Svört sviðsmynd Guðlaugur Helgi, skipulagsstjóri hjá Reykjanesbæ.
Svört sviðsmynd Guðlaugur Helgi, skipulagsstjóri hjá Reykjanesbæ. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Guðlaugur Helgi Sigurjónsson, skipulagsstjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs hjá Reykjanesbæ, segir að þrátt fyrir að skólahald hafi gengið sinn vanagang í gær hafi ákvörðun verið tekin um að fella niður allt skólastarf í Reykjanesbæ í dag

Hermann Nökkvi Gunnarsson

hng@mbl.is

Guðlaugur Helgi Sigurjónsson, skipulagsstjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs hjá Reykjanesbæ, segir að þrátt fyrir að skólahald hafi gengið sinn vanagang í gær hafi ákvörðun verið tekin um að fella niður allt skólastarf í Reykjanesbæ í dag.

Einnig verði öll starfsemi sundlauga og íþróttahúsa felld niður. Starfsemi verði að öllum líkindum felld niður eða skert þar til heitu vatni hafi verið komið aftur á. „Bara í raun öll starfsemi sem hægt er að skerða er skert.“

Spurður hvort Reykjanesbær hafi verið undirbúinn fyrir aðstæður sem þessar svarar Guðlaugur játandi. Það hafi ávallt verið inni í myndinni að hraun myndi mögulega flæða yfir mikilvæga innviði við Svartsengi.

Þá hafi meðal annars komið til tals að festa kaup á hitakötlum sem hægt væri að tengja við bæjarfélagið í tilfellum þar sem innviðir löskuðust eða eyðilegðust. Sveitarfélagið sé aftur á móti einfaldlega of stórt til þess og því talið betra að ráðast í hreina eignavernd og verja hita í húsum.

Guðlaugur hefur starfað sem eins konar staðgengill bæjarstjóra, Kjartans Más Kjartanssonar, sem er staddur erlendis, og segir mikilvægast að íbúar haldi ró sinni og séu ekki með óðagot. Innviðir bæjarins þoli ekki að allir íbúar kyndi híbýli sín með rafmagni og biður hann íbúa því að gæta hófs og huga frekar að því að halda þeim hita sem fyrir er inni í húsum í stað þess að missa sig í rafmagnskyndingum, til að kerfið hrynji einfaldlega ekki. Enginn sé í hættu þó svo að lífsgæðin séu vissulega skert.

„Jájá. Það er búið að tala um þetta sem svörtustu sviðsmyndina og hún raungerðist í morgun. Ég fór nú upp á Patterson [flugvöllinn] klukkan hálfsjö í morgun og horfði á bjarmann og var mjög lukkulegur með staðsetninguna á gosinu,“ segir Guðlaugur, sem kveðst ekki hafa séð fyrir í hvað stefndi með hraunflæðið.

„Það fór eiginlega verstu leiðina.“