Grindavík Keppst við að bjarga verðmætum. Frumvarp um rekstrarstuðning er komið til Alþingis. Stuðningur til greiðslu launa var lögfestur í gær.
Grindavík Keppst við að bjarga verðmætum. Frumvarp um rekstrarstuðning er komið til Alþingis. Stuðningur til greiðslu launa var lögfestur í gær. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Beinir styrkir ríkisins til að koma til móts við vanda rekstraraðila í Grindavík vegna jarðhræringa og eldsumbrota fyrir tímabilið nóvember í fyrra til og með apríl næstkomandi gætu staðið til boða á þriðja hundrað einyrkjum, fyrirtækjum og öðrum…

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Beinir styrkir ríkisins til að koma til móts við vanda rekstraraðila í Grindavík vegna jarðhræringa og eldsumbrota fyrir tímabilið nóvember í fyrra til og með apríl næstkomandi gætu staðið til boða á þriðja hundrað einyrkjum, fyrirtækjum og öðrum lögaðilum sem stunduðu atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi þegar rýma þurfti bæinn 10. nóvember.

Eins og fram hefur komið er gert ráð fyrir að styrkjafjárhæð til hvers og eins geti að hámarki numið sex milljónum kr. á mánuði ef um 100% tekjufall er að ræða. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, mælti í gær fyrir frumvarpi um rekstrarstuðninginn, þar sem þetta úrræði til sex mánaða er útfært. Benti hún á að óvissan um framvinduna og tjónið í Grindavík væri enn mikil og því gilti um þetta úrræði eins og önnur úrræði stjórnvalda að endurskoða þyrfti hvort og þá hvernig tekist yrði á við stöðuna þegar það rynni út í apríl. Staðan þá gæti verið allt önnur en í dag og miðað við atburði gærdagsins kynni óvissan að aukast enn hraðar.

Að mati ráðuneytisins gæti heildarfjárhæð þessara styrkja á tímabilinu orðið að hámarki 2,7 milljarðar kr. „Ef horft er eingöngu til þeirra rekstraraðila sem hafa þegar sótt um stuðning vegna greiðslu launa og áætlað að þeir aðilar hafi orðið fyrir slíku tekjufalli að þeir nýti sér einnig rekstrarstuðning má ætla að heildarkostnaður vegna úrræðisins gæti orðið um 1.600 millj. kr. Gerir matið ráð fyrir 100% tekjufalli hjá þeim rekstraraðilum og að hámarkið sé í öllum tilfellum bindandi, það felur í sér ofmat á heildarfjárhæðinni en á móti vegur að umsóknarfrestur vegna stuðnings við greiðslu launa er ekki liðinn og líklegt að fleiri aðilar sæki um þegar frá líður,“ segir í greinargerð frumvarpsins.

Gert er ráð fyrir að rekstraraðilar sæki um rekstrarstuðninginn til Skattsins fyrir hvern mánuð. Alls störfuðu 205 tekjuskattsskyldir rekstraraðilar í Grindavík sl. haust. Þar af eru 120 einyrkjar og 85 fyrirtæki með 2.410 starfsmenn. Að auki starfar 431 hjá Grindavíkurbæ, íþróttafélögum og stéttarfélögum. Jafnframt eru margir rekstraraðilar með starfsstöð í Grindavík en með höfuðstöðvar í öðrum sveitarfélögum og hafa nær 20 þeirra þegar sótt um stuðning til greiðslu launa vegna atburðanna.

Fram kemur að ekki liggja fyrir upplýsingar um tekjufall rekstraraðila á síðastliðnum mánuðum, auk þess sem erfitt er að áætla hvert tekjufallið verður í framtíðinni. Ekki liggur heldur fyrir rekstrarkostnaður rekstraraðila á sama tímabili og er því mat á hver kostnaður vegna stuðningsins verður eðli máls samkvæmt háð nokkurri óvissu.

Fjárhæð hvers rekstrarstyrks getur ekki orðið hærri en 600 þúsund kr. fyrir hvert stöðugildi á mánuði hjá rekstraraðila á þessu tímabili og aldrei hærri en sex milljónir á mánuði eins og fyrr segir. Eru styrkirnir taldir nýtast best litlum og meðalstórum fyrirtækjum, en samkvæmt gögnum Skattsins eru 85% rekstraraðila í Grindavík með færri en tíu starfsmenn, eða alls 120 einyrkjar og 55 fyrirtæki sem eru samanlagt með 340 starfsmenn.

„Fjórtán fyrirtæki eru með 10–20 starfsmenn (alls 193 starfa hjá þeim fyrirtækjum), sex fyrirtæki með 20–30 starfsmenn (alls 138 manns) og þrjú fyrirtæki með 30–50 starfsmenn (alls 113 manns). Alls sjö fyrirtæki hafa fleiri en 50 starfsmenn og þar af eru þrjú langstærst (alls 1.626 manns),“ segir í greinargerð. Er styrkjunum ætlað að mæta rekstrarkostnaði vegna tekjufallsins að frátöldum launakostnaði sem fæst bættur að hluta með tímabundnum stuðningi til greiðslu launa, sem samþykktur var sem lög á Alþingi í gær.

Ríkið og tólf lífeyrissjóðir undirrituðu samkomulag

120-150 milljóna stuðningur

Samkomulag hefur náðst við tólf lífeyrissjóði um stuðning ríkissjóðs vegna húsnæðislána lífeyrissjóða til einstaklinga í Grindavík. Greint var frá því í gær að fjármála- og efnahagsráðherra og fulltrúar lífeyrissjóðanna hefðu undirritað samkomulagið í gær, en áætlað er að það taki til 150-200 sjóðfélagalána. Stuðningur ríkisins er talinn verða 120-150 milljónir kr. Ríkið mun taka að sér að greiða áfallna vexti og verðbætur yfir sex mánaða tímabil af lánum sem nema að hámarki 50 milljónum kr.