Jón Þ. Hilmarsson
Jón Þ. Hilmarsson
Átakanlegur skortur ríkisskattstjóra á hreinskilni er ekki til fyrirmyndar.

Jón Þ. Hilmarsson

Ofsköttun tiltekinna eigenda einkahlutafélaga vegna meintra „umráða“ yfir íbúðum og ökutækjum hefur verið í sviðsljósinu undanfarið. Ríkisskattstjóri hefur að því er virðist skipulagt ólögmæta aðför að skattgreiðendum og greitt ákveðnum starfsmönnum bónusa fyrir útfærsluna. Samkvæmt nýlegum fréttum í Mbl. námu viðurkenndir og greiddir bónusar kr. 260 milljónum á árunum 2020-2023.

Svör skattsins í Morgunblaðinu 27.1. 2024 eru í raun viðurkenning á bónusgreiðslum til starfsmanna í skatteftirliti enda var um það spurt sérstaklega. Nýtilkomnar upplýsingar á heimasíðu skattsins um almennar reglur vegna viðbótarlauna til starfsmanna ríkisins falla vel að bónusgreiðslum með tilheyrandi offorsi í skattheimtu. Átakanlegur skortur ríkisskattstjóra á hreinskilni er ekki til fyrirmyndar.

Ofbeldi

Myndin sem við blasir er nokkuð augljós. Ríkisskattstjóri hefur ítrekað beitt ofbeldi við skattheimtu, gengið eins langt og jafnvel lengra en frekast var unnt þrátt fyrir að honum hefði verið bent á að hann væri að brjóta skattalög, eigin opinberu reglur, stjórnsýslulög og tvenn ákvæði stjórnarskrár. Verður að þessu upplýstu betur skilið að engin rök eða skýringar bitu og að skattþegnar voru nánast réttlausir. Svo alvarleg var þessi aðför, að engum skyldi sætt.

Bónusdeildin

Ljóst er að réttarspjöll hafa orðið í meðferð einstakra kærumála á áðurnefndu árabili. Það er lágmarkskrafa að ríkisskattstjóri upplýsi þá gjaldendur sem í hlut áttu hvort og þá hve stór skerfur af innheimtum fjármunum þeirra hafi runnið í vasa tiltekinna starfsmanna hans. Hámarksálagsbeiting á skattstofna var ugglaust viðhöfð í flestum tilfellum og hefur væntanlega styrkt tilkall starfsmanna til hærri bónusa. Fyrirkomulagið getur þannig hafa gefið bónusþegunum visst svigrúm til sjálfsákvörðunar launa sinna með því að vinna „vel“.

Ríkisskattstjóri hefur ekki upplýst hvort starfsmenn skattsins hafi fengið og haldið bónusálagi sínu fyrir innheimtu sem ekki fékkst staðist eftir öndverða niðurstöðu yfirskattanefndar eða dómstóla löngu síðar. Bónusþegunum gat hins vegar ekki dulist að þeir voru ekki alltaf á traustum ís við „vel“ unnin störf og má það merkja af alvarlegum skorti á rökstuðningi í aðskiljanlegum úrskurðum um stór sem smá skattamál.

Að öðru jöfnu eru laun opinberra starfsmanna greidd af öllum skattborgurum jafnt, ekki sérvöldum, og mögulega þar ofan í kaupið að ákvörðun einstakra opinberra starfsmanna sjálfra varðandi eigin laun. Slíkt fyrirkomulag verður að skoðast siðlaus framkvæmd.

Fitun

Það er einnig til umhugsunar að hinn óheppilegi dómur Hæstaréttar um íbúðarhlunnindi frá árinu 2005 virðist hafa legið lágt fyrstu árin þar á eftir. Eitthvað varð til að hleypa aðför af stað seint og um síðir, hvort sem það voru bein fyrirmæli að „ofan“ eða sjálfstætt framtak ríkisskattstjóra. Dómurinn frá 2015 sem átti að fjalla um bifreiðahlunnindi varð að bifreiðaumráðum og var biturt vopn í höndum bónusþeganna.

Áhrif dómanna komu ekki að fullu fram fyrr en eftir vel rúman áratug frá dómsuppkvaðningu 2005 og um hálfum áratug frá dóminum 2015. Skatturinn hefur því fyrsta kastið í ásýnd byggt skattlagningu á tekjuskattslögunum þrátt fyrir umrædda dóma og ef til vill hugsað sér gott til glóðarinnar síðar.

Skatturinn virðist síðan í fyllingu tímans hafa byrjað að klóra inn „umráðaskatt“ afturvirkt. Ekki er til þess vitað að skatturinn hafi upplýst skattþegna um þýðingu dómanna og að hann hefði í hyggju að kúvenda frá fyrri aðferðum varðandi framkvæmd skattlagningar.

Hreinsun

Það hlýtur að vera krafa af sjónarhól skattþegna að umræddir bónusþegar víki alfarið úr störfum sem lúta að skattrannsókn, að minnsta kosti meðan mál eru skoðuð. Það ætti ekki að líðast að meintir brotamenn undir stjórn hins meinta brotlega ríkisskattstjóra geti í framtíð komið að málum sem snerta fórnarlömb þeirra og búið til ný ef því er að skipta.

Það er ekki hægt að setja lokið á þetta grafalvarlega mál og skattþegnar verða að fá að njóta lögmæltrar verndar. Aðrir starfsmenn skattsins geta heldur ekki búið við að hinum megin við vegginn séu samstarfsmenn á fullum launum og kaupaukum við „svarta“ skattheimtu.

Umboðsmaður

Stjórnvald hefur ljóslega misbeitt valdi sínu, burtséð frá bónusgreiðslum, og brotið gróflega á grundvallarréttindum tiltekinna skattþegna og haft af þeim milljarða króna í formi skattlagningar, álags og kostnaðar við málsvörn. Umboðsmaður Alþingis, verndari almennings, þarf nú að standa undir þeirri ábyrgð að eigin frumkvæði.

Höfundur er endurskoðandi.