Guðrún Bergsdóttir fæddist í Reykjavík 27. júlí 1970. Hún lést á Landspítalanum Fossvogi 26. janúar 2024 eftir erfið veikindi.

Foreldrar hennar eru Bergur Þorleifsson, f. 12. júlí 1942, og Sigríður B. Skaftfell, f. 13. október 1943. Systkini hennar eru Gréta María, f. 26. nóvember 1972, og Baldvin Þór, f. 5. júlí 1978. Gréta María er gift Birgi Jóni Birgissyni og eiga þau dæturnar Birtu, Bergdísi Kötlu og Svandísi. Baldvin Þór er kvæntur Helgu Margréti Skúladóttur og eiga þau Soffíu Sigríði og Erlu Maríu.

Guðrún bjó fyrstu ár ævinnar í Reykjavík en sleit barnsskónum í Hafnarfirði þar sem fjölskyldan bjó í 19 ár. Fyrstu skólaárin var hún í Lækjarskóla og Víðistaðaskóla í Hafnarfirði en stundaði síðan nám í Öskjuhlíðarskóla, nú Klettaskóli, í sjö ár. Eftir þá skólagöngu sótti Guðrún ýmis námskeið hjá Fullorðinsfræðslu fatlaðra, símenntun og þekkingarmiðstöð, sem nú er Fjölmennt. Hún hóf störf hjá Ási vinnustofu árið 1994, m.a. við saumaskap ýmiss konar, og vann síðar hjá Bjarkarási og Lækjarási. Guðrún var mjög listræn og listhneigð og var um árabil meðlimur í Perlufestinni, sem er áhugafélag um leiklist hjá Fjölmennt. Hún hafði unun af því að fara í leikhús, á tónleika, að dansa og syngja. Um þrítugt fóru hæfileikar Guðrúnar í saumaskap að koma í ljós, þegar hún fór að sauma út í stramma. Innblásturinn kom úr hennar hugarheimi og var myndefnið spunnið upp jöfnum höndum. Hún hafði stramma og fulla tösku af garni með sér hvert sem hún fór og notaði öll tækifæri til að sauma út, í strætó, kaffipásum í vinnunni eða heima yfir sjónvarpinu. Hvert krosssaumsverkið á fætur öðru spratt fram á strigann. Guðrún tók þátt í mörgum sýningum á útsaumsverkum sínum, en sú fyrsta var í bókasafni Gerðubergs á vegum Listar án landamæra árið 2003, sem var fyrsta hátíðin í þeirra nafni. 2006 hélt hún einkasýningu í Gerðubergi sem fékk nafnið Hugarheimar í uppsetningu Hörpu Björnsdóttur myndlistarkonu. Einnig hélt hún einkasýningar á Mokka og Safnasafninu. Á árunum 2006-2023 tók Guðrún þátt í mörgum samsýningum á vegum Listar án landamæra undir stjórn Margrétar Norðdahl o.fl. Hún var valin fyrsti listamaður Listar án landamæra árið 2011 og vann með listamönnum á borð við Eggert Pétursson, Ransú og Gjörningaklúbbinn á ferli sínum. Guðrún tók þátt í sýningunni Spor og þræðir á Listahátíð í Reykjavík 2022, sem haldin var á Kjarvalsstöðum. Þar sýndi hún í hópi virtra listamanna, hvergi var minnst á fötlun hennar heldur fengu verkin að tala. Síðasta sýningin sem Guðrún tók þátt í var Brot af annars konar þekkingu í Nýlistasafninu á síðasta ári.

Guðrún bjó í Víðihlíð 5 í Reykjavík frá árinu 2008 og fram á síðasta dag, í sambýli fólks með fötlun. Víðihlíðin er heimili og samfélag góðra vina, samstarfsfélaga og velunnara Guðrúnar og þar leið henni vel.

Guðrún glímdi við parkinsonsjúkdóminn og síðustu mánuðir voru henni afar erfiðir.

Útför Guðrúnar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 9. febrúar 2024, klukkan 13.

Ég var sex ára þegar ég áttaði mig á því að stóra systir mín myndi alltaf passa mig. Eins og gengur í miskunnarleysi barnæskunnar voru stærri strákar að stríða mér þegar hún kom hlaupandi og sagði þeim að láta mig í friði. Óhrædd tók hún á móti þegar þeir snérust gegn henni og uppnefndu. Guðrún hugsaði nefnilega alltaf fyrst um aðra. Sá eiginleiki fylgdi henni alla ævi því þrátt fyrir að eiga mjög erfitt undir lokin kvartaði hún ekki. Hvernig hafa stelpurnar það, var það síðasta sem hún sagði við mig. Sjálf sagðist hún hafa það ágætt.

Ágætt. Þetta orð hafði margs konar þýðingu hjá Guðrúnu en blæbrigði gáfu vísbendingu um raunverulega merkingu. Því systir mín var hvorki skap- né skoðanalaus og þótt hún færi fínt með það náði hún gjarnan sínu fram. Í raun var aðdáunarvert að fylgjast með henni ferðast í gegnum lífið og ná undraverðum árangri á listasviðinu. Fötlun er flókið fyrirbæri og það er ekki sjálfgefið að einstaklingar skapi veruleika handan hennar. En það gerði Guðrún með útsaumsverkum sínum sem bera vitni um hug sem sá lengra en flest okkar grunaði. Tómur strigi varð að sinfóníu lita þar sem óræðir fletir mynduðu gríðarlega sterka heild. Þar birtist sköpunargáfan ómenguð af hugmyndum um það sem má og má ekki.

Ég var sex ára þegar ég áttaði mig á því að ég þyrfti alltaf að passa stóru systur mína. Sem er flókið hlutverk fyrir barn og eitthvað sem ég sinnti líklega ekki fyrr en ég nálgaðist fullorðinsárin. Ég lærði allt of seint að meta það þegar hún faðmaði mig og kallaði mig besta bróður í heimi. Titill sem mér fannst ég aldrei eiga skilið því Guðrún gaf alltaf meira en hún tók.

Þegar við Helga bjuggum í Stokkhólmi ákvað Guðrún að hún þyrfti að koma í heimsókn. Þetta var í fyrsta og eina skiptið sem hún flaug ein og þótt vinkona okkar hafi fyrir tilviljun verið í sömu vél segir það margt um áræðni systur minnar að hún hafi ákveðið þetta. Og í Stokkhólmi vildi hún líka upplifa allt það besta sem borgin hafði upp á að bjóða. Góðan mat, útsýnisferðir, óáfenga kokteila og fatabúðir. Því hún kunni að njóta lífsins lystisemda og helst í félagsskap með öðrum.

Félagslyndi Guðrúnar var þekkt enda var hún alla tíð dugleg að heimsækja fólk víðs vegar um borgina. Til þess nýtti hún sér strætisvagnakerfið sem hún kunni utan að lengi vel. Reglulega hef ég hitt fólk sem vissi allt um mína hagi, ekki í gegnum Facebook, heldur vegna þess að Guðrún kom reglulega í heimsókn og sagði þá frá öllu því helsta sem var að gerast hjá fjölskyldunni. Það var til marks um hægfara framgang sjúkdómsins að þessum ferðum fækkaði smátt og smátt þar til þær hurfu með öllu.

Ég velti því stundum fyrir mér hver dómur Guðrúnar verði um þennan heim. Tók hann vel á móti henni? Gaf hann henni þau tækifæri sem hún átti skilið? Því hún fullnýtti þau öll og vel það. Ævi Guðrúnar er til marks um sigur hugans yfir efninu, yfir snilldargáfu sem braust út og hjartalag sem aðra getur bara dreymt um. Hvíl í friði elsku systir. Þú gerðir alla sem þekktu þig að betri manneskjum.

Baldvin Þór Bergsson.

Guðrún mágkona mín og vinkona er látin. Hún háði hetjulega en erfiða baráttu við parkinsonsjúkdóminn í yfir áratug en hefur nú lotið í lægra haldi. Undanfarin ár hafa markast af því hvernig sjúkdómurinn náði smátt og smátt yfirhöndinni en óteljandi minningar um glaða og káta stelpu sem smitaði alla með barnslegri einlægni sinni sækja á mann á þessum sorgartímum.

Ég var svo heppinn að fá að kynnast þessari einstöku manneskju fyrir nær þremur áratugum. Okkur kom vel saman frá fyrsta degi, enda augljóst að Guðrún var gædd hinum ýmsu mannkostum í mun ríkari mæli en flestir aðrir. Hún var hreinskilin og einlæg, bjó yfir samkennd og hlýhug, var alltaf áhugasöm um hag annarra og sama hvað hún þurfti sjálf að glíma við frá degi til dags átti hún alltaf til umhyggju til handa þeim sem máttu sín minna. Sjálfhverfa eða eiginhagsmunir fundust ekki í hennar fari. Hún spurði miklu frekar frétta af öðrum en að tala um sjálfa sig, ekki hvað síst vildi hún vita hvernig Gutti vinur hennar hefði það, en hún þreyttist ekki á að rifja upp þegar henni tókst að sigrast á hræðslu sinni við hunda með hjálp ferfætlinganna í fjölskyldunni. Hún var forvitin, athugul og hafði afar ríka réttlætiskennd en henni fylgdi stundum mikil refsigleði ef Guðrúnu var ofboðið, þó aðeins í orði en ekki á borði. „Stundum ertu leiðinlegur,” sagði hún oft ef henni þótti ég ganga of langt en bætti jafnóðum við „… og stundum ertu skemmtilegur” því ekki vildi hún skilja mann eftir leiðan.

Og Guðrún var gædd fleiri náðargáfum, því hún var jafnframt mikil myndlistarkona. Meðan hún hafði getu til saumaði hún myndir sem eiga engan sinn líka, notaði mest krosssaum þar sem hún saumaði hin ýmsu form í stranga af mikilli nákvæmni, þolinmæði og stórkostlegu innsæi. Verk hennar voru sýnd víða um land og í hinum ýmsu galleríum, hún átti í samstarfi við sumt af fremsta myndlistarfólki landsins og má sjá augljós áhrif hennar í verkum sumra þeirra. Myndirnar hennar eru fullar af lífi og litum, form sem virka á margan hátt óreiðukennd en þegar betur er að gáð má sjá að hver saumur, hver kross, er á hárréttum stað. Og þessari velgengni á myndlistarsviðinu tók hún á sinn einstaka, stóíska og yfirvegaða hátt meðan aðrir fjölskyldumeðlimir réðu sér vart fyrir stolti. Myndirnar hennar munu ylja okkur um hjartarætur um alla framtíð og standa eftir sem minning um framúrskarandi listakonu.

Lífið fór svo sannarlega ekki alltaf mjúkum höndum um Guðrúnu en hún átti góða að og var umvafin ást, kærleik og væntumþykju allt fram á dauðadag. Það eru margir sem eiga um sárt að binda vegna fráfalls hennar en við getum vonandi fundið einhverja huggun í þeirri hugsun að þjáningin og þrautirnar eru horfnar, nú þegar hún gengur ein og óstudd inn í Sumarlandið þar sem ég veit að vel verður tekið á móti henni. Þar verða fagnaðarfundir, brosið færist aftur yfir og hláturinn sem við höfum saknað fær aftur að njóta sín og gleðja þá sem þar taka á móti þessari einstöku konu.

Hvíl í friði, elsku mágkona, ég á eftir að sakna þín.

Birgir (Biggi).

Okkur langar með fáeinum orðum að minnast yndislegrar Guðrúnar Bergsdóttur og þakka henni samfylgdina frá því hún tengdist fjölskyldu okkar fjölskylduböndum fyrir hartnær tveimur áratugum.

Guðrún kenndi okkur margt með sinni fallegu framkomu og innilegri samkennd sem hún sýndi öllu sínu samferðafólki.

Við erum þakklát fyrir að hafa kynnst henni, hún gaf af sér og gætti þess að öllum liði vel í návist hennar. Henni þótti einfaldlega vænt um fólk – og þá ekki síst um börnin í fjölskyldunni.

Guðrún hlaut almenna aðdáun og margvísleg verðlaun fyrir list sína en hún miklaðist ekki af verkum sínum heldur tók hún lofinu af stóískri ró. Það var enda hennar lífstaktur.

Útsaumsmyndirnar hennar eru einstakar fyrir frumleika, afburða formskyn og sérstæða litameðferð. Þær eru mikilvægt innlegg í íslenska listasögu og munu halda nafni hennar á lofti þó að hún hafi nú kvatt.

Guðrún sýndi ætíð aðdáunarvert æðruleysi gagnvart þeim erfiðu lífsverkefnum sem hanni voru fengin og mikið þrek i erfiðum veikindum sínum undanfarið.

Hún elsku Guðrún var einstök og hennar mesta gæfa var að eiga að einstaka fjölskyldu sem annaðist hana af miklum kærleika.

Kæra Sirrý, Bergur, Gréta og Baldvin, við vottum ykkur og fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúð.

Sigríður Lillý, Skúli, Erla, Ólafur Ragnar, Benedikt og Ragnheiður.

Þá er hún Guðrún okkar, bróðurdóttir mín, farin. Hún hafði átt við erfið veikindi að stríða um árabil og nú um hátíðirnar var ljóst að komið væri að leiðarlokum. Hún var fyrsta barn bróður míns Bergs og Sigríðar mágkonu. Fljótlega kom í ljós að ekki væri allt með felldu. Guðrún þroskaðist ekki eðlilega og ljóst varð að þeim hjónum hafði verið úthlutað erfitt hlutverk sem þau öxluðu með sóma.

Guðrún var margslunginn persónuleiki, geðgóð og oft glöð en nokkuð alvörugefin og skaprík ef henni mislíkaði. Hún var vönd að virðingu sinni og kunni illa við óþarfa léttúð. Láttu ekki svona, þú ert nú alveg, sagði hún stundum við mig og sneri fingri við gagnaugað og hló. Guðrún var félagslynd og var á sínum yngri árum mikið á ferðinni. Fór fótgangandi eða með strætó um allan bæ og vissi upp á hár ef eitthvað stóð til og lét sig ekki vanta. Það gat verið opnun á bakaríi í Breiðholti eða myndlistarsýning í miðbænum. Oft kom hún í heimsókn eða sló á þráðinn og spurði þá alltaf frétta af öllum. Guðrún hafði yndi af leikhúsi, óperu og tónlist. Þegar ég gegndi starfi leikhússtjóra hringdi hún iðulega. Þóttist ekki eiga neitt erindi, en lét svo, eins og af tilviljun, falla einhver orð um hvort þessi eða hin sýningin væri enn í gangi. Ég spurði þá hvort hana langaði að koma. Já, já, svaraði Guðrún, dálítið áhugalaust, eins og hún gæti svo sem gert það fyrir mig að þiggja boðið. Svo háttvís og kurteis var hún að hún vildi ekki krefjast neins en gladdist einlæglega yfir öllu sem að henni var rétt.

Guðrún var fagurkeri og innra með henni bjó listrænn andi. Hún hafði yndi af því að dansa og sveif um gólfið. Tilburðirnir gátu, við fyrstu sýn, virst spaugilegir, en þegar betur var að gáð var hún að tjá það sem hún fann innra með sér. Þar bjó yndisfögur dansmær sem tjáði sig og tónlistina fagurlega og af ríkri innlifun. Þessi listræni andi, tjáningarþörf og sköpunargáfa átti eftir að þroskast og njóta sín enn betur þegar hún tók til við að bródera. Fyrst fyllti hún út í teiknuð mynstur, en brátt urðu þau óþörf, eigin sköpun tók við og hún bróderaði listaverk sem voru engu lík. Í Guðrúnu bjó óbrigðul listakona, líkt og dansmærin áður. Listrænir tónar hennar voru margvíslegir og hún gekk í gegnum ólík tímabil, bæði í litum og formum. Guðrún hélt einkasýningar og tók þátt í fjölmörgum samsýningum og vöktu verk hennar verðskuldaða athygli. Einu sinni vildi ég kaupa af henni mynd, en það tók hún ekki í mál. Líklega var það til marks um hversu vænt henni þótti um verkin sín og vildi ekki sjá af þeim frekar en móðir af barni. Seinna gaf hún mér litla mynd sem mér þykir ákaflega vænt um.

Guðrún er okkur holl áminning um að sá mælikvarði sem við notum til að meta hæfileika og gáfur er kannski ekki hinn eini rétti. Mannshugurinn verður ekki skilgreindur með einföldum hætti.

Nú er Guðrún öll. Hennar verður sárt saknað en minningin um fallegt og ríkulegt líf mun lifa. Bergi, Sigríði og fjölskyldu sendum við hjónin okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Þórhildur Þorleifsdóttir.

Guðrún Bergsdóttir var merkileg manneskja, stærri, hjartahlýrri, kátari og já, einfaldlega betri manneskja en gengur og gerist. Hún hafði lifandi og djúpan áhuga á lífinu og fólkinu í kringum sig. Þegar Guðrún frænka hringdi eða kíkti í kaffi var eins gott að vita hvað allir í fjölskyldunni voru að sýsla. Hún spurði um alla, hvar fólk væri, hvað það væri að gera og hvernig því liði. Bað alltaf fyrir kveðjur og ef einhver var veikur eða eitthvað gekk ekki nógu vel vorkenndi hún viðkomandi innilega og af sannri meðlíðan.

Fyrir nokkrum árum, þegar við vorum að gera upp húsið okkar, kom Guðrún oft í heimsókn og fékk kaffi. Kannski var hún líka að taka út hvar við værum stödd í framkvæmdum þá og þá stundina og leist mjög misvel á. Ætliði ekki að laga garðinn? Hvenær kemur ný hurð? Eiga veggirnir að vera svona? Guðrúnu fannst ótækt hvað allt var draslaralegt í garðinum og einangrunarplast á veggjum kunni hún alls ekki við. Æ, aumingja frænka mín, greyið þú að hafa þetta svona, sagði hún þá og strauk mér um vangann.

Guðrún var líka húmoristi, stríðin og kát en það átti ekki að ganga of langt í gríninu og það mátti alls ekki vera á kostnað annarra, það kunni hún Guðrún ekki að meta. Stundum snupraði hún okkur, sérstaklega ef henni fannst hlutir farnir að leysast upp í einhvern vitleysisgang.

Æ, hættu þessu, ekki láta svona! átti hún þá til að segja og vagga vísifingri í átt að okkur en í kjölfarið fylgdi yfirleitt faðmlag og knús. Kelin og góð, hlý og heilsteypt, fyndin og fjörug.

En Guðrún var ekki bara stór og merk manneskja, hún var ekki síður stórmerkileg listakona. Myndirnar sem hún teiknaði alveg frá barnæsku og seinna útsaumsverkin hennar eru einstök, bæði í litum og formi, og hafa verið til sýnis á mörgum listasöfnum og sýningarsölum, nú síðast við opnun Listahátíðar í Reykjavík. Mér þóttu verkin hennar bera af og var ekki ein um þá skoðun. Það er einhver óútskýrður galdur, frjálst skapandi flæði sem einkennir verkin hennar sem dregur fólk að þeim og þau taka sér bólfestu innra með manni.

Guðrún fékk að þroskast og dafna bæði sem manneskja og listamaður ekki síst vegna þess góða atlætis og umhyggju sem hún naut alla tíð. Foreldrar hennar og systkini studdu hana og styrktu í hvívetna og í Víðihlíð átti hún gott athvarf og heimili. Væntumþykja og umhyggja Sirrýjar og Bergs var einstök og með þeirra mikla og góða stuðningi gat Guðrún þróað og þroskað sínar fjölmörgu gjafir.

Oft hittumst við frænkurnar hjá Grétu systur hennar og það var einstakt að fylgjast með hvernig Gréta, Biggi og stelpurnar þeirra góðu hugsuðu um Guðrúnu og hversu vel henni leið hjá þeim.

Ég mun minnast Guðrúnar frænku minnar með hlýju og söknuði, þakklát fyrir að hafa fengið að njóta samvista við hana og langar að gera orð Grétu að mínum þegar hún sagðist þess fullviss að Guðrún væri nú komin á betri stað þar sem hún gæti saumað og dansað á ný.

Fjölskyldu hennar og vinum votta ég mína innilegustu samúð.

Hvíl í friði elsku uppáhaldsfrænka mín.

Sólveig Arnarsdóttir.

Það rennur mér seint úr minni augnablikið þegar ég sá listaverk eftir Guðrúnu Bergsdóttur fyrsta sinni. Ég átti erindi á skrifstofu föður hennar í Hafnarhúsinu og rak augun í sérkennilegan útsaum sem hékk þar á vegg. Eins og hunangsfluga sem leitar í litfagra blómabreiðu þá leituðu augu mín aftur og aftur til þessarar útsaumsmyndar, enda var verkið ekki ósvipað íslenskri berjabrekku með öllum fegurstu litum náttúrunnar. Ég var sem heilluð.

Á þessum tíma var ég umsjónarmaður myndlistarsýninga í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi og valdi þar til sýningar bæði leika og lærða listamenn. Það var mér mikið ánægjuefni að kynnast Guðrúnu og listaverkum hennar betur, og ekki síður foreldrum hennar, Bergi og Sigríði, sem studdu hana ávallt með ráðum og dáð. Varð að samkomulagi að setja upp sýningu á verkum Guðrúnar í Gerðubergi síðla árs 2006 undir yfirskriftinni „Hugarheimar“. Má segja að sú sýning hafi orðið til þess að vekja verulega athygli á þessum sérstæða útsaumslistamanni, en áður hafði Guðrún reyndar sýnt nokkur verk í bókasafninu í Gerðubergi í tilefni af hátíðinni List án landamæra 2003. Sýningin í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi vakti svo mikla athygli og varð svo vinsæl og fjölsótt að nauðsynlegt þótti að framlengja hana, en slíkt heyrði til algerra undantekninga.

Eftir þetta voru verk Guðrúnar sýnd svo gott sem árvisst, oftar en ekki í tengslum við hátíðina List án landamæra, og árið 2011 var hún kjörin listamaður hátíðarinnar. Síðasta sýningin á verkum Guðrúnar var haldin í Safnasafninu 2020 í sýningarstjórn Margrétar M. Norðdahl. Í texta Margrétar sem fylgdi sýningunni úr hlaði segir: „Verk Guðrúnar ávarpa manngerð landamæri listheimsins, þar sem múrar hafa verið reistir og verk eru vegin og metin eftir ósögðum en vel þekktum reglum um gildi ólíkra verka og skapara þeirra. Guðrún hefur markað spor í listasöguna og með verkum sínum og nálgun haft áhrif á samtímafólk sitt í listinni.“

Tek ég undir þessi orð. Útsaumslistaverk Guðrúnar Bergsdóttur eru algerlega einstæð, spunadans sprottinn beint úr hennar eigin hugarheimi. Fyrstu útsaumsverkin voru ferningar sem hún fléttaði saman líkt og abstraktmálari, en síðan tók hún til við að brjóta formfestuna upp, útsaumurinn óx í fullkomnu frelsi í allar áttir og mynduðu óregluleg formin allsherjarsinfóníu fjölskrúðugra lita. Þá kom nýtt tímabil í átt til einföldunar, þar til að svo kom að aðeins eitt saumspor var sett niður, þá tekinn nýr litur og annað spor tekið, og þannig áfram í sérkennilegri formfestu einfaldleika. Þessar síðustu útsaumsmyndir virka óreiðukenndari, eins konar litakliður þar sem er ekkert kunnuglegt form að festa augu á, en um leið svo sjálfsagt framhald af sköpunarferli sem aldrei staðnaði.

Guðrún Bergsdóttir markaði svo sannarlega sín spor í íslenska listasögu og er ég þakklát fyrir að hafa átt örlítinn þátt í að sýna fram á listrænt vægi útsaumslistaverka hennar. Foreldrum Guðrúnar og öðrum aðstandendum votta ég innilega samúð mína. Minningin og verk hennar lifa.

Harpa Björnsdóttir.