Las Vegas Leikmenn voru mættir snemma til æfinga fyrir leikinn.
Las Vegas Leikmenn voru mættir snemma til æfinga fyrir leikinn. — Getty Images
Nokkrir veitingastaðir í Reykjavík fá að hafa opið lengur aðfaranótt mánudagsins vegna útsendingar frá úrslitaleik ameríska fótboltans, Super Bowl

Nokkrir veitingastaðir í Reykjavík fá að hafa opið lengur aðfaranótt mánudagsins vegna útsendingar frá úrslitaleik ameríska fótboltans, Super Bowl.

Staðirnir eru American Bar, Austurstræti 8-10, Keiluhöllin Egilshöll, Fossaleyni 1, Lebowski Bar, Laugavegi 20, og Just Wingin’ It, Snorrabraut 56.

Á fundi borgarráðs voru lögð fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 5. janúar 2024, vegna tímabundins áfengisveitingaleyfis til kl. 04:30 aðfaranótt 12. febrúar nk. fyrir veitingastaðina vegna beinnar sjónvarpsútsendingar á úrslitaleik Super Bowl 2024 í Bandaríkjunum, eins og það er orðað.

Óskað er eftir að borgarráð samþykki að veita jákvæða umsögn um tímabundið áfengisleyfi með vísan til 2. mgr. 17. gr. l. nr. 85/2007, til kl. 04:30 aðfaranótt mánudagsins 12. febrúar nk. Jákvæð umsögn borgarráðs er háð því að aðrar lögbundnar umsagnir séu einnig jákvæðar. Borgarráðs samþykkti að veita leyfin, eins og gert hefur verið nokkur undanfarin ár vegna þessa leiks.

Úrslitaleikurinn fer fram í Las Vegas í Nevada á sunnudaginn og hefst klukkan 18:30 að bandarískum tíma. Liðin sem mætast eru San Francisco 49ers og Kansas City Chiefs. Útsendingin frá Super Bowl er einn helsti sjónvarpsviðburðurinn sem fram fer á ári hverju. sisi@mbl.is