Skírnir Garðarsson sendi mér góðan póst: Afsláttarkort eldri borgara nota ég í tíma og ótíma. Um daginn reyndi ég að nota það til að fá afslátt í sund, en það gekk ekki því sundmiðinn er ókeypis fyrir fólk á mínum aldri

Skírnir Garðarsson sendi mér góðan póst: Afsláttarkort eldri borgara nota ég í tíma og ótíma. Um daginn reyndi ég að nota það til að fá afslátt í sund, en það gekk ekki því sundmiðinn er ókeypis fyrir fólk á mínum aldri.

Vildarkjörin vildi fá

hinn vaski sveinn.

En afsláttur af engu þá

var ekki neinn.

Minnir mig á vísu sem ég heyrði í Árnessýslu, þar voru menn að bölsótast út í dýrtíðina:

Ekkert kostar ekki neitt,

ekkert hugann seður,

ekkert getur engu breytt

ekkert bændur gleður.

Aðeins tvo bændur heyrði ég syngja við störf sín í Hreppunum (hinir hummuðu mest). Þetta voru bræðurnir Eyþór bóndi á Kaldbak og Einar bóndi á Laugum, Einarssynir, en sá síðarnefndi var raddsterkasti maður sveitarinnar. Sagt var að þeir bræður hefðu „kallast á“, en langt var milli bæja þarna í uppsveitunum.

Um Einar var kveðið:

Einar heitir Einars bur,

er á Laugum staðsettur,

raddsterkur og rómaður,

röskleika- er sá maður,

Jón Jens Kristjánsson yrkir á Boðnarmiði:

Það skeði hjá skotmanni vitrum

í skógi á haustdegi bitrum

að höglum var þeytt

en' ann hafði ekki neitt

nema eitthvað af andaslitrum.

Guðmundur og Sólveig Laufási bættu við:

Þær töldust nú kannski tugur

talsverður karlsins dugur.

Gömlum með græjum

gerði að hræjum

Át þau svo andaktugur.

¶ Örlát með orðin við bruðlum¶ og óðfim í vísur þeim kuðlum¶ því í gleði og hryggð¶ hefur tólf alda tryggð¶ tengt okkur saman með stuðlum.¶ x¶ Því ljóðafólk leitar ei þagnar,¶ það lifir og kveður og fagnar¶ og stefnir frá höfn¶ út á stuðlanna dröfn¶ en í stafni er höfðinginn Ragnar.

Þórdís Sigurbjörnsdóttir yrkir:

Kona stóð úti í kaldþéttingsvindi

klæðnaðinn færði á svig,

það eru svo mikilvæg mannréttindi

að mega ofkæla sig.

Hjörtur Gíslason kvað:

Þeir sem Hel á hólminn skora

hljóta lífsins ást og tryggð.

En þeir sem aldrei þora að þora

þjást af dauðans viðurstyggð.

Öfugmælavísan:

Séð hef ég glíma sel og hest,

silunginn spinna allra best,

hrafninn synda á hafið út,

hákarlinn drekka úr brennivínskút.