Vilhjálmur Bjarnason
Vilhjálmur Bjarnason
Það hefur ekki hvarflað að nokkrum ráðamanni að áætla kostnað við mannúð.

Vilhjálmur Bjarnason

Það eru líkur á því að sérhver sem vogar sér að fjalla um hömlur á fólksflutningum til landsins verði talinn rasisti og illmenni. Það er aðeins ein rétt skoðun og sú skoðun er á alþingi götunnar við Austurvöll, en röngu skoðanirnar eru á löggjafarþinginu við Austurvöll. Skrifari er á hvorugum þingstaðnum. Hann hættir sér því á foraðið.

Ofsóknir í garð eigin íbúa

Mörg lönd ofsækja nokkurn hluta eigin íbúa, ellegar að stjórnvöldum í nokkrum löndum tekst ekki að skapa byggilegar aðstæður fyrir fólkið sem þar býr.

Það er undarlegt að stjórnvöld í löndum eins og Venesúela og Argentínu, hvor tveggja löndin rík að náttúruauðlindum, skuli ekki geta skapað þegnum sínum lífskjör í samræmi við gjafir náttúrunnar. Bæði löndin eru þjökuð af afleiðingum óðaverðbólgu vegna óstjórnar. Á það skal þó minnt að óðaverðbólga hér í landi á árunum 1980-1983 var talin nokkuð gott stjórnarfar!

Lönd, sem ofsækja eigin íbúa

Þau eru mörg löndin sem ofsækja eigin íbúa. Palestínumenn eru að hluta íbúar í Ísrael, en hafa takmarkaðan rétt til búsetu. Af því hafa fæðst skæruliðahópar. Forystumenn Hamas búa við allsnægtir hjá vinum Íslendinga í Katar. Forystumennirnir siga fótgönguliðum til árása. Síðasta árás var gerð á hvíldardegi gyðinga. Árásin heppnaðist vel, með drápum og mannránum. Stríðið sem nú geisar á Gasaströndinni snýst að hluta um gísla í haldi Hamas.

Strangtrúaðir gyðingar krefjast þess að her og leyniþjónusta haldi hvíldardaginn heilagan. Því er hvíldardagurinn hentugur til árása fyrir Hamas. Vandamálið er að hinir strangtrúuðu telja sig ekki mega berjast í stríði. Og þaðan af síður að semja við óæðri kynstofna. Og hvernig eiga íslenskir valdhafar að fara í Rambó-leik og bjarga fleiri milljónum manna?

Þrátt fyrir allar skyldur og mannúð ná góðviljaðir Íslendingar með allri sinni mannúð ekki að bjarga öllum þeim sem stjórnvöld í Afganistan, Írak, Íran, Sýrlandi, Nígeríu, Venesúela og sennilega næst Argentínu ráðast gegn.

Þessi lönd sem upp eru talin munu hafa innan sinna vébanda um 520 milljónir manna. Hvernig eiga um 320.000 Íslendingar að bjarga þessu fólki, sem sumt hefur kallað yfir sig ógæfu í almennum kosningum?

Náttúruleg fjölgun og offjölgun

Til að viðhalda náttúrulegu jafnvægi í fólksfjölda þarf fæðingartíðni konu að vera rúmlega tvö börn á ævi hennar. Fæðingartíðni hér á landi er komin niður fyrir þetta náttúrulega jafnvægi. Samt sem áður er veruleg fólksfjölgun í landinu.

Þegar horft er til áranna 1998 til 2022 eru fæddir umfram dána 0,75% af fólksfjölda. Á sama árabili er árleg fólksfjölgun 1,48%. Mismunurinn er aðfluttir umfram brottflutta. Innlendir sem erlendir ríkisborgarar.

Íslensk stjórnvöld geta ekki og þurfa ekki að bera ábyrgð á aðfluttum starfsmönnum Alvogen/Alvotech umfram það að skapa aðstæður fyrir rannsóknir og þróun í lyfjaframleiðslu. Starfsmennirnir sjá um sig sjálfir.

Skyldur stjórnvalda

Það er frumskylda stjórnvalda að vernda þegna sína. Kann að vera að Ísland hafi einhverjar alþjóðlegar skuldbindingar vegna flóttamannavanda.

Það er reginmunur á skuldbindingum við þá sem leita til Íslands í atvinnuleit. Ef til vill efnahagslegir flóttamenn frá sínu landi. Öðru máli gegnir um þá sem hingað leita til að fá alþjóðlega vernd. Það að veita alþjóðlega vernd hefur í för með sér skuldbindingu.

Íslensk stjórnvöld hafa meiri skyldur við Grindvíkinga en hælisleitendur, hvursu kalt sem það kann að hljóma.

Íslenskar skuldbindingar við hælisleitendur geta aldrei orðið jafn miklar eða meiri en allra Norðurlanda til samans.

Þegar grunnskyldur stjórnvalda gagnvart eigin þegnum eru ekki uppfylltar, þá verða til stjórnmálaflokkar sem þrífast vel á slæmu ástandi. Nægir þar að nefna húsnæðisskort.

Húsnæðismál og fræðslumál

Húsnæðismál eru aðeins að takmörkuðu leyti á forræði ríkisstjórnar. Húsnæðismál eru sveitarstjórnarmál. Að framboð byggingarlóða sé í samræmi við eftirspurn. Það er afneitun á döprum sannleik að halda að aðstreymi fólks hafi ekki áhrif á fasteignamarkað.

Þéttingarleið er í raun mjög dýr leið í húsnæðismálum ef hún er stunduð eingöngu. Og svo hafa sveitarstjórnir skyldu til að reka ábyrga fjármálastefnu.

Geta stjórnvöld lagt þær skyldur á starfsfólk í fræðslustörfum að það beri ábyrgð á uppeldisvandamálum íslenskra barna, skyldur sem áður tilheyrðu heimilum, og bæta við þær skyldur uppeldisfræðilegum vandamálum barna sem eiga framandi tungumál að móðurmáli? Kennurum koma uppeldisvandamál nemenda lítið við þótt vilji sé til annars. Ég hef fullan skilning á „kulnun“ í fræðslustörfum, allt fram á háskólastig. Sennilega er spekileki í heilbrigðiskerfinu. Læknar og hjúkrunarfræðingar eiga flóttaleið en kennarar eiga það ekki.

Víst er að þeir sem eru á alþingi götunnar við Austurvöll hafa ekki sama skilning og skrifari.

Og hve mikið kostar öll þessi mannúð?

Það er guðlast að spyrja hve mikið mannúð kostar. Ef Ríkisendurskoðun ætlar að rannsaka hví áætlanir um kostnað við Fossvogsbrú hafa farið úr öllum böndum, þá er eftirlitsæði Ríkisendurskoðunar gengið nokkuð langt. Ekki svo að skilja að málið sé ekki alvarlegt. Þó ekki eins alvarlegt og ef framkvæmdin fer úr böndum, eins og málefni hælisleitenda.

Skattborgarar hafa aldrei verið spurðir um afstöðu sína til mannúðar

Það hefur ekki hvarflað að nokkrum ráðamanni að áætla kostnað við mannúð. Fólk með mannúð segir að hælisleitendur fari strax að vinna. Kann að vera! En þá fylgir fjölskyldusameiningin. Hætt er við að einum ungum hælisleitanda fylgi nokkrir fullorðnir, jafnvel aldraðir.

Fyrr en síðar þarfnast þeir hælisleitendur annars hælis. Ekki minnkar fráflæðivandi sjúkrahúsa við það!

Öldrunarstofnanir eru ekki ódýr hæli. Skrifara telst til að rekstrarkostnaðurinn á slíku hæli sé sem næst kr. 40.000 á dag fyrir hvern heimilismann. Langflestir Íslendingar greiða hluta af þeim kostnaði með lífeyristekjum sínum. Í fjölskyldusameiningu er ekki um slíkt að ræða.

Í vist skrifara við löggjafarþingið var kostnaður við hælisleitendur óverulegur miðað við það sem nú er orðið. Er ekki rétt að staldra víð?

Mannlífið

„Ekkert er eins miskunnarlaust og mannlífið. Það er einnig mjög erfitt að afsaka mannlífið, einkum við hinar ómælandi skepnur í kringum oss!“

Og: „Sá sem ekki kýs réttlæti, hann er ekki maður.“ Kann að vera að skrifari þurfi að gangast við því.

Höfundur var alþingismaður.

Höf.: Vilhjálmur Bjarnason