Uppstokkun Forsetaskrifstofan í Úkraínu sendi þessa mynd frá sér í gær frá fundi Volodimírs Selenskís forseta Úkraínu og Valerís Salúsjnís, sem nú hefur verið vikið úr stöðu yfirmanns úkraínska hersins, í Kænugarði.
Uppstokkun Forsetaskrifstofan í Úkraínu sendi þessa mynd frá sér í gær frá fundi Volodimírs Selenskís forseta Úkraínu og Valerís Salúsjnís, sem nú hefur verið vikið úr stöðu yfirmanns úkraínska hersins, í Kænugarði. — AFP/Fréttaþjónusta forsetaembættis Úkraínu
Karl Blöndal kbl@mbl.is Valerí Salúsjní, yfirmanni úkraínska heraflans, hefur verið vikið úr stöðu sinni og Oleksandr Sirskí, sem leitt hefur landherinn, tekið við. Salúsjní er vinsæll heima fyrir og hefur leitt úkraínska herinn frá því áður en Rússar gerðu innrás í Úkraínu fyrir tæpum tveimur árum og er þetta mesta uppstokkun, sem gerð hefur verið í úkraínska hernum frá innrásinni.

Karl Blöndal

kbl@mbl.is

Valerí Salúsjní, yfirmanni úkraínska heraflans, hefur verið vikið úr stöðu sinni og Oleksandr Sirskí, sem leitt hefur landherinn, tekið við. Salúsjní er vinsæll heima fyrir og hefur leitt úkraínska herinn frá því áður en Rússar gerðu innrás í Úkraínu fyrir tæpum tveimur árum og er þetta mesta uppstokkun, sem gerð hefur verið í úkraínska hernum frá innrásinni.

Salúsjní bauð rússneska hernum birginn í innrásinni og tókst að hrekja innrásarherinn til baka á fyrstu mánuðum stríðsins. Fjara fór undan honum þegar gagnsóknin í fyrrasumar, sem miklar vonir voru bundnar við, mistókst og ágreiningur við Volodimír Selenskí leiðtoga Úkraínu varð honum ekki til framdráttar í herbúðum forsetans.

„Við áttum í dag hreinskiptið samtal um hvað þurfi að breytast í hernum. Brýnar breytingar,“ sagði Selenskí í yfirlýsingu á félagsmiðlum. „Ég hef boðið Salúsjní hershöfðingja að vera áfram í liði úkraínska ríkisins. Ég yrði þakklátur ef hann féllist á það.“

Sirskí hefur getið sér gott orð fyrir að verja Kænugarð vorið 2022 og að leiða leiftursókn Úkraínu í Karkív-héraði haustið sama ár.

Í rúmt ár hefur verið barist í skotgröfum gegn mun fjölmennari Rússum á langri víglínu, sem lítið hefur hreyfst. Selenskí hefur nú skorað á herinn að grípa til nýrra leiða til að brjóta rússneska herinn á bak aftur og sagði að ætti árangur að nást á þessu ári yrði að „gera skilvirkar breytingar á vörnum landsins, það er úkraínska hernum“.

„Járnhershöfðinginn“ vinsæll

Miklar vangaveltur hafa verið um framtíð Salúsjnís undanfarna daga. Úkraínskir fjölmiðlar kalla hann „járnhershöfðigjann“. Hann hefur orðið að táknmynd andspyrnunnar gegn Rússum og nýtur mikillar hylli hjá almenningi. Hann nýtur líka mikillar virðingar meðal hermanna sinna, sem margir líta upp til hans eins og föður, segir í fréttaskýringu AFP.

Salúsjní varð yfirmaður úkraínska herráðsins 2021, fyrir innrás Rússa. Hann er fimmtugur og hlaut menntun sína í herskóla sovéska hersins í Odesa. Mestan hluta ferils síns hefur hann hins vegar þjónað í úkraínska hernum eftir að Úkraína fékk sjálfstæði. Hann var næstráðandi í herliðinu, sem barðist á víglínunni skammt frá Bakmút þegar Rússar sölsuðu undir sig austurhéruð Úkraínu 2014.

Hershöfðinginn hefur yfirleitt forðast hið pólitíska sviðsljós, en hann gat sér orð fyrir nokkur helstu hernaðarafrek Úkraínumanna í upphafi stríðsins, þar á meðal frelsun borgarinnar Kerson í nóvember 2022.

Pattstöðuviðtalið vakti athygli

Salúsjní hefur ásamt Selenskí ítrekað verið sá Úkraínumaður sem landsmenn hafa borið mest traust til samkvæmt skoðanakönnunum, sem gerðar hafa verið eftir að stríðið hófst. Í haust hefur traust til Selenskís dalað, en traust til Salúsjnís haldið sér. Þetta hefur orðið kveikja að vangaveltum um að Salúsjní kynni að bjóða Selenskí birginn næst þegar blásið verður til kosninga.

Opinber ummæli Salúsjnís í viðtölum við vestræna fjölmiðla hafa reynst Selenskí þyrnir í augum, ekki síst vegna þess að hann hefur verið að reyna að tryggja einingu meðal almennings um mál á borð við herkvaðningu.

Í nóvember í fyrra sagði Salúsjní í viðtali við breska fréttatímaritið The Economist að komin væri upp „pattstaða“ í stríðinu við Rússa og það yrði „líklega ekki neitt djúpt og fallegt“ gegnumbrot í gegnum raðir Rússa.

Sagði hann að átökin minntu sig á fyrri heimsstyrjöld og kenndi tæknistiginu um stöðuna. Tæknistökk þyrfti til að höggva á hnútinn. Kvaðst hann einnig hafa vanmetið hvað Rússar væru tilbúnir að sætta sig við mikið mannfall í sínum röðum.

Bar viðtalið ekki undir forsetann

Hann mun ekki hafa borið viðtalið við Economist og grein sem fylgdi undir skrifstofu forsetans.

Selenskí hafnaði því alfarið að stríðið væri í pattstöðu. Á þessum tíma lagði hann áherslu á að knýja fram hernaðarlega aðstoð frá bandamönnum Úkraínu og einkenndist málflutningur hans af bjartsýni.

Þremur mánuðum síðar skrifaði Salúsjní grein fyrir fréttastöðina CNN þar sem hann sagði að regluverk væri hernum fjötur um fót og hvatti til tafarlausrar nývæðingar.

Sagði hann að ekki yrði hægt að fjölga í hernum nema löggjafinn gripi til „óvinsælla“ aðgerða til að kveðja fleiri í herinn.

Ákall um herkvaðningu hálfrar milljónar manna í viðbót til að leysa af úrvinda hermenn er hins vegar mjög viðkvæmt mál hjá þjóð, sem hefur mátt þola miklar búsifjar í stríðinu.