Gunnlaugur Breiðfjörð Óskarsson fæddist í Hafnarfirði 26. september 1938. Hann lést á Dvalarheimilinu Lundi á Hellu 24. janúar 2024. Foreldrar hans voru Ragnheiður Helgadóttir f. í Hafnarfirði 1900, d. 1976, og Óskar Breiðfjörð Jónsson, f. í Arney á Breiðafirði 1903, d. 1984. Eiginkona Gunnlaugs var Áslaug Gyða Guðmundsdóttir, f. í Reykjavík 1940, d. 2022. Fyrri eiginkona Gunnlaugs var Guðbjörg Gréta Bjarnadóttir, f. í Reykjavík 1940. Þau skildu. Börn þeirra eru Ásta B. Gunnlaugsdóttir, f. 1961, og Óskar Gunnlaugsson, f. 1962. Óskar er kvæntur Hrönn Helgadóttur. Börn þeirra eru Ástrós Líf, Kristján Werner, Hrefna og Gunnlaugur Bjartur. Eiginmaður Ástu er Samúel Örn Erlingsson, dætur þeirra eru Hólmfríður Ósk og Greta Mjöll. Eiginmaður Hólmfríðar er Arnar Jónsson og börn þeirra Ída María og Bastían. Eiginmaður Gretu er William Óðinn Lefever, börn þeirra eru Regína Anna, Samúel Fróði og Kolbeinn Mói.

Gunnlaugur ólst upp í Hafnarfirði og gekk í Barnaskóla Hafnarfjarðar (Lækjarskóla). Hann byrjaði snemma að vinna fyrir sér og fór ungur að heiman. Hann starfaði í RafHa í Hafnarfirði frá unga aldri og var lengi kallaður Gulli í RafHa. Hann hóf nám í húsamálun 1959 og varð málarameistari. Gulli sinnti svo ýmsum störfum, var sjómaður um árabil en síðan húsamálari í áratugi. Í lok áttunda áratugarins var Gulli um þriggja ára skeið málari hjá BPA í Gautaborg, sem var þá einn stærsti verktaki í húsamálun á Norðurlöndum. Þar varð hann verkstjóri, þrátt fyrir að tala meira íslensku en sænsku. Þegar heim kom tóku þeir Magnús Sigurðsson málarameistari í Kópavogi saman stilltum höndum í meira en aldarfjórðung. Gulli lét af störfum tæplega sjötugur alvarlega veikur af sykursýki og var fatlaður af hennar völdum síðustu 15 ár ævinnar. Eftir Gautaborgardvölina lágu saman leiðir Gunnlaugs og Áslaugar Gyðu, sem varð eiginkona hans. Þau bjuggu saman í miklum kærleik á Langholtsvegi og í Boðaþingi í 40 ár. Ása varð Gulla bæði stoð og stytta eftir því sem veikindi hans ágerðust, allt þar til hún missti heilsuna. Hún féll frá í janúar 2022.

Gunnlaugur verður jarðsunginn í Lindakirkju í Kópavogi í dag, 9. febrúar 2024, klukkan 15.

Gulli var gleðigjafi. Hann var hamhleypa til verka. Ekkert var ómögulegt, ekkert leiðinlegt. Hann sá ekki vandamál, bara úrlausnarefni, og var einstaklega útsjónarsamur. Tíminn var afstæður. Hann tengdi við alla. Var húmoristi af guðs náð og einstaklega orðheppinn. Gulli mátti ekkert aumt sjá. Ef hann gat hjálpað gerði hann það. Gleymdi þá stundum sjálfum sér og forgangsröðinni. En gladdi marga. Tengdapabbi minn var skemmtilegur samferðamaður í 40 ár.

Gulli var vinmargur og hafði farið víða. Við urðum vinir á fyrsta degi. Þessu fylgdu ný verkefni hjá kappanum, það varð fljótlega von á fjölgun í fjölskyldunni. Gulli var klár í bátinn. Þessu fylgdi hreiðurgerð. Þá var ekki málið að leggja nótt við dag. Með feðgana, hann og Óskar í liði, var ekkert ómögulegt. Einu skorðurnar voru að málningin þurfti að þorna. Ég var svo heppinn að mála talsvert með Gulla, Magga og Óskari, þegar mikið lá við. Það var skemmtilegt. Húmoristinn bjargaði jafnan öllu veseni. Það þurfti að hafa marga góða, ekki síst í fjölbýlishúsum. Gulli hafði lag á því. Eitt sinn var mjög ósáttur eigandi í fjölbýli búinn að lesa Gulla hraustlega pistilinn; eigendur höfðu deilt um litaval. Þegar hann þagnaði sagði Gulli honum að hann þyrfti að fá sér nýjan bíl. Maðurinn varð klumsa, en spurði hvað hann ætti við og Gulli svaraði: „Það er sami litur á bílnum þínum.“ Málið var ekki rætt frekar.

Gulli og Ása áttu heimili á Langholtsvegi í ríflega 30 ár, þar til þau fluttu í Boðaþing. Þau endurbyggðu fljótlega sumarbústað skammt frá Lögbergi. Þar dvöldu þau ekki síður en heima og þar var gott að vera. Gulli naut þess að verða afi og Ása varð ástrík amma. Þau voru til staðar fyrir okkur Ástu, við höfum reynt að endurgjalda það.

Gulli var léttur á fæti og afbragðsdansari á meðan fóta naut við. Hann var áhugamaður um íþróttir frá unga aldri, uppalinn í Haukum og alla tíð Haukur í horni. Hann var mesti stuðningsmaður dóttur sinnar í íþróttum. Hann þekkti vel til ÍR þar sem Ásta varð landsliðsmaður í frjálsum íþróttum og handbolta og var alla tíð mikill vinur Guðmundar Þórarinssonar frjálsíþróttaþjálfara. Hann varð síðan mesti áhugamaður um kvennafótbolta eins og við átti; og fylgdist grannt með dóttur sinni og dótturdætrum og afrekum þeirra.

Ása lést fyrir tveimur árum. Það var Gulla mikill harmur. Hann kolféll fyrir henni á fyrsta degi og hún fyrir honum. Hún var óþreytandi í að sjá um sinn mann, ekki síst þegar heilsunni hrakaði. Síðustu 15 mánuðina bjó Gulli á Dvalarheimilinu Lundi á Hellu, þar sem hann naut frábærrar þjónustu og aðstæðna. Hann var kátur síðustu dagana að horfa á HM í handbolta og var sáttur að leiðarlokum. Ég þakka dásamlegu starfsfólki Lundar fyrir einstaka og ástríka umönnun.

Elsku vinur. Nú hleypur þú um blómabrekkuna með Ásu. Fæturnir eins og nýir, gamanmál til hægri og vinstri. Guð blessi þig kæri minn, takk fyrir allt og allt.

Samúel Örn Erlingsson.

Elsku Gulli afi er farinn í sumarlandið. Farinn aftur í faðm ömmu sem hann hefur saknað svo sárt síðustu tvö árin. Það er alltaf skrítið að kveðja og það er alltaf sorglegt að kveðja. En svo getur líka verið fallegt að kveðja og um leið gleðjast yfir því þegar fólk fær að lifa löngu og innihaldsríku lífi. Lífi sem skilur eftir sig haug af hlýjum minningum, góðu fólki og afkomendum sem segja áfram sögurnar og bera boðskapinn.

Afi var mér alveg yndislegur afi. Hlýr og góður en alltaf stutt í beittan húmorinn og brosið sem lét augun hverfa. Keppnisskap okkar mæðgna held ég að hljóti að koma frá honum. Það var allt og alltaf keppni. Afi fylgdist grannt með helst öllum íþróttum og fylgdi mér eftir í öllum mínum. Áður en fæturnir brugðust mætti hann á hvert frjálsíþróttamót og fylgdist með hverju skrefi. Ekki minnkaði þetta með árunum og nú síðustu misseri þegar dóttir mín var farin að keppa var afi fyrstur í símann að spyrja hvað Regína væri búin að skora mörg. Hún, blessunin, virðist ekki hafa sloppið við keppnisskap langafa síns frekar en ég eða mamma. Svo kemur bara í ljós hvort hún muni svindla við að leggja kapal eins og amma hennar, algjör óþarfi að þurfa að tapa þegar maður getur unnið.

Afi var gjafmildari en nokkur sem ég þekki. Hann vildi allt fyrir alla gera og öllum allt gefa. Það verður kannski enginn ríkur með þessu móti og afi gaf jafnvel umfram innistæðu en ég heillast af hugmyndafræðinni. Af hverju að sitja á því einn þegar hægt er að gefa með sér? Afi naut alltaf lífsins og var nautnaseggur fram í fingurgóma. Hvort sem það var skynsamlegt eða ekki lét hann sykursýkina ekki stjórna sér og bað mig iðulega sem barn að rétta sér einn súkkulaðimola í viðbót þegar amma sá ekki til.

Þakklátust er ég fyrir áhugann og tímann sem hann gaf mér og fjölskyldunni minni. Afi hafði skoðun á öllu og hikaði ekki við að deila henni með manni, beðinn og óumbeðinn. Hann var svo ánægður með okkur að ákveða að flytja út á land og velja að búa fyrir austan. Hann hafði áhyggjur af færðinni þegar við þurftum að ferðast og kom iðulega með nýjar hugmyndir um hvernig best væri að selja sósurnar okkar á heimsvísu. Hann studdi okkur hjónin við ýmis verk við litla húsið okkar á Djúpavogi og var guðslifandi feginn að við skyldum loksins ákveða að gifta okkur eftir öll þessi ár saman. Hæstánægður að ég væri búin að fastskorða Óðin í fjölskylduna, enda voru þeir alltaf mestu mátar.

Fyrir hönd okkar Óðins og barnanna okkar þökkum við afa fyrir öll yndislegu augnablikin, pönnukökurnar í bústaðnum, stundirnar á Langholtsveginum, blómin og köngulærnar í Boðaþingi og allar hinar minningarnar sem munu hlýja okkur áfram og alltaf.

Nú vona ég að þú hámir í þig allt sykraða súkkulaðið, elsku afi. Dansandi á tveimur jafnfljótum við ömmu þarna hinum megin, langt, langt inn í nóttina.

Þín

Greta Mjöll.

Gulli var skemmtilegur kall. Ég var svo lánsöm að fá hann að láni hjá eldri systkinum mínum. Ég eignaðist þar með eins konar bónuspabba og afa Gulla. Hann var alltaf svo góður við mig og mína, rétt eins og ég væri hans eigin dóttir. Hann var alltaf boðinn og búinn að hjálpa. Öll mín fjölskylda á honum margt að þakka. Þegar ég og þáverandi eiginmaður minn, Enrique, fluttum til Íslands tók Gulli hann undir sinn verndarvæng. Hann útvegaði honum að lokum vinnu, þar sem hann starfar enn. Gulli gaukaði líka oft að mér smáhjálp þegar ég var einstæð móðir í námi. „Hérna“, sagði hann og laumaði nokkrum seðlum í lófann á mér; „kauptu eitthvað handa krökkunum“. Gulli mátti ekkert aumt sjá. Hann var í rauninni pínu of góður fyrir þennan heim. Krökkunum þótti alltaf skemmtilegt að fara í heimsókn til Gulla og Ásu í sumarbústaðinn þeirra. Þar var alltaf tekið vel á móti okkur.

Takk fyrir allt, Gulli minn. Mér finnst við hæfi að enda þetta á sama hátt og þú endaðir símtölin ævinlega, það er; að kveðja ekki.

Kristrún
Hermannsdóttir.

hinsta kveðja

Takk pabbi, þú varst mér góður. Takk fyrir að hvetja mig. Takk fyrir að hafa trú á mér. Takk fyrir hjálpsemina og alla hjálpina. Takk fyrir að vera blíður. Takk fyrir að vera góður maður og svo góðhjartaður. Takk fyrir að elska mig, styðja mig og fylgja mér. Takk fyrir gleðina, gamansemina og brosið. Takk fyrir að kenna mér að það líður öllum betur í kringum þá sem brosa. Góða ferð yfir í annan heim, elsku pabbi minn. Ég elska þig.

Ásta B.
Gunnlaugsdóttir.