Dómur Dómssalur í Héraðsdómi.
Dómur Dómssalur í Héraðsdómi. — Morgunblaðið/Ernir
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann á þrítugsaldri í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa í nóvember árið 2021 farið grímuklæddur og vopnaður hnífi inn á pítsustað í Grafarvogi í þeim tilgangi að komast yfir fjármuni staðarins

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann á þrítugsaldri í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa í nóvember árið 2021 farið grímuklæddur og vopnaður hnífi inn á pítsustað í Grafarvogi í þeim tilgangi að komast yfir fjármuni staðarins.

Fram kemur í ákæru að maðurinn hafi farið rakleiðis inn fyrir afgreiðsluborðið og opnað sjóðsvél staðarins, þaðan sem hann tók um 18 þúsund krónur í reiðufé. Þegar starfsfólk staðarins varð mannsins vart ógnaði hann því með hnífnum og sagði eitthvað á þá leið að hann yrði að gera þetta, en maðurinn var fyrrverandi starfsmaður staðarins. Hann hljóp í kjölfarið út af staðnum en missti farsíma og lykil og sneri við til að vitja munanna. Eftir orðaskipti reyndi starfsmaður, sem var kona, að ná taki á manninum, sem brást við með því að ógna henni með því að sveifla hnífnum að henni. Í kjölfarið hljóp maðurinn á brott og annar starfsmaður á eftir honum í félagi við vegfaranda og tókst þeim að yfirbuga manninn og halda honum uns lögregla kom á vettvang og handtók hann

Fram kemur í dómi héraðsdóms að maðurinn, sem hefur ekki gerst áður sekur um ofbeldisbrot, játaði skýlaust brot sín. „Ákærði talaði máli sínu fyrir dóminum. Hann leitaði sér aðstoðar eftir atvikið og fór í meðferð vegna fíknar sinnar [...], fyrst á Íslandi og síðan erlendis. Hann byggi nú erlendis, væri í vinnu og væri laus við lyfin. Kvaðst ákærði vilja axla ábyrgð á verknaðinum sem hann iðraðist mjög,“ segir í dómi héraðsdóms.

Dómurinn var skilorðsbundinn, m.a. með tilliti til ungs aldurs mannsins og þess að langt var um liðið frá atvikum, en ákæra var gefin út um tveimur árum síðar.