Ólafur Þorgils Guðmundsson fæddist í Sandgerði 24. júlí 1939. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 22. janúar 2024.

Foreldrar hans voru hjónin Guðbjörg Sigríður Þorgilsdóttir, f. 4.2. 1904, d. 16.10. 1964, og Guðmundur Jónsson, f. 5.7. 1897, d. 24.5. 1971. Móðurforeldrar voru hjónin Unnur Sigurðardóttir, f. 16.6. 1886, d. 28.6. 1965, og Þorgils Árnason, f. 21.6. 1878, d. 1.4. 1927. Föðurforeldrar voru hjónin Þóra Eyjólfsdóttir, f. 10.10. 1864, d. 25.11. 1918, og Jón Jónsson, f. 7. 9. 1861, d. 21.4. 1930. Alsystkini Ólafs voru Guðrún, f. 17.8. 1934, d. 14.7. 2004, gift Finni Þorvaldssyni, f. 15.4. 1931, d. 26.7. 2020. Óskírður drengur, f. 16.11. 1936, d. 7.12. 1936. Jón, f. 6.7. 1940, d. 5.9. 2011. Hálfbróðir Ólafs samfeðra var Einar Vilhelm, f. 20.5. 1936, d. 10.3. 2003.

Ólafur Þorgils giftist 9.11. 1963, Guðlaugu Fríðu Bárðardóttur f. 12.1. 1943 í Ytri-Njarðvík. Foreldrar hennar voru Bárður Olgeirsson, f. 4.8. 1905, d. 17.1. 1992, og Árný Eyrún Ragnhildur Helgadóttir, f. 18.1. 1910, d. 15.2. 2001. Börn Ólafs og Guðlaugar Fríðu eru: 1) Rúnar Bárður, f. 15.3. 1962, d. 14.11. 1998. 2) Viðar Ólafsson f. 31.8. 1966, giftur Róbertu Báru Maloney, f. 9.8. 1963, barn þeirra er a) Aníta Eva, f. 26.2. 1994, gift Óskari Erni Óskarssyni, f. 8.5. 1993. Barn þeirra er Viðar Örn, f. 13.8. 2021. Börn Róbertu af fyrra hjónabandi eru: a) Óskar Frank, f. 10.11. 1982, sambýliskona Guðrún Þórðardóttir, f. 21.4. 1983. Fósturbörn hans eru: Alexander Nótt, f. 11.5. 2003, og Brynjar, f. 3.9. 2008. b) Auður Bryndís, f. 30.11. 1988, d. 23.3. 2009. 3) Sveinbjörg Sigríður Ólafsdóttir, f. 10.3. 1972, gift Kjartani Ingvarssyni, f. 21.6. 1970, börn a) Ólafur Elí, f. 22.12. 1993, b) Rúnar Bárður, f. 21.4. 2002, c) Jökull Ingi, f. 13.8. 2004 kærasta Kolbrún Richardsdóttir, f. 22.6. 2005, d) Freyja Líf, f. 30.8. 2009.

Ólafur Þorgils ólst upp hjá foreldrum í Hlíð í Sandgerði. Hann lauk gagnfræðaprófi og landsprófi frá Héraðsskólanum í Reykholti vorið 1956. Lauk sveinsprófi í málaraiðn frá Iðnskóla Keflavíkur 1965 og meistararéttindum 1972. Ólafur var einn af stofnendum málarafyrirtækisins K. Guðmundssonar og Co h/f og starfaði þar til ársins 1972. Þá stofnaði hann sitt eigið málarafyrirtæki, Ólafur og Þór hf., ásamt málningarsölu og rak það til ársins 1992. Þá hóf hann störf hjá málningardeild Varnarliðs Keflavíkur og hætti vegna aldurs árið 2006. Ólafur var virkur í félagsmálum og sat í stjórnum og sinnti trúnaðarstörfum í ýmsum félögum, m.a. Suðurnesjaverktökum, prófnefndarformaður í útskrift málarasveina á Suðurnesjum, Lionsklúbbi Njarðvíkur, sóknarnefnd Ytri-Njarðvíkurkirkju í 25 ár, kirkjugörðum Njarðvíkursókna í 30 ár, heiðursfélagi í Kirkjugarðasambandi Íslands, Frímúrarastúku Sindra í Reykjanesbæ og var í stjórn Virkjun mannauðs og velferðar í Reykjanesbæ til dánardags.

Útför Ólafs verður gerð frá Ytri-Njarðvíkurkirkju í dag, 9. febrúar 2024, klukkan 13.

Elsku pabbi.

Ég sit hér við tölvu að skrifa minningarorð um þig og fyrsta minningin sem er mér svo minnisstæð er þegar ég var í grunnskóla og var sendur til skólastjórans vegna slagsmála. Þú þurftir að sækja mig og ég þurfti að bíða lengi eftir þér og var orðinn stressaður. Loks komst þú og ræddir við skólastjórann og síðan komstu til mín brosandi, vitandi það að ég var búinn að þjást nóg. Við fórum heim og það var ekki minnst einu orði á þetta heima. Þetta lýsir því hversu góður faðir þú varst, aldrei var öskrað á okkur systkinin, heldur voru vandamálin rædd og rökstudd.

Ég verð ávallt þakklátur þér pabbi að hafa komið mér inn sem lærlingi hjá Ella Jóns til að læra innréttingasmíði. Ég hef horft á þig sem stoltur sonur og lært margt af þér. Þú varst ávallt tilbúinn að aðstoða okkur hjónin, t.d. varðandi íbúðina okkar á Heiðarbraut sem þú málaðir alla ásamt Rúnari. Þú og mamma tókuð Óskari Frank og Auði Bryndísi opnum örmum þegar ég kynnti þau fyrir ykkur sem fósturbörn mín. Aníta Eva bættist fljótlega í hópinn og þú varst þeim öllum góður afi.

Það hefur verið gaman að fylgjast með þér og mömmu í gegnum lífið; öll ferðalögin sem þið fóru í, bæði innanlands og erlendis, og hversu samrýnd þið voruð í öllum ákvörðunum. Það var gaman og stundum krefjandi að aðstoða þig og mömmu í allri smíðavinnu fyrir ykkur í Kjarrmóa og bústaðnum Hlíð, en þau eru mörg meistarahandverkin eftir okkur.

Takk, elsku pabbi, fyrir að hafa alltaf verið til staðar fyrir mig þegar eitthvað bjátaði á, og takk fyrir að greiða götu mína fyrir að gerast frímúrari, sem hefur hjálpað mér mjög mikið í gegnum lífið. Þagmælska, varúð, hófsemi og miskunnarsemi eru þau verkfæri sem þú hefur lifað eftir.

Það var mikið högg fyrir fjölskylduna að missa Rúnar Bárð og Auði Bryndísi, sem klárlega munu taka vel á móti þér í draumalandinu. Þú hefur ávallt verið að gera eitthvað alveg fram að því þegar þú greindist með krabbamein. Þá sagðir þú mér að þú ættir svo margt eftir að gera, sem lýsir því hvers konar persóna þú varst, alltaf með verkefni.

Þau eru mörg og glæsileg meistaraverkin eftir þig í útskurði. Klukkur, fuglar, fótboltamerki, frímúraramerki o.fl. eru verk sem munu standa í minningu um þig um ókomna tíð.

Núna hefur þú farið þitt síðasta ferðalag. Hinn hæsti höfuðsmiður er nú með þér í austrinu eilífa.

Ég kveð þig með söknuði.

Þinn sonur.

Viðar.

Elskulegur faðir minn lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 22. janúar eftir skammvinn veikindi. Margs er að minnast og efst í huga mér er þakklæti fyrir góðan og styðjandi föður alla mína ævi. Pabbi var einstaklega fjölhæfur og lék allt í höndunum á honum. Í barnæsku minni rak pabbi minn málarafyrirtæki og málningarvöruverslun. Skrifstofa hans var í horninu í herberginu mínu í nokkur ár og var notalegt að sofna á kvöldin með hann mér við hlið að vinna í bókhaldi, útboðum, launamálum eða einhverju tengdu fyrirtæki sínu. Samband okkar var náið og var hann fyrirmynd mín í mörgu. Ávallt vinnusamur og alltaf eitthvað að gera með margar hugmyndir í kollinum. Alltaf var verið að breyta og bæta Borgarvegi, æskuheimili mínu, og herbergið mitt var málað reglulega í uppáhaldslitum mínum hverju sinni. Á sumrin var farið allar helgar í sumarbústaðinn okkar í Hlíð uppi við Langá á Mýrum í Borgarfirði, minn uppáhaldsstað. Þar var sælureitur okkar allra og þar naut hann sín við trjá- og blómarækt. Þá hafði maður pabba út af fyrir sig, enginn að trufla hann tengt fyrirtækinu, mikið spilað, farið í sund og ísrúnt í Borgarnes.

Pabbi var ljúfur og góður maður og ég man varla eftir því að vera skömmuð, hann frekar hló að uppátækjum dóttur sinnar, sem var stundum ansi fyrirferðarmikil. Ég róaðist með aldrinum en vona að ég verði eins virk og hann nánast fram á síðasta dag. Hugsa vel um heilsuna, taka þátt í félagsstörfum, ferðast, tréútskurður og njóta lífsins til fulls. Þegar ég var í hjúkrunarfræði fékk ég mikinn stuðning frá foreldrum mínum með hann Ólaf Elí elsta son minn og bjó hjá þeim í rúmt ár og er ævinlega þakklát fyrir aðstoð þeirra og hvatningu. Pabbi var mikill barnakarl og fannst gaman að hafa barnabörnin í kringum sig og fengu öll börnin mín fjögur að njóta þess.

Það var mikið áfall að fá krabbameinsgreininguna í nóvember, þú fullur lífsvilja og erfitt að sætta sig við að krabbameinið væri komið á lokastig og ekki hægt að fá meðferð við því. Þú sem hafðir alltaf hugsað vel um heilsuna, reglusamur og samviskusamur. En að hugsa til baka varstu svo harður af þér, sættir þig við þessa verki og tengdir það við bakverkina þína sem höfðu þjakað þig lengi og ekki kvartaðir þú. Heldur hélstu áfram með von í brjósti að þú fengir sem lengstan tíma með okkur öllum og hafðir von allt fram til síðustu daganna, en þá var heilsunni farin að hraka mikið.

Sorgin hefur bankað dyra hjá okkur áður og var það afar sárt að missa Rúnar Bárð bróður af slysförum árið 1998 aðeins 36 ára og Auði Bryndísi fósturdóttur Viðars bróður 20 ára úr krabbameini árið 2009. Þið mamma og við stóðum þétt saman þá og studduð hvort annað í gegnum sorgina og veit ég að þú hefur fengið góðar móttökur og hugsa ég um ykkur þrjú sem fallegustu englana okkar. Minning ykkar lifir og við fjölskyldan munum hugsa um mömmu eins og vel og við getum og standa þétt saman sem áður.

Takk, elsku pabbi, fyrir allt.

Þín dóttir

Sveinbjörg Sigríður Ólafsdóttir (Sveina).

Fallinn er frá elskulegur tengdafaðir minn, Ólafur Þorgils Guðmundsson. Ég var svo heppinn að þegar við Sveina rugluðum saman okkar reytum fylgdi með dásamleg tengdafjölskylda sem tók mér einstaklega vel. Við Óli smullum strax vel saman. Gaman var að taka spjallið við hann um menn og málefni. Víðlesinn var hann en sérstakan áhuga hafði hann á sögulegum bókum, þó einkum um seinna stríð, og þeim áhuga smitaði hann yfir á Rúnar Bárð okkar. Yndislegar voru allar stundirnar í sumarbústaðnum í Borgarfirðinum. Óli var ekki fyrr kominn upp í bústað en hann var kominn í stígvélin sín og farinn að vinna í garðinum, laga og bæta bústaðinn og gerði hann á endanum að þeim sælureit sem fjölskylduna hafði dreymt um. Enda var það þannig að þegar hann var seldur féllu kaupendur flatir fyrir bústaðnum og umhverfinu og þeirri alúð og natni sem að lagt var í hann. En þannig var Óli, gerði allt 100%. Traustari og vandaðri manneskju var vart hægt að finna. Heill og sannur í öllu sem hann tók sér fyrir hendur. Hann hafði alltaf eitthvað fyrir stafni. Sinnti félagsstörfum af kappi og í flestum þeirra valinn í ábyrgðarstöður og oftar en ekki gjaldkeraembætti, sem krafðist nákvæmni og aga og það einkenndi Óla. Óli var listamaður af guðs náð, fyrir utan að fá útrás fyrir listhneigð sína við blómarækt og að skipuleggja garðana við heimili sín og bústað stundaði hann tréútskurð og eftir hann liggur mikið af fallegum munum sem minna okkur á hæfileika hans um ókomna tíð. Börnin löðuðust að honum, þar sem hann gaf sér tíma með þeim að spjalla. Gefa góð ráð og hvetja þau áfram. Áfallið var mikið þegar við fjölskyldan vorum stödd í Liverpool í skemmtiferð í nóvember og fengum fréttirnar frá Viðari mági um niðurstöður skoðunar á Óla og að hann væri með ólæknandi mein. Ákváðum við að láta ferðina klárast áður en við tilkynntum börnunum en sárt var að fá þessar fréttir og geta ekki tekið utan um hann og stutt á þeirri stundu. Við tók erfiður tími þegar kapp var lagt á að láta honum líða sem best. Erfitt var að horfa á upp á þennan sterka mann að hraka svona hratt. Hann fullur af lífsvilja og fannst hann eiga margt ógert. En hann hefur nú verið kallaður til annarra starfa á öðrum stað þar sem taka á móti honum ástvinir góðir og þar verða áreiðanlega miklir fagnaðarfundir. Óla verður sárt saknað og er missir okkar mikill og missirinn hvað mestur hjá elsku Gullu, þar sem Óli og Gulla hafa alltaf verið eitt. Einstaklega samheldin hjón sem stóðu saman og tóku á móti öllu því sem lífið færði þeim í fang af miklu æðruleysi bæði í sorg og gleði. Elsku Gulla, þú ert okkur svo dýrmæt og það verður hlúð að þér sem aldrei fyrr. Minningin um Óla lifir. Takk fyrir allt.

Þinn tengdasonur,

Kjartan Ingvarsson.

Elsku afi, ég sit hér í stofunni minni að horfa á fallegu ugluna sem þú skarst út fyrir mig og hugsa hlýlega til þín. Ég er svo heppin að eiga þennan fallega grip og fleiri meistaraverk eftir þig því þau munu ávallt standa í minningu um þig.

Þegar ég rifja upp allar mínar yndislegu minningar af þér koma fyrst upp í huga minn þær skemmtilegu stundir sem við áttum saman þegar ég var í pössun hjá þér og ömmu. Það var svo gaman að fara með ykkur upp í sumarbústað enda áttum við margar dýrmætar stundir þar. Ég gleymi því ekki hversu sorgmædd ég varð þegar lítill sætur fugl flaug óvart á hreina gluggann ykkar í bústaðnum en þú hjálpaðir mér að jarðsetja hann sem mér finnst svo fallegt af þér þegar ég hugsa til baka. Frá því ég man eftir mér hefur þú alltaf verið með græna fingur en það er mér mjög minnisstætt hversu fallegur garðurinn var uppi í sumarbústað. Þú varst alltaf að dekstra við hann og oft fékk ég að hjálpa þér. Mér fannst skemmtilegt að fá að hjálpa þér við garðverkin en rúsínan í pylsuendanum var að fá far í hjólbörunum hjá þér eftir að við höfðum tæmt úr þeim.

Þú varst dásemdarmaður, elsku afi minn, svo góðhjartaður, jákvæður og það skein af þér lífsgleðin. Þú varst besti afi sem hægt er að hugsa sér og einnig besti langafi fyrir hann Viðar Örn. Honum fannst alltaf svo gaman að sýna þér dót og þú varst alltaf til í að leika við hann, sem lýsir þér svo vel.

Nú ertu búinn að kveðja okkur á jörðinni, elsku afi minn, en ég trúi því að ég eigi eftir að hitta þig aftur. Ég sé þig fyrir mér í sumarlandinu liggjandi á hnjánum að setja niður blóm í fallegasta garði sem hægt er að hugsa sér, sólin skín á þig og þú ert umkringdur litríkum gróðri.

Ég er svo þakklát fyrir þig, elsku afi minn, og ég kveð þig með miklum söknuði.

Ég elska þig.

Þín,

Aníta.

Óli í Hlíð eins og ég kallaði hann alltaf, náfrændi minn og vinur, er allur eftir baráttu við krabbamein. Á kveðjustund vil ég minnast hans og rifja upp minningar frá liðnum áratugum.

Við Ólafur Þorgils vorum nafnar og systrasynir frá Þórshamri í Sandgerði, nánir svo lengi sem ég man. Óli var í útliti í Þórshamarsættina, hár maður og hraustur eins og móðurafi okkar, Þorgils Árnason (1878-1927), sjómaður á Þórshamri. Óli var ávarpsgóður og bóngóður og vildi alltaf leggja góðum málum lið. Hann var lengi í safnaðarnefnd Njarðvíkursóknar.

Foreldrar Óla bjuggu í Sandgerði, Tjarnargötu 12, í húsi sem nefnist Hlíð, en frá 1959 var heimili þeirra á Austurgötu 3. Ég man vel að fjölskylda mín gisti oft í Hlíð. Óli og Jonni (1940-2011), bróðir hans, voru þá eins og eldri bræður mínir. Oddný (1940-1997), systir mín, minntist oft á það að bestu leikfélagar hennar í Sandgerði voru Óli, Jonni og Gísli Sveinsson (1943-1970) frá Sellandi. Ekki má gleyma að nefna Guðrúnu (1934-2004), sem var elst, og við Oddný þekktum vel.

Í marga mánuði frá 1955 til 1956 þurfti ég vegna veikinda að vera inni. Óli og Jonni kunnu ráð til þess að gera dagana skemmtilega. Þeir færðu mér Walt Disney-blöð að skoða frá herstöðinni á Miðnesheiði um þá félaga Donald Duck, Mickey Mouse, Pluto og Uncle $crooge. Þetta fannst mér miklu betra en einhverjar litabækur!

Rétt er að nefna að vorið 1960 fékk ég að vera eina viku á Austurgötu 3 og gisti auðvitað í herbergi Óla, sem var í burtu vegna vinnu.

Áður en Óli fór að læra til húsamálara man ég eftir honum eina vertíð í aðgerðinni á Strandgötu 8 hjá Guðmundi Jónssyni útgerðarmanni frá Rafnkelsstöðum í Garði. Þar voru duglegir menn, sem unnu langan vinnudag við að hausa og fletja þorskinn áður en hann var saltaður.

Ekki var heldur ónýtt að eiga þá bræður að þegar við hjónin byggðu raðhúsið okkar. Óli útvegaði málningu á góðum kjörum og Jonni málaði allt húsið að innan.

Sumarið 2007 fórum við Óli og nokkur frændsystkinin í tvígang í göngu eftir gömlum þjóðleiðum yfir Miðnesheiði. Fyrri gangan var frá Keflavík til Sandgerðis en sú seinni frá Keflavík að Melabergi á Miðnesi. Við gerðum þetta í minningu ömmu okkar, Unnar Sigurðardóttur (1886-1965), sem fædd var og uppalin á Melabergi. Hún sagði okkur oft frá því hve auðvelt var að villast í þokunni á Miðnesheiði. Í sömu gönguferð fórum við að Hamrakoti, hjáleigu frá Fuglavík á Miðnesi. Grjótgarðar eru kringum tún og kálgarð í Hamrakoti, sem Þorgils Árnason hlóð um 1910 og heita Gilsagarðar. Örnefnið er skráð hjá Árnastofnun.

Vorið 2018 skruppum við hjónin til Tenerife og vorum svo heppin að Óli og Guðlaug, kona hans, voru í sömu ferð. Gott var að hitta þau oft þessa sólardaga.

Þegar Óli hætti að vinna fór hann að skera út í tré og hafði gaman af. Fyrir nokkrum árum gaf hann mér mynd af nýja Þórshamri, sem var byggður sumarið 1929.

Ég kveð Óla frænda minn með þakklæti, um leið og ég og fjölskylda mín sendum innilegar samúðarkveðjur til Guðlaugar og fjölskyldu. Guð blessi minningu Óla í Hlíð.

Þorgils Jónasson.