Kristján Jónsson
kris@mbl.is
Útihreyfingin hefur fengið leyfi til að standa fyrir utanvegahlaupi í Kerlingarfjöllum í sumar í samstarfi við Highland Base-hótelið.
„Viðburðinn ætlum við að kalla Kerlingarfjöll últra og er glænýtt utanvegahlaup. Flestir eru væntanlega sammála um að Kerlingarfjöll séu einstök náttúruperla á miðju hálendi Íslands. Svæðið er stórkostlega fallegt og við viljum hjálpa fólki að komast í návígi við þennan tilkomumikla fjallgarð,“ segir Helga María Heiðarsdóttir framkvæmdastjóri Útihreyfingar og gæti hlaupið orðið árlegur viðburður ef áhugi verður fyrir hendi.
„Í hlaupinu er hlaupið fram hjá gljúfrum, jöklum, rjúkandi hverum, öllum tindum Kerlingarfjalla og í últrahlaupinu er hlaupið fram hjá Kerlingunni sjálfri. Hægt er að finna leið við allra hæfi en boðið verður upp á þrjá valmöguleika,“ segir Helga María en vegalendirnar eru 11, 22 og 65 kílómetrar.
Í öllum tilfellum er farið af stað og komið í mark hjá hótelinu.
Árið 2020 urðu Kerlingarfjöll friðlýst svæði og því er ekki sjálfgefið að skipuleggja þar viðburði sem þennan.
Friðlýst svæði
„Við þurftum auðvitað að sækja um leyfi hjá Umhverfisstofnun og fengum það. Þessu fylgja ýmis skilyrði. Að hlaupið sé eingöngu á merktum slóðum og í lengstu vegalengdinni er hámarksfjöldi keppenda. Við munum merkja leiðina mjög vel til að koma í veg fyrir að fólk fari út fyrir merkta stíga. Auk þess fylgir svona viðburðum að vera með starfsfólk, björgunarsveitir og fleira.“
Mikill fjöldi Íslendinga leggur stund á hlaup sér til heilsubótar. Fyrir utan þá sem hlaupa á braut í frjálsum íþróttum eru götuhlaupin fjölmenn. Utanvegahlaupin njóta einnig vinsælda að sögn Helgu.
„Á síðustu tíu árum eða svo hefur þátttaka í utanvegahlaupum aukist mikið en einnig virðast spretta upp nýir viðburðir svo gott sem árlega. Mikið hefur því bæst við keppnishlaupaflóruna á Íslandi á undanförnum árum og hægt er að taka þátt í últrahlaupum í flestum landshornum og núna í miðju landsins einnig. Þetta sýnir áhugann á utanvegahlaupum og margir stunda hlaup allt árið.“