Vinna Þátttaka allra skiptir miklu máli. Gott velferðarkerfi og starfsendurhæfing getur skilað samfélaginu miklu, að mati forstjóra VIRK.
Vinna Þátttaka allra skiptir miklu máli. Gott velferðarkerfi og starfsendurhæfing getur skilað samfélaginu miklu, að mati forstjóra VIRK.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Stærstur hluti þess fólks sem á hverjum tíma er í þjónustu og endurhæfingu hjá okkur glímir við andleg veikindi og oft um leið stoðkerfisvanda. Við finnum annars fyrir því að vinnumarkaður og samfélag eru í örri þróun

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Stærstur hluti þess fólks sem á hverjum tíma er í þjónustu og endurhæfingu hjá okkur glímir við andleg veikindi og oft um leið stoðkerfisvanda. Við finnum annars fyrir því að vinnumarkaður og samfélag eru í örri þróun. Mikilvægt er að geta sem best mætt þörfum þess fólks sem hér býr, líka þeirra sem ekki eru íslenskumælandi og þurfa stuðning til að komast aftur til vinnu,“ segir Vigdís Jónsdóttir, forstjóri VIRK – starfsendurhæfingarsjóðs.

Alls eru um 2.500 manns um þessar mundir í þjónustu hjá VIRK. Um 2.300 manns hófu starfsendurhæfingu á vegum sjóðsins í fyrra, svipað margir og árið áður. Alls útskrifuðust 1.604 þjónustuþegar í fyrra en algengur meðferðartími er 6-18 mánuðir.

Um 80% eru vinnufær við lok meðferðar

Í starfi VIRK frá 2008 hafa alls um 26.000 manns farið í gegnum meðferð þar, sumir oftar en einu sinni. Um 80% eru vinnufær við lok meðferðar. Þetta segir Vigdís að geti talist mjög góður árangur. Þjónustukannanir sem gerðar hafi verið sýna að fólk sem komi í meðferð, þá eftir þrot og fall úr vinnu, sé ánægt með þjónustuna sem bjóðist.

Starfsemi VIRK er að mestu leyti fjármögnuð með framlögum frá stéttarfélögum, atvinnulífi og lífeyrissjóðunum. Þetta fyrirkomulag segir Vigdís vera gott.

Til vinnu úr vímuvanda

„Þjónustuþegar okkar eru á öllum aldri. Unga fólkið sem leitar til okkar glímir oft við ýmsan andlegan vanda. Talsverður hópur þess hefur glímt við vímuvanda, hefur lokið meðferð en þarf aðstoð til að komast aftur í vinnu. Ráðgjafar okkar halda utan um þjónustuferilinn og gegna stóru hlutverki í að efla og hvetja til aukinnar þátttöku. Sumir þurfa sjálfstyrkingu, nám hjá símenntunarstöðvum hentar öðrum og svo framvegis. Alltaf er mikilvægt að koma ungu fólki til virkrar þátttöku í samfélaginu; heill þess sjálfs er í húfi og verðmætin sem viðkomandi geta skapað á starfsævinni sem er fram undan.”

Fjárfest í fólki

Fyrir nokkru kom út skýrsla með niðurstöðum heildarúttektar á VIRK. Í þeirri skýrslu var m.a. lagt mat á þróun örorkubyrði bæði hjá lífeyrissjóðum og ríki. Borin voru saman tvö tímabil, annars vegar árin 2000-2004, það er áður en VIRK var stofnað, og svo árin 2015-2019. Niðurstöður þessara útreikninga voru þær að örorkubyrði hjá Tryggingastofnun hefur dregist saman um 2,4% milli þessara tímabila og örorkubyrði hjá lífeyrissjóðum hefur dregist saman um 13,7% séu fyrrgreind tímabil höfð sem viðmið. Hér er um að ræða miklar fjárhæðir þar sem t.d. áætluð heildarskuldbinding lífeyrissjóða vegna örorku er um 900 milljarðar króna. 13,7% af þeirri fjárhæð nema um 123 milljörðum króna. Við þetta bætist síðan ávinningurinn sem felst í betri líðan og lífsgæði einstaklinga.

„Gott velferðarkerfi og öflug starfsendurhæfing getur þannig skilað samfélaginu mjög miklu og á það er hægt að setja mismunandi mælikvarða. Hverjir sem kvarðarnir eru er það ljóst að það borgar sig að fjárfesta í fólki,“ segir Vigdís.