Herborg Halldóra Halldórsdóttir fæddist í Reykjavík 10. september 1933. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Grund 28. janúar 2024.

Foreldrar hennar voru Halldóra Sigfúsdóttir, f. 1909, Borgarfirði eystra, d. 2002, athafnakona, og Halldór Stefánsson, f. 1877 á Desjarmýri, Borgarfirði eystra, d. 1971, bóndi, alþingismaður og forstjóri.

Bróðir Herborgar var Ragnar S. Halldórsson, f. 1929, kvæntur Margréti K. Sigurðardóttur. Hálfsystkini Herborgar sem Halldór átti með fyrri konu sinni Björgu Halldórsdóttur, öll látin, voru Ragnhildur Björg, f. 1902, Arnbjörg, f. 1903, Stefán, f. 1905, Halldór, f. 1907, og Pétur Stefán, f. 1911. Eiginmaður Herborgar var Hreggviður Þorgeirsson, tæknifræðingur og forstjóri, f. 1935, d. 2023.

Hreggviður og Herborg eignuðust þrjú börn, sem eru: 1. Halldóra, f. 1959, framkvæmdastjóri. Eiginmaður Árni Geirsson verkfræðingur, f. 1960. Börn a. Herborg Árnadóttir, f. 1988, gift Einari Axel Helgasyni, eiga þau Árna Friðþjóf og Heiðu Halldóru og fyrir átti Einar Ástrós Evu, móðir Erla Rut Káradóttir, b. Hlynur Árnason, f. 1990, unnusta Stephanie Allyson Zakas. 2. Þráinn Valur, f. 1962, verkfræðingur og viðskiptafræðingur. Eiginkona Hugrún Gunnarsdóttir líffræðingur, f. 1962. Synir a. Guðbjartur, f. 1993, unnusta Erna Katrín Gunnarsdóttir og eiga þau tvíburana Írenu Björt og Ísak Erni, b. Hrafnkell, f. 1997, kvæntur Agnesi Davíðsdóttur, c. Kári, f. 1999, unnusta Kolbrún Kara Þorsteinsdóttir. 3. Snorri, f. 1964, verkfræðingur. Eiginkona Olga Björk Guðmundsdóttir hjúkrunarfræðingur, f. 1963. Dætur a. Heiðdís, f. 1987, gift Stefáni Karli Snorrasyni og eiga þau Emilíu Dís og Jökul Snorra, b. Harpa, f. 1994 í sambúð með Skarphéðni Snorrasyni.

Herborg fæddist á Ljósvallagötu en ólst upp að Hömrum í Kringlumýri og gekk í Laugarnesskóla. Síðan lá leiðin á Flókagötu og í 1. bekk Menntaskólans í Reykjavík, þaðan sem hún lauk stúdentsprófi, 1953. Að námi loknu starfaði hún hjá Skrifstofu ríkisspítalanna fram til 1963. Árið 1975 stofnuðu þau hjónin heildverslun með rafiðnaðarefni, ÍSKRAFT, þar sem Herborg starfaði sem fjármálastjóri allt til ársins 1999 þegar fyrirtækið var selt Húsasmiðjunni. Á námsárunum starfaði Herborg við skógrækt á Hallormsstað og hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur og urðu landgræðsla, skógrækt og hvers konar ræktun henni einkar hugleikin. Þau hjónin lögðu víða gjörva hönd á plóg í þeim efnum, bæði á eigin vegum og með skógræktarfélögum. Eftir sölu ÍSKRAFT keyptu þau jörðina Klett í Reykhólahreppi, þar sem stórfjölskyldan sameinaðist við leik og störf.

Herborg var einkar fjölhæf og hugðarefnin fjölmörg, s.s. söngur, ljóðalestur, Íslendingasögurnar, grúsk um íslenska menningu, matargerð, hannyrðir, spilamennska og krossgátur, útivist í íslenskri náttúru, skíðaiðkun og ferðalög jafnt innanlands og utan.

Útför Herborgar fer fram frá Garðakirkju í dag, 9. febrúar 2024, klukkan 15.

Á meðan ég sat hjá mömmu á dánarbeðinum og núna þegar hún hefur kvatt leitar hugurinn aftur til þeirra sex áratuga sem við áttum saman. Minningarnar eru margar og nánast allar góðar því að mamma var þeirrar gerðar að vilja allt fyrir alla gera, þar með talið mig. Og mig vildi hún heldur alls ekki skilja við ósáttan. Hún hafði sitt lag á því. Alveg sama þó að ég væri ekki sammála og hún hefði haft sitt fram sá hún til þess þegar hún kvaddi að ég væri búinn að fyrirgefa einstrengingsháttinn. Annað var ekki hægt. Studdur af myndum frá æviskeiði hennar sem runnu í rólegum takti yfir rafrænan myndaramma reikaði hugurinn til baka og minningarnar hrúguðust upp. Gleðiefni á erfiðri stund.

Minningar um ferðalög með fjölskyldunni um byggðir og óbyggðir á tímum þegar fæstir samlandar stunduðu slíkt. Alltaf var kortataskan með, staðháttalýsingar og ekki síst söngvabækurnar til að létta okkur lundina og til að syngja með mömmu. „Malakoff“ – hver man ekki eftir Þórði gamla?

Minningar um garðrækt, grænmetisrækt og skógrækt. Öll fjölskyldan í kartöflugarðinum að puða undir öruggri stjórn mömmu. Kröfurnar voru ekki litlar. Það var sóttur sandur niður í fjöru til að bæta jarðveginn fyrir „rauðar íslenskar“. Þær vildu jú sendinn jarðveg.

Minningar um bíla og akstur. Fyrsti bíll fjölskyldunnar rauð Bjalla sem rétt náði heim með brotna fjöður í lok fyrsta ferðalagsins sem ég man eftir. Ég ætlaði aldrei aftur í ferðalag fyrr en það væri búið að laga alla vegi á landinu. Umræðan við kvöldverðarborðið um Fiestuna sem titraði í stýri. Það var ekki vandamál fyrir mömmu – titringurinn hvarf „fyrir ofan 90“.

Minningar um matargerð, reglusemi máltíða og fjölbreyttan mat. Engri máltíð sleppt og allt eldað „from scratch“. Ég tók þessi viðmið með mér úr móðurhúsum og reyndi lengi að viðhalda regluseminni. Það er hægara sagt en gert en var örugglega góður grunnur út í lífið.

Minningar um umhyggjusemi fyrir öllum sem stóðu henni nær, bæði gömlum og ungum. Aðstoðaði mömmu sína og tengdamömmu þegar halla tók undan fæti hjá þeim – samhliða fullri vinnu við rekstur fyrirtækis hennar og pabba auk rekstrar á eigin heimili. Keypti tjaldvagn til að lána okkur Hugrúnu þegar hún gat ekki hugsað sér að láta sex mánaða sonarsoninn sofa á þunnum tjaldbotni úti í náttúrunni.

Minningar um virðinguna við móðurmálið og áhugann á að kenna okkur börnunum réttritun. Ekki rithátt Nóbelsskáldsins, mamma bar ekki nema hæfilega virðingu fyrir honum þó að henni hefði verið boðið á Nóbelsverðlaunahátíðina í Stokkhólmi 1955 og tekið þar snúning með verðlaunahafanum á dansgólfinu. Nei, það var bara til einn réttur ritháttur og leiðréttingarnar á ritgerðunum sem hún fór yfir gátu orðið til þess að ég þekkti þær varla sem mínar eigin. Þennan sið hef ég reynt að forðast. Maður verður jú líka að læra og draga eigin ályktanir.

Ég gæti haldið endalaust áfram en verð víst að setja hérna punkt aftan við þennan virðingarvott við mömmu, rétt eins og mamma setti punkt aftan við sitt langa og góða líf núna í lok janúar.

Þráinn Valur Hreggviðsson.

Hún elsku besta einstaka mamma mín hefur kvatt. Mamma yrkti jarðveginn – Vissi að hann er grunnur alls lífs. „Gróðursettu litla björk, hún vex meðan þú sefur …“ voru hennar einkunnarorð. Ást hennar, umhyggja og óeigingirni áttu sér engin takmörk. Mamma var okkar klettur.

Mamma tók að sér að fóstra örfoka land víða. Einna best undi hún sér þar sem hún skreið á hnjánum og hlúði að gróðri og fylgdist svo með framförum hvers blóms, hvers sprota, hvers trés – alveg eins og hjá fjölskyldunni allri þar sem hún studdi og hlúði að eins og best hún gat fram á síðasta dag. Ekkert var henni dýrmætara en fjölskyldan og samverustundir með henni, sem eftir sitja í minningunni.

Pabbi tók þátt í landgræðslunni með mömmu og nú með hlýnandi loftslagi eru trén þeirra í skógræktarreitunum orðin stærri en nokkurn grunaði að gætu orðið. Þannig hafa þau lagt sitt af mörkum við að grænka landið, hlífa og byggja upp jarðveg og gróðurþekju. Þessi svæði eru orðin bústaður lífvera, sveppa, smáfuglanna og sum skýla okkur höfuðborgarbúum í göngu á útivistarstígum höfuðborgarsvæðisins. Það er ótrúlegt að sjá þá miklu breytingu sem orðið hefur á landinu þar sem þau mamma og pabbi hafa komið að. Þar skiluðu þau svo sannarlega góðu dagsverki.

Mamma var mikill grúskari og fræðimaður og var góður penni. Leyndi þar á sér, en það eru ófáar hugleiðingar og oft á tíðum ljóðrænar kveðjur sem hún skilur eftir – okkur öllum sem þær fengu til styrktar og eflingar. Ég hef á stundum velt því fyrir mér hvert nám hennar mömmu og viðfangsefni hefðu orðið ef hún hefði fæðst kynslóð síðar og fengið að njóta sinna hæfileika til hlítar. Hún mamma tók þó þátt í að ryðja braut kvenna til mennta með stuðningi sínum við okkur þær yngri og það ber að þakka.

Mamma kenndi okkur líka að lesa í landið og virða líf og menningu þess. Áhugi mömmu á landinu, sögunni, gróðri, jarðfræði og landslagi var ómældur. Þau voru ófá ferðalögin sem farin voru um fjöll og firnindi, í göngu og fyrst í gömlum Land Rover-jeppum, til að kynna okkur undur landsins. Áhugi mömmu var smitandi og hefur svo sannarlega markað líf okkar allra. Fyrir það er ég henni ævarandi þakklát og hef áttað mig á því betur og betur eftir því sem árin færast yfir hvað það er dýrmætt veganesti að þekkja rætur sínar og hlúa að jarðveginum.

Nú þegar mamma hefur kvatt þá situr eftir ómæld ást, ljúfar minningar og þakklæti fyrir að eiga hana mömmu að sem lífsförunaut. Það voru svo sannarlega og eru forréttindi fyrir mig og fjölskylduna mína alla, sem við þökkum af heilum huga.

Halldóra Hreggviðsdóttir.

Með fátæklegum orðum langar mig að kveðja yndislega tengdamóður mína. Mér er efst í huga þakklæti fyrir að hafa fengið að vera samferða henni gegnum lífið og fyrir allar okkar ánægjulegu samverustundir. Hebba var alveg einstök. Hún var góðum gáfum gædd, ósérhlífin og atorkusöm og hafði til að bera mikinn viljastyrk. Ég held að henni hafi nánast aldrei fallið verk úr hendi enda voru afköstin eftir því. Þrátt fyrir það var allt gert af mikilli vandvirkni og útsjónarsemi, hvort sem það snerti heimilið, fyrirtækið, skógræktina eða börnin og ömmubörnin. En Hebba átti umfram allt hlýtt hjarta og sýndi okkur samferðamönnunum ríkan kærleik og greiðvikni í alla staði. Gjafmildi hennar og örlæti var með eindæmum. Hún hugsaði fyrst og fremst um að gera öðrum gott.

Þegar við Þráinn Valur fórum að rugla saman reytum tók Hebba mér opnum örmum. Mér eru efst í minni hlý faðmlög hennar, glaðlyndi og vinsemd í minn garð allt frá fyrstu tíð. Gaman var að heyra hana fara með vísur og kvæði sem hún kunni svo ótal mörg og dýrmæt eru öll afmæliskortin sem höfðu ávallt að geyma hlý og falleg orð til afkomendanna. Þegar barnabörnin komu hvert af öðru stóð Hrísholtið þeim alltaf opið og það var gott að gista hjá ömmu og afa. Allt var gert til þess að barnabörnunum liði sem best. Meira að segja þegar miðjubarnið okkar sex mánaða var á leið í sína fyrstu útilegu með foreldrunum var keyptur tjaldvagn til þess að blessað barnið þyrfti ekki að liggja á kaldri jörðinni. Tjaldvagninn nýttist svo vel við skógræktina á Sandlæk þar sem þau Hreggviður breyttu gróðurvana mel í skógarparadís. Áfram var síðan haldið með skógræktina bæði í Smalaholtinu og síðar á Kletti. Ég hef hvorki fyrr né síðar orðið vitni að annarri eins natni og umhyggju fyrir hverri einustu trjáplöntu sem gróðursett var. Hún dró heldur hvergi af sér við að reyta frá illgresið. Ég held að Hebbu hafi fundist þessi verkefni hvað skemmtilegust og hún naut sín hvergi betur en úti í móa við að hlúa að nýju lífi og sjá það vaxa og dafna. Það átti ekki síður við um okkur samferðafólkið sem hún ræktaði vel og hlúði að.

Nú er komið að kveðjustund. Það eru svo ótal margar góðar minningar um þig sem lifa munu áfram. Þökk fyrir allt og hvíl i friði, elsku Hebba.

Hugrún.

Elsku amma Hebba var sannkallað skólabókardæmi um hina fullkomnu ömmu. Að öðrum ömmum ólöstuðum erum við sannfærðir um að hún hafi verið ein sú allra besta. Amma og afi bjuggu lengi vel í Hrísholti 5 í Garðabæ. Hrísholtinu tengjast óteljandi minningar og þangað var alltaf gott að koma.

Amma var rosalega minnug. Hún mundi tölur, símanúmer og afmælisdaga, gat þulið upp ljóð, texta og sögur eins og nokkurs konar „rain man“. Hún var með alla afmælisdaga á hreinu og engin afmæli voru fullkomin án ömmu og afa. Ein sagan sem hún rifjaði oft upp var þegar Hrafnkell fæddist. Guðbjartur beið spenntur heima hjá ömmu og afa eftir fréttum af fæðingardeildinni og þegar amma kom svo með fréttirnar hváði hann „ohh, var það strákur“.

Amma og afi áttu og ráku rafvöruverslunina Ískraft til margra ára en seldu hana að lokum til Húsasmiðjunnar. Eftir það hættu þau að vinna en við tók önnur vinna, að passa barnabörnin. Við bræðurnir gistum oft hjá ömmu og afa og þurfti sko ekki að draga okkur þangað. Amma átt lengsta Brio-lestarkerfi í Evrópu, allar Tinna-bækurnar sem við lásum spjaldanna á milli, fullt af skemmtilegum spólum og ekki skemmdi fyrir að fá bláber með rjóma og hrásykri eða daim-ís úr bláu frystikistunni.

Amma var húsmóðir par exellans og gerði besta spaghetti bolognese sögunnar. Það var ekki hefðbundið bolognese enda setti hún ýmis hráefni út í eins og kartöflur sem Ítalir myndu eflaust ekki kvitta undir en eftir á að hyggja var það líklega gert fyrir hann afa sem gaf ekki mikið fyrir þessa hveitiorma og vildi heldur kartöflur og alvöru íslenskan mat á sinn disk. Amma bakaði oft brauð, oftast sama brauðið sem fékk nafnbótina „Ömmubrauð“ og myndi sóma sér vel í bakaríum landsins við hliðina á normalbrauði og Bláfjallabrauði. Fjölskyldan hittist oft heima hjá ömmu og afa í alls konar veislum. Afi var af gamla skólanum og var því sjaldan fyrir framan eldavélina en amma var þar allt í öllu og hringsnerist um eldhúsið og borðstofuna svo nánast þurfti að óla hana við stólinn svo hún gæti slakað á og borðað meðan maturinn var heitur.

Amma átti ýmis áhugmál. Hún elskaði söng en eftir að hafa glímt við erfið veikindi gat hún ekki almennilega sungið svo við sungum oft fyrir hana þegar við hittumst og hún var alltaf með textann á tandurhreinu. Hún brann fyrir skógrækt en hún og afi fóru hamförum í gróðursetningum austur í Holti, í skógræktinni í bænum og í sveitinni þeirra Kletti í Geiradal. Það eru ekki margir á landinu sem hafa gróðursett eins mikið og þau hjónin. Þau voru líka mjög dugleg að ferðast til útlanda svo þau voru greinilega langt á undan sinni samtíð með að kolefnisjafna flugin. Í sveitinni leið henni samt best, í ró og næði í heitapottinum eða úti í beði með vindinn í hárið, kvakið í fuglunum í eyrunum og óborganlegt útsýnið yfir Breiðafjörðinn.

Takk fyrir allar góðu stundirnar, elsku amma. Það er þyngra en tárum taki að horfast í augu við framtíðina án þín og afa. Þú skilur eftir þig helling af yndislegum minningum og minningin um einstaka ömmu mun lifa um ókomna tíð.

Guðbjartur, Hrafnkell og Kári Þráinssynir.

Nú er amma mín og nafna búin að kveðja þessa tilveru.

Þegar ég var lítil og sat með ömmu, eins og svo oft einhvers staðar úti í móa, hvíslaði hún að mér: „Hlustaðu, lóan segir Her-borg Her-borg.“ Hún sagði örugglega það sama um nöfn hinna barnabarnanna en fyrir mér var þetta magnað. Hún var víst ekkert sérlega hrifin af Herborgarnafninu, enda alltaf kölluð Hebba, en ég hef alltaf verið stolt af því að hafa fengið að vera nafna hennar.

Hebba amma kenndi mér svo margt. Ekki bara um landið, náttúruna, gróðurinn og að hlusta á mófuglana. Hún kunni að því er virtist allar vísurnar og ljóðin, öll spilin og allar matarhefðirnar sem skiptu máli og þetta gaf hún mér í arf þó að ég muni hluti ekki eins vel og amma gerði. En það var fyrst og fremst hlýjan, gjafmildin og að hlúa að fólkinu í kringum sig sem var aðalsmerki ömmu minnar. Ég er svo þakklát fyrir Hebbu ömmu og allt það sem hún gaf mér, tímann sem ég fékk með henni og minningarnar, sem eru hluti af mér.

Herborg Árnadóttir.