Guðríður (Gauja) Guðbjartsdóttir fæddist í Reykjavík 22. maí 1947. Hún lést á Landspítalanum Fossvogi 16. janúar 2024.

Foreldrar Guðríðar voru Jóhanna Rósa Magnúsdóttir, f. 2.3. 1926, d. 6.9. 1977, og Guðbjartur Þórður Pálsson, f. 2.8. 1924, d. 21.3. 1977. Systkin Guðríðar: Magnús Sigurðsson, f. 1.4. 1950, og Egill Jón Björnsson, f. 1.4. 1969.

Hinn 23.5. 1981 giftist Guðríður eftirlifandi eiginmanni sínum, Tómasi Tómassyni, f. 4.5. 1953. Foreldrar Tómasar voru Kristjana Aðalbjörg Stefánsdóttir, f. 30.7. 1930, d. 9.7. 1983, og Tómas Tómasson, f. 11.9. 1916, d. 31.12. 2005.

Börn Guðríðar og Tómasar: 1) Jóhanna Arndís, f. 14.7. 1966, d. 10.4. 2002. 2) Björn Magnús, f. 1969, sambýliskona Hrafnhildur Tryggvadóttir. Börn Björns eru: Tómas Orri, f. 2010, og Ari Björn, f. 2012. 3) Yngvi, f. 1982, eiginkona Jóhanna Guðmundsdóttir, börn þeirra: Ylfa, f. 2019, og Ernir, f. 2023.

Guðríður ólst upp í Melshúsum á Seltjarnarnesi og gekk í Valhúsaskóla. Lengst af bjó hún ásamt eiginmanni sínum og börnum í Tunguseli 11, síðar Selvaði 1.

Guðríður starfaði lengst af hjá Barna- og unglingageðdeild Landspítalans og var formaður kvenfélags Seljakirkju um árabil. Guðríður kom einnig að stofnun félags heilbrigðisritara, þar sem hún fór með formennsku.

Útför Guðríðar fer fram frá Seljakirkju í dag, 9. febrúar 2024, klukkan 11.

Elsku Gauja. Þegar ég kynnist þér hafðir þú alltaf nóg fyrir stafni, ávallt var nóg af verkefnum sem þú varst að verkstýra á meðan heilsan leyfði. Þú varst greiðvikin mjög og maður vildi hafa þig með sér í liði. Þú notaðir sambönd þín til þess að koma mörgum til hjálpar, varst dýravinur mikill og lést þig mannúðarmál skipta. Og ef góða veislu gjöra skyldi þá áttir þú ráð undir rifi hverju.

Ég var svo lánsöm að þú tókst mig undir verndarvæng þinn og fyrir það verð ég alltaf þakklát. Ég hefði svo gjarnan viljað hafa þig lengur hjá okkur til þess að þú gætir notið barnabarnanna þinna. Bakað kleinur með Ylfu eins og þér varð tíðrætt um síðastliðið ár og fengið að kynnast Erni. En þú hefur verið leyst þrautunum undan og sameinast fólkinu þínu í sumarlandinu. Takk fyrir allt.

Þín tengdadóttir,

Jóhanna.

Varla get ég látið hjá líða að skrifa nokkur orð um hana Gauju frænku mína, sem er látin eftir langvarandi veikindi, svo minnisstæð er hún mér og öðrum sem þekktu hana.

Gauja ólst upp á Melshúsum á Seltjarnarnesi, bjó á neðri hæðinni ásamt bróður sínum Magga og Minnu móður þeirra. Alltaf átti ég góðu að mæta hjá henni Minnu. Um miðja síðustu öld var Nesið eins konar sambland af bæ og sveit, þétt byggð til dæmis í Lambastaðahverfi, þar sem öll húsin standa enn. Sömuleiðis voru stór svæði óbyggð, tún, móar og fjaran. Allt var þetta leikvangur okkar krakkanna á Nesinu.

En tíminn líður og við tekur nám í gamla Mýrarhúsaskóla þar sem Gauja kynntist mörgum vinkonum sínum, sem urðu það til æviloka. Eftir skóla tekur brauðstritið við, en ekki kann ég frá því að greina í samhengi. Eitt er víst að Gauja fór ekki alveg hefðbundnar slóðir hvað vinnu varðar á þessum árum og gerðist strætisvagnabílstjóri og leigubílstjóri sem ekki var algengt meðal kvenna á þessum tíma, hvað sem seinna varð. Sýnir þetta vissan kjark og að fara ekki troðnar slóðir í lífinu, sem sýnir okkur stundum sínar myrku hliðar, en líka bjartar og mótar persónuleikann að einhverju leyti. Ég held að ein mesta gæfa Gauju hafi verið þegar hún kynntist honum Tómasi sem hefur staðið við hlið hennar í blíðu og stríðu eins og klettur. Mikill harmur var að þeim kveðinn þegar Jóhanna dóttir Gauju lést í blóma lífsins, langt um aldur fram.

Sumarbústað byggðu þau í Helludal í Biskupstungum og vitnar hann um hagleik Tomma og snyrtimennsku þeirra beggja, griðastaður þeirra og barnanna.

Gauja hafði mikla ánægju af því að taka á móti gestum, enda vinamörg og svignuðu þá iðulega borð undan kræsingum og voru þau mjög samhent í þessu Tommi og Gauja. Mörg þorrablótin sóttum við Eygló til þeirra og þar voru ekki tuggin sölin eða drukkið blávatnið, en allt var það í sæmilegu hófi. Gauja og Tommi voru einstakir höfðingjar heim að sækja. Kemur mér í hug þar sem segir í Landnámu um Langholts-Þóru í Staðarsveit á Snæfellsnesi. Hún lét gera skála um þjóðbraut þvera og laðaði að gesti að eta og var kátust þegar sem flestir komu.

Gauja hafði mjög afdráttarlausar skoðanir á mönnum og málefnum og gilti þá einu hvor átti í hlut, Jón eða séra Jón. Tilfinningar sem lágu til grundvallar byggðust á ríkri réttlætiskennd. Hún hafði litla þolinmæði fyrir rangsleitni gagnvart sjálfri sér og öðrum og lét þá í sér heyra svo að eftir var tekið. Hún var ættrækin og fylgdist grannt með ef einhver veiktist og lá ekki á liði sínu ef einhver þurfti liðsinnis við. Það sýnir samkennd og gott hjartalag hennar.

Marga undanfarna mánuði glímdi Gauja við erfið veikindi. Varla er ofsagt að Tómas hafi varla vikið frá sjúkrabeði hennar á þessum erfiða tíma og synir hennar sömuleiðis. Við sendum Tomma, sonum þeirra og tengdabörnum, bræðrum Gauju og barnabörnum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Símon Gunnarsson og fjölskylda.

Enn á ný stöndum við frammi fyrir því að kveðja kæran samferðamann.

Fallin er í valinn okkar kæra Gauja og það er mikill sjónarsviptir að henni. Við kynntumst sem börn í Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi og höfum haldið vinskapnum alla tíð síðan og það var ekki síst henni að þakka að þau vináttubönd héldust. Hún var dugleg að minna okkur á að það þarf að hlúa að samskiptunum til að þau slitni ekki.

Seltjarnarnesið leit nú aldeilis öðruvísi út þegar við vorum börn og unglingar og lékum okkur við hina ýmsu leiki á túnum og holtum og nutum þess frelsis sem víðáttan bauð upp á. Nú hafa risið hús þar sem áður voru tún og trönur og minna um græna bletti þar sem voru kindur og hestar á beit.

Þá hétu húsin öll nöfnum og fólk gjarnan kennt við húsin sem það bjó í;

Gauja bjó í Melshúsum og var kennd við það.

Já hún Gauja okkar í Melshúsum var mikill dugnaðarforkur og gleðigjafi sem hreif okkur með sér, hún fékk ekki bara hugmyndir heldur sá hún um að þær væru framkvæmdar.

Þar kom sér vel verkstjórnun hennar hún fékk okkur með sér við undirbúninginn og það var ekki leiðinlegt

Eitt var það sem hún stóð fyrir í mörg ár, það var að kalla saman gamla skólafélaga og þau voru ófá skemmtikvöldin þar sem fólk kom saman og rifjaði upp gömul kynni og varð til þess að sumir tóku að hafa samband aftur eftir margra ára hlé og ber að þakka fyrir það. Núna seinni árin höfum við nokkrar vinkonur úr þessum hópi hist reglulega og þá oftar en ekki rifjaðar upp minningar frá fyrri árum og sagðar sögur af samferðamönnum okkar af Nesinu.

Þar fór hún á kostum og var ótrúlega minnug á menn og málefni og hafði þann eiginleika að segja þannig frá að við hinar hrifumst með.

Þá var mikið hlegið og haft gaman.

Eins og gengur í þessu lífi hafa þær verið kallaðar á annað tilverustig hver af annarri þessar kæru vinkonur okkar.

Nú þegar Gauja er komin á það tilverustig verður ekki langt að bíða áður en blásið verður til hittings þar ef við þekkjum okkar konu rétt.

Elsku Gauja, berðu þeim kveðju okkar. Far þú friði, friður guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt.

Kæri Tommi, Bjössi, Ingvi og fjölskyldur, þið eigið samúð okkar alla, megi góður guð styrkja ykkur og styðja á þessum erfiðu tímum.

Kristin L. Magnúsdóttir, Kristín Ásgeirsdóttir, Kristín Guðmundsdóttir, Hrönn Ágústsdóttir, Olga Hafberg, Jónína Þorsteinsdóttir.