Síðar í mánuðinum hefur íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik leik í undankeppni EM 2025. Ísland byrjar á því að fá Ungverjaland í heimsókn í Laugardalshöllina fimmtudaginn 22. febrúar. Fyrir fram telst þessi viðureign sú mikilvægasta í B-riðlinum, þar sem Ítalía og Tyrkland eru einnig

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Síðar í mánuðinum hefur íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik leik í undankeppni EM 2025. Ísland byrjar á því að fá Ungverjaland í heimsókn í Laugardalshöllina fimmtudaginn 22. febrúar.

Fyrir fram telst þessi viðureign sú mikilvægasta í B-riðlinum, þar sem Ítalía og Tyrkland eru einnig. Þrjú efstu af liðunum fjórum fara nefnilega beint á EM, sem að þessu sinni fer fram á Kýpur, í Finnlandi, Póllandi og Lettlandi.

Ungverjaland er næst Íslandi á styrkleikalista FIBA og líta því bæði lið eflaust á tvær viðureignir þeirra sem besta möguleikann til þess að tryggja sér sæti á EM. Ísland freistar þess að komast á EM í þriðja sinn.

Ísland er í 48. sæti á listanum, Ungverjaland í 43. sæti, Tyrkland í 24. sæti og Ítalía í 13. sæti.

Hvað sem stöðu á heimslista líður er íslenska liðið afar spennandi og geysilega vel mannað.

Það sást glögglega þegar Ísland var einu skoti frá því að tryggja sér sæti á heimsmeistaramóti í fyrsta sinn í sögunni eftir magnaða framgöngu í langvinnri undankeppni HM 2023.

Þar á meðal vann íslenska liðið stórkostlegan heimasigur á Ítalíu þar sem Tryggvi Snær Hlinason setti met í fjölda framlagspunkta hjá evrópskum leikmanni í undankeppni HM með lygilegri frammistöðu.

Tryggvi Snær er einmitt í fantaformi með Bilbao í spænsku deildinni og Evrópubikar FIBA um þessar mundir.

Martin Hermannsson er þá kominn á gott ról með Alba Berlín eftir langvarandi meiðsli og verður spennandi að sjá hvort hann tekur þátt í landsliðsverkefninu að þessu sinni.