Lúðvík Pétursson fæddist í Reykjavík 22. ágúst árið 1973. Hann lést af slysförum í Grindavík er hann vann við að fylla í jarðföll og sprungur sem þar höfðu myndast.

Foreldrar Lúðvíks voru Pétur Leví Elíasson, f. 13. ágúst 1937, d. 10. ágúst 2018, og Ásdís Hansen Lúðvíksdóttir, f. 15. október 1944, d. 11. júní 2019, frá Skálum á Langanesi. Pétur og Ásdís skildu 2008.

Systkini Lúðvíks eru Elías Pétursson, f. 13. júní 1965, búsettur í Reykjavík, sambýliskona Guðlaug María Sigurðardóttir. Jóhanna Soffía Hansen, f. 23. júlí 1966, búsett í Keflavík, maki Bjarni Jón Bárðarson. Lúðvík Pétursson, f. 20. febrúar 1971, d. 12. apríl 1971. Svava Þóra Bell, f. 26. mars 1972, búsett í Skotlandi, maki Alexander Brown Bell. Sölvi Leví Pétursson, f. 17. nóvember 1974, búsettur í Njarðvík.

Lúðvík giftist Bergdögg Hrönn Ólafsdóttur árið 2000. Börn þeirra eru Ásdís, f. 28. október 1997, trúlofuð Sighvati Bjarka Bjarkasyni, f. 16 janúar 1995, sonur þeirra er Tryggvi Freyr, f. 12. maí 2021. Ásta Kristín, f. 9 apríl 1999, sambýlismaður Vigni Ómari Vignisson Löve, f. 31. maí 1999, og Guðbjörn Scheving, f. 9. september 2001. Þau skildu 2003.

Lúðvík hóf sambúð með Lindu Þorvaldsdóttur 2005. Barn þeirra er Jökull Bragi, f. 7. febrúar 2008. Þau slitu samvistum 2015.

Lúðvík kynntist eftirlifandi unnustu sinni, Unni B. Árnadóttur, árið 2020. Börn hennar, uppkomin, eru Árni Fannar Kristinsson, unnusta hans er Sara Lind Ingvarsdóttir, sonur þeirra er Unnsteinn Orri, f. 17. desember 2022. Ása Karen Kristinsdóttir.

Lúðvík bjó á Kjalarnesi fram á unglingsár og gekk þar í grunnskóla en að honum loknum í gagnfræðaskólann í Mosfellsbæ. Að afloknu grunnskólaprófi 1989 flutti Lúðvík með foreldrum sínum til Svíþjóðar þar sem hann bjó í þrjú ár. Að lokinni dvöl í Svíþjóð sótti Lúðvík sjó frá Vestmannaeyjum við góðan orðstír. Snemma á tíunda áratugnum hóf Lúðvík störf hjá verktakafyrirtæki Elíasar bróður síns og starfaði með honum bæði sem vinnuvélstjóri og verkstjóri til 2009. Frá þeim tíma vann hann hjá Grásteini ehf. sem vinnuvélstjóri og verkstjóri til haustsins 2011, eða þar til flutti til Vestmannaeyja og fór á sjóinn. Í Vestmannaeyjum reri Lúðvík á Glófaxa VE 300 ásamt því að nema vélstjórn við Tækniskólann. Eftir að hafa búið í Vestmannaeyjum í tvö ár flutti Lúðvík aftur til Reykjavíkur en sótti áfram sjóinn frá Vestmannaeyjum. Þegar sjómennsku lauk, 2015, réði Lúðvík sig til verktakafyrirtækisins Kambs ehf. þar sem hann vann sem vinnuvélstjóri allt þar til hann hóf störf hjá Rúnari Bragasyni sem vinnuvélstjóri og verkstjóri.

Minningarathöfn vegna andláts Lúðvíks fer fram í Langholtskirkju í dag, 9. febrúar 2024, klukkan 15.

Ástin mín.

Það er óbærilegur sársauki sem fylgir því að missa maka og besta vin í blóma lífsins. Þú varst okkur fjölskyldunni svo mikilvægur og ég mun aldrei koma því í orð hversu mikill söknuðurinn er. Þú varst kletturinn minn og hversdagsleikinn.

Ég sá þig fyrst í Herjólfi á leið til Eyja þar sem þú barst af öðrum mönnum og ég vissi frá fyrstu stundu að okkur var ætlað að vera saman. Við vorum reyndar bæði sannfærð um það, sem betur fer. Það sem heillaði mig strax var þín sterka sjálfsmynd og sjálfsmat, þér leið vel í eigin skinni og þú hafðir góða nærveru. Þú talaðir fallega um börnin þín, barnabarnið og móður og það skipti mig máli að þau voru stór hluti af lífi þínu. Áhugamál okkar rímuðu mjög vel, við stunduðum útivist og hreyfingu og líf okkar snerist um að gera skemmtilega hluti, tvö ein eða með fjölskyldu eða vinum. Við upplifðum og gerðum margt saman, enda varst þú duglegasta og mest drífandi manneskja sem ég hef kynnst. Þú varst alltaf til í að skipuleggja og upplifa og þær eru ómetanlegar minningarnar þegar við skiptumst á að skipuleggja óvissuferðir fyrir hvort annað í sumarfríum og fórum þá eitthvert sem okkur hafði lengi langað til að fara en kannski ekki gert áður.

Allar ferðir voru extra með þér og metnaði þínum voru engin takmörk sett. Nestið þitt bar þess merki þegar við ferðuðumst, hvort sem það var að elda risarækjur á prímus í rjóðri á leið um landið eða smyrja Lúllaloku fyrir flug.

Við ferðuðumst víða bæði innanlands og utan og helst í ferðir þar sem við gátum stundað hreyfingu, hlaup, hjól eða skíði. Það var auðvelt að ferðast með þér og þú varst heimsins besti ferðafélagi. Myndirnar sem hafa birst af þér undanfarið bera þess merki hversu víða við fórum, en þær voru gjarnan teknar á ferðum okkar. Uppáhaldsferðin þín var til Hawaii, þar sem við hlupum maraþon sem þú skráðir okkur í á Maui. Einnig ferðalögin sem við fórum í eftir að Unnsteinn Orri fæddist og við tókum hann með okkur í hlaupatúra í kerrunni.

Við fórum líka ófáar ferðir upp á okkar uppáhalds fjall, Esjuna, og hlupum Ríkishringinn í Heiðmörk reglulega. Þetta voru okkar staðir og þér leið vel í náttúrunni.

Þér fannst mikilvægt að ég prófaði að drekka kaffi svo að við gætum notið þess saman. Það hafði engum tekist áður, en fyrir þig byrjaði ég að drekka kaffi, eða kaffidrykki allavega, og var þeirra notið í okkar góðu samveru.

Þú vildir líka að ég kynni að prjóna og varst óþreytandi við að biðja mig um lopapeysu handa þér, en ég er engin handavinnukona. Hins vegar ákvað ég að prjóna lopapeysu sem ég gaf þér í jólagjöf síðustu jól. Þú varst svo ánægður með peysuna og ert í henni núna.

Þú tókst Ásu Karen, Árna Fannari og Söru Lind vel en augasteinninn okkar var Unnsteinn Orri og þú varst í miklu uppáhaldi hjá honum.

Markmið ársins 2024 hafa breyst. Í stað þess að hlaupa í þremur heimsálfum er markmiðið að læra að lifa án þín og það er stærsta áskorun sem ég hef staðið frammi fyrir.

Takk fyrir að vera nákvæmlega eins og þú ert og gefa mér allt sem þú áttir.

Þín

Unnur.

Elsku Lúlli okkar. Síðustu dagar hafa verið svo óraunverulegir og sársaukafullir. En smám saman tekur nýr veruleiki á sig mynd sem við eigum örugglega aldrei eftir að sætta okkur við. Okkur finnst samt eins og þú sért farinn að vaka yfir okkur og leiðbeina okkur í því hvernig við eigum að takast á við þetta. Samveran og spjallið við elsku Unni þína, börnin þín, vini okkar í matarklúbbnum, Skósveinana, fjölskyldu og aðra vini hefur hjálpað okkur mikið.

Síðastliðin þrjú ár hefur þú starfað hjá okkur og þar áður til fjölda ára hjá pabba, Braga Sigurjónssyni, og varst honum ómetanlegur eins og okkur. Þú varst afburða starfskraftur með mikla þekkingu, færni og verkvit. Þú tókst að þér verkefni og það þurfti ekki að hafa neinar áhyggjur af framkvæmdinni. Verkkaupar hrósuðu þér í hástert fyrir vel unnin störf og jafnvel nágrannar þeirra dáðust að faglegum vinnubrögðum. En það sem stendur upp úr er hversu frábær samstarfsfélagi þú varst. Þú áttir stóran hlut í að gera stemninguna í litla hópnum okkar hjá Kambi svo góða. Litlu hlutirnir sem sýndu svo vel þitt stóra hjarta. Það varst þú sem komst með heimabakaðar sörur með kaffinu, fékkst okkur til að mæta í jólapeysum og stóðst fyrir alls konar uppákomum í matartímum þegar einhver átti afmæli.

Það var mikil gæfa að Unnur spottaði þig í Herjólfi þarna um árið. Það var ævintýri líkast að fylgjast með sambandi ykkar þróast frá því að Strava kom upp um ykkur, sameiginlegu vini okkar, í Vífilsstaðahlíðinni. Þið löðuðuð fram það besta í fari hvort annars, gerðuð ótrúlega margt saman og ferðuðust mikið bæði innanlands og alla leið til Havaí. Við munum aldrei gleyma hvernig þið horfðuð hvort á annað. Í augum ykkar beggja var glettni og sameiginlegur húmor, einlæg aðdáun hvort á öðru og djúp virðing og ást.

Þú smellpassaðir inn í matarklúbbinn, fyrst sem „vinur“ og svo sem fullgildur meðlimur. Svo komstu af fullum krafti með okkur í Ægi þríþraut. Þar áttir þú marga góða félaga og stefndir á heilan járnkarl núna í júní. Við vorum með þér á Ítalíu 2022 þar sem þú tókst hálfan járnkarl. Þú fórst ansi létt með það og það duldist engum að þú ætlaðir þér meira. Í rútunni á leiðinni til baka á flugvöllinn í Bologna varstu farinn að skoða hvar þú gætir tekið heilan járnkarl.

Þú sagðir okkur oft stoltur frá krökkunum þínum og það var gaman að fylgjast með þér verða afi, enda varstu mikill barnakarl. Þú hafðir ástríðu fyrir matseld og þú elskaðir að hafa alla hjá þér í mat. Það var gaman að tala við þig um mat og ógleymanlegar eru brúsetturnar sem þú töfraðir fram þegar þið Unnur komuð í heimsókn til okkar í bústaðinn. Við þurfum að reyna að leika það eftir og bjóða matarklúbbnum í sveitina í brúsettur, rifja upp góðar minningar, búa til nýjar og þú fylgist með okkur og reynir kannski að leiðbeina við matseldina. Minningu þinni verður svo sannarlega haldið á lofti og heiðruð.

Takk fyrir allt sem þú gafst okkur elsku Lúlli. Við eigum eftir að sakna þín svo mikið en minningin um góðan dreng lifir og verður ljós í lífi okkar.

Rúnar og Sigrún.

Góður drengur er fallinn frá en minningin lifir í hjörtum okkar.

Við sendum öllum sem elskuðu Lúlla okkur dýpstu samúðarkveðjur.

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.

Drottinn minn faðir lífsins ljós

lát náð þína skína svo blíða.

Minn styrkur þú ert mín lífsins rós

tak burt minn myrka kvíða.

Þú vekur hann með sól að morgni.

Faðir minn láttu lífsins sól

lýsa upp sorgmætt hjarta.

Hjá þér ég finn frið og skjól.

Láttu svo ljósið þitt bjarta

vekja hann með sól að morgni.

Drottinn minn réttu sorgmæddri sál

svala líknarhönd

og slökk þú hjartans harmabál

slít sundur dauðans bönd.

Svo vaknar hann með sól að morgni.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Mortens)

Hvíl í friði og kærleik og megi allar góðar vættir vaka yfir þér.

Dagbjört
og Jessica.