Búið Boris Nadesjdín ræðir við blaðamenn í Moskvu í gær.
Búið Boris Nadesjdín ræðir við blaðamenn í Moskvu í gær. — AFP/Natalia Kolesnikova
Kosningayfirvöld í Rússlandi stöðvuðu í gær framboð Borisar Nadesjdíns til forseta í kosningunum sem þar fara fram 15. til 17. mars. Nadesjdín, sem er andstæðingur stríðsins í Úkraínu, greindi frá þessu á félagsmiðlinum Telegram

Kosningayfirvöld í Rússlandi stöðvuðu í gær framboð Borisar Nadesjdíns til forseta í kosningunum sem þar fara fram 15. til 17. mars. Nadesjdín, sem er andstæðingur stríðsins í Úkraínu, greindi frá þessu á félagsmiðlinum Telegram.

Öllum helstu stjórnarandstæðingum hefur verið meinað að bjóða fram. Eftir standa þrír frambjóðendur aðrir en Vladimír Pútín. Allir eru þeir úr flokkum sem eiga að heita í stjórnarandstöðu en njóta velþóknunar Kremlar.

Nadesjdín kvaðst ætla að áfrýja til Hæstaréttar Rússlands. „Ég er ekki samþykkur ákvörðun kosningastjórnarinnar. Þátttaka í forsetakosningunum 2024 er mikilvægasta pólitíska ákvörðun lífs míns. Ég mun ekki hverfa frá fyrirætlunum mínum,“ skrifaði hann á Telegram. Taldar eru hverfandi líkur á að áfrýjunin nái fram að ganga.

Kosningastjórnin sagði að 9.000 undirskriftum af 105.000 sem Nadesjdín lagði fram til grundvallar framboði sínu hefði verið ábótavant. Skekkjumörkin eru við fimm af hundraði undirskrifta.

Áður en ákvörðunin var tilkynnt höfðu aðstoðarmenn hans sagt að aðfinnslurnar lytu að innsláttarvillum sem yrðu þegar handskrifuð nöfn og heimilisföng væru slegin inn í tölvur. Á einum stað hefði til dæmis staðið Rostov við Dom þegar átti að standa Rostov við Don.

Nadesjdín hefur hvatt til þess að hernaður Rússa í Úkraínu verði stöðvaður. Birtar hafa verið myndir af fólki í röðum að bíða eftir að skrifa undir til fulltingis framboði hans.

Nadesjdín sagði í viðtali við AFP í janúar að átökin í Úkraínu væru „skelfileg“ og hann vildi „frelsa pólitíska fanga“ í Rússlandi.