Guðrún Laufey Magnúsdóttir fæddist 19. júní 1945 að Lýtingsstöðum í Holtum, Rangárvallasýslu. Hún lést á dvalarheimilinu Grund, Reykjavík, 13. janúar 2024.

Foreldrar hennar voru Magnús Ingberg Gíslason, f. 3. ágúst 1909, d. 12. júní 1972, og Katrín Sigríður Jónsdóttir, f. 17. október 1913, d. 16. ágúst 1998. Systkini Guðrúnar eru: Þóra Margrét, f. 1942, Jón Leifur, f. 1943, d. 2015, Gísli Þórður Geir, f. 1948, Árni Snævar, f. 1951, Daníel, f. 1953, Sigrún Jónína, f. 1955, og Bjarni Pétur, f. 1956.

Guðrún ólst upp á Lýtingsstöðum fram til 8 ára aldurs en þá fluttust foreldrar og systkini að Akbraut í Holtum. Þar tók Guðrún þátt í hefðbundnum sveitastörfum ásamt systkinum sínum. Guðrún fór í húsmæðraskólann á Laugarvatni og útskrifaðist þaðan 1965.

1968 fluttist Guðrún að Kaldárholti og giftu þau Gísli Helgason, f. 27. mars 1943, sig 25. desember 1973. Guðrún stundaði hefðbundin bústörf með Gísla. Hún var einnig í kvenfélaginu og söng í kirkjukór Hagakirkju. Hin síðari ár eignaðist Guðrún ferðafélaga og vin Sveinbirni Rúnari Helgasyni, f. 13 nóvember 1958, frá Ósabakka á Skeiðum. Á meðan Guðrún var við heilsu voru þau dugleg að fara í ferðalög með fellihýsið hans Sveinbjarnar. Sveinbjörn aðstoðaði hana við búskapinn þar til hún fór á Dvalarheimilið Grund í september 2021.

Guðrún átti dótturina Sigurleifu Kristínu Sigurþórsdóttur, f. 1966, af fyrra sambandi með Sigurþóri Sigurðssyni, f. 20. október 1944. Sigurleif á dæturnar Ísabellu Katarínu Márusdóttur, f. 1993, og Natalíu Bóel Márusdóttur, f. 2004, með Márusi Jóhannessyni, f. 4. júlí 1954.

Guðrún var gift Gísla Helgasyni, f. 1945, d. 2002. Dætur Guðrúnar og Gísla eru Helga Gísladóttir, f. 1970, sambýlismaður Helgu er Reynir Pálmason, f. 1975. Helga á Viktor Mána Ásmundsson, f. 1994, af fyrra sambandi og Díönu Ýr Reynisdóttur, f. 2000. Díana Ýr á dóttur, Marín Ýr Gray, f. 2022. Þorbjörg Gísladóttir, f. 1973, sonur hennar er Einar Gísli Þorbjargarson, f. 1996.

Útför Guðrúnar fer fram frá Hagakirkju í dag, 10. febrúar 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

Elsku mamma er búin að fá hvíldina. Það var erfitt að horfa upp á þessa sterku bóndakonu sem gekk í öll verk á bænum hverfa inn í heim alzheimers.

Nú ertu komin í sumarlandið þar sem ég veit að pabbi og Nóra hafa tekið vel á móti þér. Á þessum timamótum hugsar maður til baka og rifjar upp allar samverustundirnar. Krakkarnar elskuðu að fá að vera hjá ömmu í sveitinni að stússast og brasa með þér. Takk mamma fyrir allt, ég sé nú að ég líkist þér meira en ég hef viljð viðurkenna í gegnum árin. Held að það sé ekki leiðum að líkjast.

Margt þú hefur misjafnt reynt,

mörg þín dulið sárin.

Þú hefur alltaf getað greint,

gleði bak við tárin.

(J.Á.)

Helga og fjölskylda.

Fyrir ansi mörgum árum, sirka 64, brá ég mér á héraðsmót á Þjórsártúni, sem ég held að hafi verið haldið árlega. Við árbakkana við Þjórsá sá ég sæta sveitastelpu. Ég, Reykjavíkurtöffarinn, gaf mig á tal við hana.

Þar með hófust kynni sem stóðu í áratugi. Við eignuðumst dóttur árið 1966, sem var mikið gæfuspor. Við vissum alla tíð hvort af öðru og góð vinátta á milli okkar. Leiðir skildi þegar við fórum að ræða framtíðina. Hún vildi búa í sveit en Reykjavíkurtöffarinn í borginni. Á þeim tíma bjó hún á Akbraut í Holtum, þar sem hún ólst upp. Ég kom þangað nokkrum sinnum og ég man að ég var mjög hissa á því að það þurfti að fara nokkra leið til að ná í vatn – í brunn. Hún var ofboðslegur dugnaðarforkur og verður minnisstæð mörgum sem kynntust henni á lífsleiðinni.

Nú hefur Guðrún yfirgefið þessa jörð en verður þrátt fyrir það alltaf ljóslifandi í mínu minni, á meðan ég lifi.

Sigurþór
Sigurðsson.