Innlifun Aldís Fjóla leggur allt í sönginn og ætlar að gefa af sér í Fríkirkjunni í Reykjavík annað kvöld.
Innlifun Aldís Fjóla leggur allt í sönginn og ætlar að gefa af sér í Fríkirkjunni í Reykjavík annað kvöld. — Ljósmynd/Baldvin Ingi Símonarson
Tónlistarkonan og söngkennarinn Aldís Fjóla Borgfjörð Ásgeirsdóttir verður með tónleika í Fríkirkjunni í Reykjavík á sunnudag og hefjast þeir klukkan 20.30. „Þetta er tilraunaverkefni sem getur ekki klikkað,“ segir Aldís og vísar til…

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Tónlistarkonan og söngkennarinn Aldís Fjóla Borgfjörð Ásgeirsdóttir verður með tónleika í Fríkirkjunni í Reykjavík á sunnudag og hefjast þeir klukkan 20.30. „Þetta er tilraunaverkefni sem getur ekki klikkað,“ segir Aldís og vísar til nýrra útsetninga á eldri lögum, en Stefán Örn Gunnlaugsson spilar með henni á flygil, Halldór Sveinsson á fiðlu og Birgir Bragason á kontrabassa.

Á þessum tíma undanfarin tvö ár hefur Aldís verið með tónleika í Iðnó en nú vildi hún breyta til. „Næsta mikilmennskubrjálæði er að fylla Fríkirkjuna,“ segir hún.

Aldís á og rekur Tónlistarskólann Gleymmérei Music. „Ég hjálpa tónlistarfólki meðal annars við að ná markmiðum sínum og draumum,“ segir hún. Listafólk lendi oft á vegg eða hafi ekki trú á sjálfu sér. „Ég finn út með viðkomandi tónlistarmanni hvað þarf að gera hverju sinni. Við erum öll með mismunandi drauma þegar kemur að áhugamálum og ástríðum.“ Hún og Hildur Kristín Stefánsdóttir verði til dæmis með lagasmíðabúðir á Leirubakka 15.-18. febrúar.

Löng leið

Aldís er frá Borgarfirði eystri og þar hófst söngferillinn. Hún heldur tryggð við sína heimabyggð og er til að mynda í þorrablótsnefndinni. „Þegar ég var lítil var ég með mörg dans- og sönghádegi þar sem enginn mátti horfa á mig,“ ljóstrar hún upp. Segist líka hafa tekið þátt í fyrstu söngkeppni sinni í Borgarfirði eystri, tekið hana mjög alvarlega og verið mjög kappsöm. „Allt sem viðkemur tónlist hjá mér byrjaði heima enda ekki er undan því komist að tengjast einhverri list í þessari stórbrotnu náttúru sem þar er.“

Tónlistar- og söngkennsla var af skornum skammti í heimabyggð en Aldís nýtti sér það sem bauðst og lærði meðal annars á píanó. Söngnámið var að mestu sjálfsnám. „Ég kenndi mér sjálf og söng með mínu uppáhaldstónlistarfólki þegar ég hlustaði á það syngja í útvarpinu.“ Þegar hún byrjaði í Menntaskólanum á Egilsstöðum hóf hún þar söngnám. „Ég byrjaði að læra klassískan söng hjá Keith Reed.“

Nám í söngskólanum Complete Vocal Institute í Kaupmannahöfn gerði gæfumuninn. „Þar fann ég mína rödd, fann hvað hún var kröftug og hvernig ég vildi beita henni,“ segir Aldís. Í kjölfarið hafi söngferillinn í raun hafist og hún hafi byrjað að taka upp lög með Stefáni Erni Gunnlaugssyni fyrir um sex árum. „Þá braust út ákveðið sköpunarferli sem einkennir lögin okkar.“

Fyrsta sólóplata Aldísar, Shadows, kom út árið 2020 og síðan sendi hún frá sér plötuna Pipedreams árið 2022. Í desember sl. gáfu þau Halldór Sveinsson út lagið „Quiet the Storm“. „Það vakti mikla lukku og fór á toppinn á vinsældalista Rásar 2. Það var mjög skemmtilegt og varð til þess að ég vildi halda rólega tónleika í Fríkirkjunni, dempa lögin mín niður og flytja þau í annarri útsetningu.“