum að troða sér í eitt gat. Tjaldhælar bjóða upp á alls konar tengingar og vísanir, eins og í fólk og ferðalög, náttúru, mannvirki, tíma og rými. Ég vil samt ekki segja fólki hvernig það eigi að túlka verkin, hverjum og einum er frjálst að túlka þau á sinn hátt.“

Þór hefur tekið þátt í fjölda samsýninga bæði hér á landi og erlendis og hefur einnig haldið einkasýningar. Sýning hans í Hafnarborg stendur til 24. mars. Á morgun, laugardag, kl. 14 tekur Þór á móti gestum og spjallar um sýningu sína.