Hraun yfir veg Hraun fór að renna yfir Grindavíkurveg klukkan 10.20 í gærmorgun og um einni og hálfri klukkustund síðar rauf það Njarðvíkuræðina sem sér Suðurnesjum fyrir heitu vatni.
Hraun yfir veg Hraun fór að renna yfir Grindavíkurveg klukkan 10.20 í gærmorgun og um einni og hálfri klukkustund síðar rauf það Njarðvíkuræðina sem sér Suðurnesjum fyrir heitu vatni. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eldgosið sem hófst milli Sundhnúka og Stóra-Skógfells í gærmorgun er snoðlíkt síðustu tveimur gosum sem urðu við Grindavík hinn 14. janúar annars vegar og við Sundhnúkagíga hinn 18. desember hins vegar, að mati Ármanns Höskuldssonar prófessors í eldfjallafræði við Háskóla Íslands

Agnar Már Másson

agnarmar@mbl.is

Eldgosið sem hófst milli Sundhnúka og Stóra-Skógfells í gærmorgun er snoðlíkt síðustu tveimur gosum sem urðu við Grindavík hinn 14. janúar annars vegar og við Sundhnúkagíga hinn 18. desember hins vegar, að mati Ármanns Höskuldssonar prófessors í eldfjallafræði við Háskóla Íslands.

„Þessi þrjú gos sem eru búin að vera hér eru öll keimlík. Þetta eru svona glæsileg sprungugos sem byrja með kvikustrókum eftir sprungunni og með miklum krafti og eru fljót að tæma sig,“ segir Ármann í samtali við Morgunblaðið.

Hraunflæðið eins

Hraunflæðið í gosinu sem hófst í gær er u.þ.b. jafnmikið og var í eldsumbrotunum við Sundhnúkagíga 18. desember. „Það er bara alveg eins,“ segir Ármann. „Eini munurinn er að hraunstraumurinn fór nú til vesturs og þar er brattara niður og þá nær hraunið að fara fljótt í farvegi og þegar það er komið í farvegi getur það runnið ansi langt,“ bætir hann við.

Þá telur Ármann að gosið verði stutt en undir kvöld voru aðeins tveir hlutar af sprungunni virkir og lítil glóð eftir í hrauninu. Hraunflæðið hafði einnig hægt á sér til muna. Alls flæddi hraun um 4,5 km frá gosstöðvunum í vesturátt og fór yfir Grindavíkurveg og Njarðvíkuræðina sem sér íbúum Suðurnesja fyrir heitu vatni en möstur Svartsengislínu 1 sluppu þótt hraun hefði runnið meðfram þeim.

„Þetta getur verið fram á laugardag eða sunnudag að hámarki,“ segir Ármann. „Það eru tveir partar af sprungunni virkir. Þeir dæla alveg hrauni út þótt kvikustrókavirkni falli niður.“

Skýr merki um að land hafi sigið

Ljóst er að land seig í Svartsengi þegar gosið hófst í gærmorgun en það er líklega aftur farið að rísa, að sögn jarðeðlisfræðingsins Benedikts Gunnars Ófeigssonar, sem er fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands.

„Við sáum skýr merki um landsig í Svartsengi samfara innskotinu. Hvort land sé farið að rísa aftur er aðeins of snemmt að segja, en mér finnst það mjög líklegt. Fyrri gos hafa ekkert stoppað landrisið. Það bara heldur áfram,“ segir Benedikt við mbl.is.

Þrjár vikur milli gosa

Svipaður tími, um þrjár vikur, leið á milli gosanna 18. desmber og 14 janúar og á milli síðarnefnda gossins og þess sem hófst í gær.

Er hægt að spá öðru gosi eftir þrjár vikur?

„Það liggur við,“ svarar Benedikt. „Sjáum fyrst hver hraðinn á landrisinu er. Besta vísbendingin er líka rúmmálsmatið, sem gefur okkur hugmynd um hvenær rúmmálið er aftur komið í svipaða stöðu.“

Ármann gefur svipað svar: „Já. Ef það heldur áfram að dælast svona inn í neðra [kviku]hólfið sem er þarna undir þá heldur þetta áfram. Þetta er svona ventill. Eins og þegar maður er að sjóða vatn og er með lok á, og eftir smá byrjar lokið að glamra því þrýstingurinn er orðinn of mikill.“