Sjónarspil Eldgosið sem hófst í gærmorgun er hið sjötta í röðinni síðan hræringar hófust á Reykjanesskaga.
Sjónarspil Eldgosið sem hófst í gærmorgun er hið sjötta í röðinni síðan hræringar hófust á Reykjanesskaga. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is

Viðtal

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Eitt af því sem mjög erfitt er að segja til um er hve mikil kvika er í kvikuhólfinu undir Svartsengi þaðan sem sjötta eldgosið hófst á Reykjanesskaga í gær. Innstreymi í hólfið hefur staðið yfir frá því í október sl. Stærsti atburðurinn á svæðinu varð í nóvember þegar kvikuhlaup varð og náði undir Grindavík, en þá var mesta magn kviku að rúmmáli á ferðinni í yfirstandandi atburðarás. Mjög erfitt er að segja til um það út frá henni hve mikil kvika er til taks til að fóðra eldgosið.

Þetta segir Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur í samtali við Morgunblaðið.

Erfitt að segja fyrir um lengd eldgossins

„Það er erfitt að slá máli á það, en eftir því sem á líður skýrist myndin af því hvað er í gangi og það eru mælingar yfirstandandi sem geta gefið vísbendingar um hve hratt geti dregið úr og gefið vísbendingar um hvenær gosinu lýkur. En það er hætt við að tímakvarðinn geti orðið erfiður og óvíst að þær upplýsingar liggi fyrir áður en gosið endar,“ segir Páll spurður um hve lengi eldgosið geti varað að hans mati.

„Það er mjög erfitt að segja fyrir um hve lengi þetta eldgos stendur, spá um það væri hrein ágiskun. Sumt er vel vitað og hægt að segja fyrir um, en annað ekki,“ segir hann.

Fram hefur komið að 6,5 milljónir rúmmetra hafa bæst í kvikuhólfið undir Svartsengi síðan síðasti kvikugangur myndaðist þar í janúar.

Er hægt að segja fyrir um líklega þróun mála á svæðinu þegar litið er til nýliðinna atburða?

„Nei, í raun og veru ekki. Það er hægt að rekja upphafið til desember 2019 þegar fyrstu atburðirnir urðu og vöktu grunsemdir um að það kynni að vera eitthvað meira í spilunum. Þá varð mjög áberandi skjálftahrina undir Fagradalsfjalli sem vakti menn til meðvitundar um að ástæða væri til að líta betur eftir þessu svæði. Fyrstu vísbendingar um kvikufærslu urðu síðan í janúar 2020. Fljótlega eftir það var orðið ljóst að stór bútur af flekaskilunum tók þátt í þessari atburðarás, alveg frá Kleifarvatni og út í sjó, út undir Eldey,“ segir Páll, en Eldey er 77 metra hár klettadrangur í sjó, um 15 km suðvestur af Reykjanesi.

Margar og fjölbreytilegar sviðsmyndir

Páll segir að síðan þá hafi öll flekaskilin verið virk og þegar kemur að kvikustreymi á það sér stað á nokkrum stöðum. Þannig sé búið að staðfesta með nokkurri nákvæmni að kvikuhreyfingar hafi orðið í a.m.k. þremur kerfum innan fyrrgreindra marka, þ.e. á milli Kleifarvatns og Eldeyjar. „Sennilega hafa þær orðið víðar, en við höfum ekki mælingar úti í sjó. Þar missum við dálítið tökin á málinu. En það er um 50 km langur bútur á flekaskilunum sem tekur þátt í þessari atburðarás. Það má ekki gleyma því að þótt atburðir verði spennandi á einum punkti, þá snýst þetta ekki allt um hann.

Það er hægt að gera sér myndir af hugsanlegum umbrotum í framhaldi af þessum sem nú standa yfir og þær eru býsna margar og fjölbreytilegar. Þá á ég ekki við gos eingöngu. Gosin eru kannski ekki einu sinni það alvarlegasta, eins og kom í ljós í Grindavík. Þar kom í ljós að gangainnskotin eru fullt eins áhrifarík,“ segir Páll.

Fleiri sviðsmyndir koma til greina

„Það eru fleiri sviðsmyndir sem koma til greina í þessum umbrotum. Við verðum jafnvel að taka með í reikninginn að hugsanlegt er að þessi virki hluti lengist til austurs og nái yfir í næstu eldstöðvakerfi líka, þ.e. í Brennisteinsfjöllum. Þau hafa enn ekki látið á sér kræla að neinu marki, en þau gerðu það í svipaðri atburðarás sem varð upp úr landnámi og stóð yfir frá tíundu öld til þeirrar þrettándu, þegar sambærilegir atburðir gengu yfir. Þá voru líka eldgos í Brennisteinsfjöllum. Vel má vera að Kristnitökuhraunið sem rann árið þúsund hafi verið eitt það fyrsta sem gerðist í þeirri atburðarás,“ segir Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson