Það gustar um íbúana á litlu eldfjallaeyjunni í Norður-Atlantshafi. Það er skrýtið að búa í landi þar sem allt getur gerst og enginn veit hvað gerist næst. Slíkt ástand er mjög slæmt fyrir allt samfélagið en bitnar mest á Grindvíkingum

Það gustar um íbúana á litlu eldfjallaeyjunni í Norður-Atlantshafi. Það er skrýtið að búa í landi þar sem allt getur gerst og enginn veit hvað gerist næst. Slíkt ástand er mjög slæmt fyrir allt samfélagið en bitnar mest á Grindvíkingum. Þótt fólk finni til með fólkinu í Grindavík þá eru líklega fáir sem geta sett sig í þeirra spor.

Þetta er kannski ekki ósvipað og með mæður fólks sem glímir við fíknisjúkdóma. Það geta líklega fáir skilið hvernig þær og aðrir aðstandendur hafa það. Eva Dögg Sigurgeirsdóttir viðskipta- og markaðsfræðingur prýðir forsíðu þessa blaðs. Eva Dögg hefur verið áberandi í fjölmiðlum lengi en oftast í tengslum við tísku eða markaðsmál. Fyrir utan þegar hún lék í Stellu í Orlofi þegar hún var unglingur.

Hér í blaðinu er hún á öðrum og alvarlegri nótum. Hún segir frá því hvernig er að vera móðir ungs manns með fíknisjúkdóm og hvað hafi hjálpað henni að halda áfram með lífið. Eva Dögg er skýrt dæmi um að það er hægt að stríða við erfiðleika en hafa gaman af lífinu á sama tíma. Flestir tengja líklega við það að lífið sé ekki bara eitthvert eitt atriði með kóralbleiku litaþema. Það er marglaga, gróft, hart og brennandi heitt eins og nýrunnið hraun. Á sama tíma getur það svo verið hryllilega fyndið, fullt af gleði, óvæntum ævintýrum og fimleika.

Er hægt að sameina alla þessa ólíku þætti án þess að allt fari í vitleysu?

Ég veit það ekki enda ekki geðhjúkrunarfræðingur eða handleiðari. Líklega stýrist það af mörgum samverkandi þáttum í DNA-i fólks, uppeldi, upplifunum og hugsanlega smáslettu af viljastyrk.

Svo snýst lífið líka oft um að stilla væntingum í hóf. Búast ekki við því að Elvis Presley sæki okkur í loftbelg og bjóði okkur í heimsreisu í næsta sumarfríi. Þegar við búumst ekki við manni á loftbelg þá verðum við ógurlega glöð ef það er sól þegar við keyrum í Borgarnes og getum drukkið kaffið utandyra.

Svo þarf fólk að horfast í augu við eigin ófullkomleika og gangast við honum. Vinkona mín sagði eitt sinn við mig að lífið gæti verið svo flókið. Hún upplifði mikla togsteitu í eigin lífi því á annarri öxlinni væri þekkur aðili sem hvetti hana til góðra verka eins og að fara snemma að sofa, setja tappann í flöskuna, mæta í leikfimi og nota alltaf inniröddina. Á hinni öxlinni kallar þessi óþekki sem togar hana ítrekað inn í svallheima þar sem rokk og ról er í hávegum haft.

„Það væri svo frábært ef þessir tveir aðilar gætu mæst á miðri leið. Þá væri lífið svo miklu einfaldara,“ sagði hún og andvarpaði.

Ég benti henni á að það væri bara ein týpa sem gæti sameinað þetta tvennt, hina þekku og hina óþekku. Þessi týpa kallaðist meðaljón og hún myndi eflaust ekki nenna að draga andann nema til hádegis ef hún væri þessi meðaljón sem fólk nefndi stundum á nafn. Hún myndi geispa golunni.

Ef samfélög heimsins innihéldu bara meðaljóna þá myndi líklega fátt gerast og þróun yrði hæg. Það er þetta ófullkomna fólk sem heldur hjólum atvinnulífsins gangandi, fær trylltar hugmyndir og framkvæmir áður en það hugsar. Við þurfum að gefa ófullkomleikanum meira pláss. Umfaðma hann og þakka fyrir hann því annars væri svo óskaplega leiðinlegt hjá fólki. Nóg er það nú samt.