Vibeke Þorbjörg Þorbjörnsdóttir fæddist 10. október 1956 í Reykjavík. Hún lést 16. janúar 2024 á gjörgæsludeild Landspítalans.

Foreldrar hennar voru Vibeke Harriet Westergard Jónsson, f. 20.6. 1925, d. 1.11. 1999, og Þorbjörn Jónsson, f. 9.1. 1922, d. 12.2. 1981. Foreldrar móður voru Elna Minna Jensen og Nils Andes Jensen frá Hadsund í Danmörku og foreldrar föður voru Jóna Þorbjarnardóttir og Jón Guðnason frá Úlfarsá í Úlfarsárdal, Reykjavík.
Systkin: Helga Helen Andreasen, f. 29.12. 1950, d. 16.3. 1986, Ann Andreasen, f. 6.10. 1952, Garðar Þorbjörnsson, f. 19.11. 1958, og Elna Tove Lilja Þorbjörnsdóttir, f. 2.4. 1961.
Eiginmaður Vibeke er Kristinn Bjarnason (Kiddi), f. 15.1. 1955. Þau eiga tvö börn, fósturbarn, barnabörn og barnabarnabarn: Vibeke Svala Kristinsdóttir, f. 26.6. 1975, gift Snorra Sturlusyni, f. 19.5. 1975. Börn þeirra eru a) Jökull Þór Kristjánsson, f. 15.12. 1996, og sambýliskona hans er Hrafnhildur Sól Sigurðardóttir, f. 4.1. 1996, og eiga þau Myrkva Berg Jökulsson, 21.12. 2022. b) Sól Snorradóttir, f. 9.8. 2006, og sambýlismaður hennar er Björn Andri Sigfússon, f. 24.2. 2006. c) Stormur Snorrason, f. 28.1. 2009.

Bjarni Gunnar Kristinsson, f. 19.7. 1977, sambýliskona hans er Lilja Baldursdóttir, f. 2.6. 1977. Börn hans eru a) Gabríel Kristinn Bjarnason, f. 4.6. 1999, og sambýliskona hans er Eydís Ósk Ágústsdóttir, f. 14.10. 2000. b) Dís Bjarnadóttir, f. 1.9. 2006, og kærastinn hennar er Aron Radwanski 31.10. 2006, c) Tristan Nökkvi Bjarnason, f. 22.9. 2011. Börn Lilju eru a) Elías Máni Assadi, f. 25.4. 2000, og b) Amina Alda Assadi, f. 2.3. 2004.

Árið 1992 tóku Vibsen og Kiddi í fóstur son Helenar systur hennar, Jóhann Carlo, f. 19.5. 1977, og hann á Elís Carlo, f. 19.3. 2006.
Vibeke var uppalin á Langholtsvegi og að Hlaðbæ 4 í Árbæ. Þegar Vibsen, eins og hún var kölluð, var 17 ára lá henni mikið á að ganga í hjónaband og þurfti hún því forsetabréf til að giftast. Hún og Kristinn gengu í hjónaband þann 13. apríl 1974. Þau byggðu sér hús í Mosfellsbænum og hafa þau búið þar alla tíð.

Vibsen vann sem dagmamma og í Álafossverksmiðjunni þegar Svala og Bjarni voru að vaxa úr grasi en eftir það helgaði hún líf sitt því að bæta aðstæður fatlaðra. Hún fór að læra þroskaþjálfafræði og bætti svo við sig diplóma í öldrunarfræðum. Hún vann m.a. á Hlein, hafði yfirumsjón með sambýlum á vegum Svæðisskrifstofu Reykjaness og starfsævi sinni lauk hún sem deildarstjóri búsetu- og þjónustudeildar á Fjölskyldusviði Mosfellsbæjar. Vibsen var mjög félagslynd og var hún virkur meðlimur í Þroskaþjálfafélagi Íslands og Álafosskórnum ásamt fleiru.

Vibeke verður kvödd í Guðríðarkirkju í dag, 9. febrúar 2024, klukkan 11.

Elsku mamma, ég trúi því ekki enn að þú sért farin. Ég man svo vel að þú sagðir mér einu sinni að það væri mjög skrítið að eiga ekki mömmu. Ég er búin að vera að hugsa svo mikið til þess og ég auðvitað skildi það ekki þá en ég skil það svo vel núna. Mér finnst líka erfitt að hugsa til framtíðar og að þú verðir ekki þar með okkur. Ég hef tekið því sem allt of sjálfsögðum hlut að hafa þig alltaf til staðar hvort sem ég þurfti á því að halda eða ekki. En eins og ég sagði við þig þegar þú varst að fara frá okkur: Þú lifir áfram í okkur og þú verður alltaf hluti af okkur. Þú hefur mótað okkur í þær manneskjur sem við erum. Hjá þér voru alltaf allir velkomnir og þú vildir öllum vel. Okkur var kennt að þótt við ættum ekki mikinn pening þá ættum við alltaf hvert annað og svo rosalega sterk fjölskyldubönd. Þetta sá ég ekki beint sjálf en vinir mínir sem voru mikið heima hjá okkur fundu þetta og töluðu um að við værum óvenju náin fjölskylda. Þessi gildi lifa áfram í okkur og við höldum áfram að hlúa að þeim.

Við höfum gengið í gegnum margt saman og ég hef alltaf fengið stuðning frá ykkur pabba. Við höfum átt okkar erfiðustu stundir núna síðustu mánuði þar sem hlutverkum var aðeins snúið við og ég var stundum hörð við þig þegar ég var að reyna að fá þig til að hugsa betur um heilsuna en það var bara af því að ég elskaði þig svo mikið og ég vildi svo mikið hafa þig lengur hjá mér. En við höfum alltaf verið svo nánar og tekið svo mikinn þátt í lífi hvor annarrar. Þetta samband milli móður og dóttur getur verið sérstakt og ég er svo þakklát fyrir þann tíma sem við áttum saman og kenndi mér hvernig er að vera gott foreldri og góð mamma. Ég elska þig endalaust.

Þín

Svala.

Mamma var einstök kona, kærleiksrík og óeigingjörn og lagði allt sitt í að skapa fallegar minningar fyrir fjölskylduna. Heimilið var alltaf opið, og með stækkandi fjölskyldu stærra borði og brotnum veggjum til að rúma alla þá sem henni þótti vænt um. Þriðjudagar, páska- og jólahátíðir voru sérstakar stundir, merki um samheldni og gleði. Á meðan hún bjó til rými fyrir fjölskylduna úti og inni setti hún líka mark sitt á heiminn með því að bæta líf annarra.

Það að lifa eftir hennar stöðlum er fallegur heiður við minningu hennar. Hún kann að hafa viljað að ekki væri neitt auka gert fyrir sig, en hún gaf svo mikið af sér að hún hefur skilið eftir sig varanlega arfleifð kærleika og umhyggju.

Við söknum þín elsku mamma.

Bjarni og fjölskylda.

Ég sendi þér kæra kveðju

nú komin er lífs þíns nótt,

þig umvefji blessun og bænir

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Hvíl í friði elsku Vibsen. Guð geymi þig.

Takk fyrir allt og allt.

Tengdapabbi og Nína,

Bjarni Matthíasson, Jónína Þórey Jónasdóttir.

Elsku amma okkar, þegar við horfum nú til baka eru okkur minnisstæðastar allar þær nánu stundir sem við áttum saman sem fjölskylda, hvort sem það var þriðjudagsmatur á Reykjaveginum eða páskar í Vinaminni. Þá voruð þú og afi alltaf hjarta tilefnisins. Það hversu náin við frændsystkinin öll erum er því að þakka hversu góðhjörtuð og dugleg þið voruð að búa til tíma og tilgang fyrir fjölskylduna að hittast. Þetta er ómetanlegur hluti af fjölskyldulífi sem ekki eru allir svo heppnir að eiga aðild að. Við erum endalaust þakklát fyrir þær æðislegu stundir sem við fengum að eyða með þér t.d. í Danmörku, Ísbúð Huppu á Selfossi eða í Góða hirðinum. Við elskum þig og söknum þín að eilífu.

Þín barnabörn,

Jökull, Sól og Stormur.

Kraftur, dugnaður og eljusemi koma fyrst upp í huga mér þegar ég hugsa til Vibsen. Þetta var leiðarljós þitt í hverju sem þú tókst þér fyrir hendur. Það skipti ekki máli á hvaða sviði. Nokkrar meistaragráður, í fullri vinnu, Álafosskórinn, handavinnan eða grænir fingur. Þrátt fyrir að þú hefðir nóg að gera fannstu ávallt tíma fyrir fólkið þitt og í hverri viku var öllum hóað saman í þriðjudagsmat. Þú varst fjölskyldurækin með eindæmum og skapaðir margar samverustundir. Við minnumst þeirra stunda með miklu þakklæti í dag.

Þú hafðir mjög gaman af dulspeki og andlegum málefnum. Þrátt fyrir að það hafi verið mér framandi fannst mér svo gaman að hlusta á þig segja frá, því sýn þín á lífið og fyrri líf var alveg einstök.

Við áttum reglulega ansi löng samtöl. Upp á síðkastið ræddum við sérstaklega mikið um tré og plöntur. Þér leiddist alls ekki að ausa úr viskubrunni þínum og reyndir að kenna mér á allt sem þú vissir á því sviði. Þú minntir mig líka á að kóngulóafóbían mín færi alls ekki með þessu nýja hobbýverkefni og því var ekkert annað í stöðunni en að komast yfir hana.

Hvort sem það var garðurinn ykkar í Mosó eða paradísin ykkar í sumarbústaðnum sinntuð þið öllu af einskærri natni. Minningunum sem þið hafið skapað þar, og þá sérstaklega með barnabörnunum, munu þau búa að um alla ævi.

Ég fékk ófá tré og plöntur hjá ykkur sem voru gróðursett undir Heklurótum og verður það vonandi einn daginn jafn mikil paradís og þið Kiddi hafið komið ykkur upp. Elsku Vibsen, ég mun alltaf hugsa hlýtt til þín og með miklu þakklæti fyrir allt það sem þú hefur gert fyrir bæði mig og mína í gegnum lífsins ólgu sjó. Elsku Vibsen, við sjáumst í næsta lífi.

Kæra fjölskylda, megi allir góðir vættir styrkja ykkur í sorginni.

Stefanía.