Guðmundur Hólmar Guðmundsson fæddist í Reykjavík 17. október 1955. Hann lést á heimili sínu 16. janúar 2024.

Foreldrar hans voru Guðmundur Kr. Óskarsson, f. 11. júní 1928, d. 26. maí 1970, ættaður af Snæfellsnesi, og Hólmfríður Oddsdóttir, f. 27. nóvember 1926, d. 5. ágúst 2016, ættuð af Kjalarnesi og úr Meðallandi og Vestmannaeyjum. Guðmundur ólst upp í smáíbúðahverfinu í Reykjavík og síðar á Patreksfirði með foreldrum sínum og systkinum. Þau eru: Lovísa, f. 1946, d. 2023, Oddur, f. 1949, Óskar, f. 1950, Brynjar, f. 1959, Atli, f. 1963, d. 1997, og Brynhildur, f. 1968. Yngstu systkinin voru fædd á Patreksfirði en þangað flutti fjölskyldan vorið 1963.

Fyrri maki Guðmundar Hólmars var Inga Gústavsdóttir, f. 27. nóvember 1954, d. 28. apríl 2022, þau skildu. Sonur þeirra er: 1) Gústav Smári, f. 8. des. 1976, tæknimaður. Maki hans er Emilía Guðmundsdóttir, f. 24. júlí 1977, sálfræðingur. Börn þeirra eru Júlía, f. 6. júní 2009, Guðmundur Freyr, f. 21. júní 2011, og Kári Rafn, f. 23. október 2016.

Seinni maki var Sigrún Hrönn Kristmannsdóttir, síðar Landvall, f. 9. júlí 1959, lögfræðingur, þau skildu. Börn þeirra: 2) Bergur Hrannar, f. 28. mars 1981, bóndi á Steinaborg í Berufirði. 3) Ósk, f. 4. september 1985, býr í Svíþjóð.

Guðmundur Hólmar átti heima fyrstu æviárin í Hlíðargerði í Reykjavík og síðar á Patreksfirði, en mestalla ævi bjó hann á höfuðborgarsvæðinu. Hann hafði snemma áhuga á tónlist, samdi lög, söng og spilaði á gítar. Þá hafði hann ungur áhuga á vélum og stundaði ýmis störf meðan gafst.

Guðmundur barðist við heilsuleysi lengst af ævi sinnar. Hann bjó í Kópavogi síðustu áratugi og lést á heimili sínu í Hamraborg 16. janúar síðastliðinn.

Útför hans fer fram frá Digraneskirkju í dag, 9. febrúar 2024, og hefst klukkan 13.

Guðmundur Hólmar bróðir minn var myndrænn á öllum æviskeiðum. Þegar ég man fyrst eftir honum var hann undrafagurt barn, með ljósa lokka sem hrundu niður herðar og augun skær, svo fallegur að heilu saumaklúbbarnir komu til að skoða fegurðina í víðfrægum silver cross-barnavagni, sem átti eftir að þjóna fjölskyldunni í margar barneignir.

Er pilturinn óx úr grasi tók hann að líkjast sætustu bítlunum, John og Paul, og stelpurnar fengu í hnén þegar Guðmundur Hólmar raulaði lögin þeirra. Á þrítugs- og fertugsaldri líktist hann svo Clapton, en á miðjum aldri og allt til enda tók hann myndrænt að líkjast öðruvísi meisturum; Bakúnín og þeim. En svipsterkur var hann ævinlega.

Guðmundur Hólmar gat verið manna glaðastur og hrifnæmur svo af bar – og hreif aðra með sér. Einhverju sinni var hann á spennumynd í kvikmyndahúsi með bróður sínum og fannst framvindan á hvíta tjaldinu helsti hæg og óttaðist um öryggi söguhetjunnar. Morðinginn nálgaðist hana að aftan. Dauðaþögn í salnum. Þá hrópaði Guðmundur viðvörunarorð: Gættu þín, hann er fyrir aftan þig! Síðan hélt hann þessu virka áhorfi áfram og minn maður leiðbeindi kvikmyndaleikurunum af þrótti upphátt það sem eftir lifði myndar. – Það merkilega gerðist, að aðrir kvikmyndahúsgestir tóku þessu afar vel og fóru jafnvel að spila með honum. Þegar svo söguhetjan í lok myndar var sloppin og hólpin stóð Guðmundur Hólmar upp, hrópaði húrra og klappaði. Aðrir gestir kvikmyndasýningarinnar stóðu sömuleiðis á fætur og tóku undir með honum. Allir kátir.

Guðmundur Hólmar hafði áhuga á bílum og var natinn og útsjónarsamur viðgerðarmaður. Sömuleiðis hafði hann áhuga á mótorhjólum og naut þess að þjóta um á vélknúnum fákum. Tónlistin fylgdi honum einnig fram eftir ævi. Líklega hefur heilsuleysi meinað honum að njóta sín á þeim áhugasviðum sem hann hafði á ungum aldri. Að honum sóttu krankleikar alls konar. Hann vann samt marga sigra á sjálfum sér, hætti til að mynda að drekka fyrir mörgum árum – og hann reyndi að rækta afkomendur sína, sem honum þótti vænna um en allt annað.

Veður skipast skjótt í lofti. Geðbrigðin gátu orðið snögg og óvænt. Við bræður áttum ekki mikla samleið í lífinu; þá sjaldan við hittumst átti hann það til að verða mér reiður upp úr þurru, og ég vissi sjaldnast hvers vegna. Þrátt fyrir það held ég að væntumþykja hafi verið millum okkar, bræðraþelið þétt.

Guðmundur Hólmar sem glaðast hló var stundum haldinn þungum sorgum. Þá dró hann sig í hlé og hvarf samfélagi manna. Síðan fór landið að rísa á ný – og sólin að skína. Megi hún skína bróður mínum á lendum eilífðar.

Óskar Guðmundsson
í Véum.