Umferð Garðar Jónsson frá Fjölprenti í gærdag við talnaskipti á skiltinu við Suðurlandsveg sem flestir kannast við.
Umferð Garðar Jónsson frá Fjölprenti í gærdag við talnaskipti á skiltinu við Suðurlandsveg sem flestir kannast við. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Karlmaður er látinn eftir umferðarslys á Reykjanesbraut nærri álverinu í Straumsvík undir kvöld þriðjudaginn 30. janúar síðastliðinn. Þar rákust saman fólksbifreið og vöruflutningabíll sem komu hvor úr sinni átt

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Karlmaður er látinn eftir umferðarslys á Reykjanesbraut nærri álverinu í Straumsvík undir kvöld þriðjudaginn 30. janúar síðastliðinn. Þar rákust saman fólksbifreið og vöruflutningabíll sem komu hvor úr sinni átt.

Sá sem lést var annar ökumannanna, Eiríkur Örn Jónsson, sem lætur eftir sig unnustu og fjögur börn. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsaka tildrög þessa slyss.

Sjö eru nú látnir eftir fimm umferðarslys frá janúarbyrjun. Til samanburðar má nefna að allt árið í fyrra létust átta manns í sjö slysum. Tölur um fjölda látinna í umferðinni á hverjum tíma eru birtar á slysaskiltinu við Suðurlandsveg í Svínahrauni. Þar hefur þetta táknræna og síbreytilega merki staðið í áraraðir og vekur jafnan eftirtekt.

Þegar banaslys verða er gangurinn sá að Samgöngustofa hefur samband við skiltagerðina Fjölprent í Reykjavík, en starfsmenn fyrirtækisins sjá um að setja inn nýjar tölur. Svona var þetta einmitt í gær. Þegar staðfest var að maðurinn sem lenti í slysinu á Reykjanesbraut væri látinn fór maður frá Fjölprenti á staðinn; skipti út spjaldi með tölunni 6 fyrir 7.

„Svona ferðir í Svínahraun eru sannarlega mjög óþægilegar eins og fréttir af slysum eru alltaf. Þá áminningu um dauðaslys í umferðinni sem skiltið er tel ég þó þarfa. Vonandi hvetur þetta fólk til varkárni og vekur til umhugsunar,“ sagði Garðar Jónsson hjá Fjölprenti þegar Morgunblaðið fylgdi honum á vettvang í gær.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson