Tyrkjabani Ragnar Sigurðsson skoraði bæði mörkin þegar Ísland vann Tyrki, 2:1, í síðustu heimsókn þeirra á Laugardalsvöllinn.
Tyrkjabani Ragnar Sigurðsson skoraði bæði mörkin þegar Ísland vann Tyrki, 2:1, í síðustu heimsókn þeirra á Laugardalsvöllinn. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Wales, Svartfjallaland og Tyrkland verða mótherjar Íslands í Þjóðadeild karla í fótbolta 2025 en dregið var í riðla hennar í París í gær. Ísland er í B-deild í annað skiptið í röð eftir að hafa verið í A-deild í fyrstu útgáfu keppninnar

Þjóðadeild

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Wales, Svartfjallaland og Tyrkland verða mótherjar Íslands í Þjóðadeild karla í fótbolta 2025 en dregið var í riðla hennar í París í gær.

Ísland er í B-deild í annað skiptið í röð eftir að hafa verið í A-deild í fyrstu útgáfu keppninnar.

Wales, sem er í 29. sæti heimslista FIFA, er mótherjinn úr fyrsta styrkleikaflokki en í honum voru liðin sem féllu úr A-deildinni. Hinir möguleikarnir voru England (3. sæti heimslistans), Austurríki (24) og Tékkland (39).

Svartfjallaland (70) kom úr þriðja flokki en þar voru einnig Albanía (62), Írland (60) og Slóvenía (54).

Tyrkland (37) kom svo úr fjórða flokki en þar voru þjóðirnar sem unnu riðla C-deildar í síðustu keppni. Hinar voru Georgía (77), Grikkland (47) og Kasakstan (100).

Segja má því að Ísland hafi verið þokkalega heppið með riðil, að því undanskildu að fá Tyrki úr fjórða flokki en þeir eru án efa sterkasta þjóðin sem hægt var að fá þaðan.

Ísland er í 71. sæti heimslistans og því neðst af þjóðunum fjórum í riðlinum.

40 ár frá eina sigrinum

Ísland lék síðast gegn Wales árið 2014 og tapaði þá vináttuleik í Cardiff, 3:1. Eini sigur Íslands í sjö leikjum þjóðanna kom í undankeppni HM á Laugardalsvellinum fyrir fjörutíu árum, árið 1984, þegar Magnús Bergs skoraði sigurmarkið, 1:0. Jafntefli þjóðanna, 2:2, í Cardiff árið 1981 var afar óvænt en Ásgeir Sigurvinsson skoraði tvö glæsileg mörk og kom í veg fyrir að Wales kæmist á HM 1982.

Ísland hefur aðeins einu sinni mætt Svartfjallalandi, árið 2012, og tapaði þá vináttuleik þjóðanna í Podgorica, 2:1, þar sem Alfreð Finnbogason skoraði mark Íslands.

Einstakt tak á Tyrkjum

Ísland hefur síðan haft einstakt tak á Tyrkjum og unnið átta af 13 viðureignum þjóðanna, og aðeins tapað tvisvar.

Liðin voru saman í riðli í undankeppni EM 2020 þar sem Ísland vann 2:1 á Laugardalsvellinum, með tveimur mörkum Ragnars Sigurðssonar, og liðin gerðu markalaust jafntefli í Tyrklandi.

Tyrkir hafa aldrei unnið í sjö heimsóknum til Íslands og Ísland hefur unnið sex leikjanna. Það er eiginlega ótrúleg útkoma miðað við að Tyrkir hafa oftast verið hærra skrifaðir en Íslendingar þegar að leikjum þjóðanna hefur komið.

Umspil milli deilda

Leikir í riðlakeppni Þjóðadeildarinnar eru sex og fara fram á tímabilunum 5.-10. september, 10-15. október og 14.-19. nóvember, en nú verður fjölgað leikjum hjá um helmingi liðanna með því að taka upp umspil á milli deilda.

Ef íslenska liðið endar í öðru eða þriðja sæti síns riðils í B-deildinni fer það í umspil. Ef það endar í öðru sæti mætir það liði sem lenti í þriðja sæti í riðli A-deildar og spilar um sæti þar, en ef íslenska liðið endar í þriðja sæti síns riðils í B-deildinni fer það í umspil um áframhaldandi sæti þar við lið sem endar í öðru sæti riðils í C-deildinni. Þessir umspilsleikir fara fram í mars 2025.

Tengist undankeppni HM

Þá gefur árangur í Þjóðadeildinni sem fyrr möguleika á að komast í umspil fyrir stórmót. Núna er það undankeppni HM 2026 sem tengist Þjóðadeildinni. Fjórar þjóðir sem ná bestum árangri í Þjóðadeildinni af þeim sem ekki komast áfram úr sínum riðlum undankeppni HM komast í umspilið um sæti á HM 2026.