— Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Flug gengur sinn vanagang á Keflavíkurflugvelli þrátt fyrir jarðhræringar á Reykjanesskaga. Slökkt var á snjóbræðslu- og loftræstikerfum í flugstöðinni í mótvægisskyni við heitavatnsleysi á Suðurnesjum í gær

Flug gengur sinn vanagang á Keflavíkurflugvelli þrátt fyrir jarðhræringar á Reykjanesskaga. Slökkt var á snjóbræðslu- og loftræstikerfum í flugstöðinni í mótvægisskyni við heitavatnsleysi á Suðurnesjum í gær. Sem kunnugt er fór lögnin sem sér Suðurnesjum fyrir heitu vatni frá Svartsengi í sundur og ekki er varaleið til að kynda heitt vatn inn á hitaveitukerfi á flugvellinum.

Guðjón Helgason upplýsingafulltrúi Isavia sagði við Morgunblaðið í gærkvöldi að ekki væri reiknað með að heitavatnsleysið hefði áhrif á komur og brottfarir til landsins í dag.

„Flug gengur sinn vanagang en það er aðeins farið að kólna í flugstöðinni,“ sagði Guðjón í gærkvöldi. „Við höfum upplýst farþega um stöðu mála.“

Rafmagnshitablásurum var komið upp á völdum stöðum til að halda lágmarkshita á farþegasvæðum og nánasta umhverfi þeirra. Guðjón sagði að allt hefði gengið vel í flugstöðinni í gær.

Aðspurður segir hann snjóbræðslukerfið sem um ræðir ekki á sjálfum flugbrautunum heldur á öðrum stöðum eins og bílaplani og gönguleiðum. Isavia hafi gert aðrar ráðstafanir til að auka og tryggja aðrar hálkuvarnir.

Forsvarsmenn flugfélaga sögðu að flug yrði á áætlun nú í morgunsárið. Icelandair beindi þeim skilaboðum til farþega að klæðast hlýjum fatnaði og hafa yfirhöfn við höndina í flugstöðinni.

„Við náðum öllu okkar í dag,“ sagði Birgir Olgeirsson upplýsingafulltrúi Play í gær. Heitavatnsleysið hafi heldur ekki haft áhrif á flugeldhús Play. „Nei við erum með allt það rafmagn sem við þurfum í það og þurfum ekki heitt vatn. Svo erum við með afísingu fyrir vélarnar okkar og allt svoleiðis,“ segir Birgir.

Neyðaráætlun virkjuð

Nemendur fá súpu í dag

Neyðaráætlun hefur verið virkjuð hjá fyrirtækinu Skólamat í Reykjanesbæ í kjölfar heitavatnsleysisins á Suðurnesjum. Öll skólastarfsemi á Suðurnesjum fellur niður en miðlægt eldhús fyrirtækisins er starfhæft. „Við biðjum ykkur að sýna okkur skilning ef einhverjir hnökrar verða á skólamatnum næstu daga en með jákvæðni að vopni teljum við okkur geta leyst hvað sem er,“ segir í tilkynningu Skólamatar. Gerir Skólamatur ráð fyrir því að mexíkósúpa verði á boðstólum í skólum höfuðborgarsvæðisins í dag og fiskibollur á mánudaginn, eins og áætlað var, þrátt fyrir heitavatnsleysið.