— Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Hvað ætlar þú að bjóða fólki upp á á Valentínusardaginn? Ég er með örlitla þráhyggju fyrir því að leyfa fólki að heyra óskalögin sín. Ég syng mikið í brúðkaupum sérvalin lög sem ég syng jafnvel bara í þetta eina skipti og með þessum tónleikum er ég…

Hvað ætlar þú að bjóða fólki upp á á Valentínusardaginn?

Ég er með örlitla þráhyggju fyrir því að leyfa fólki að heyra óskalögin sín. Ég syng mikið í brúðkaupum sérvalin lög sem ég syng jafnvel bara í þetta eina skipti og með þessum tónleikum er ég að gefa öllum sem ég hef sungið fyrir tækifæri á að heyra lögin sín aftur. Ég verð með blað í anddyrinu þar sem fólk má skrifa niður þau lög sem það vill heyra. Minn helsti styrkleiki er að spila og syngja lög „spontant“ og mér finnst það líka svo skemmtilegt.

Eru tónleikarnir ekki fyrir fleiri en brúðhjón?

Jú, þeir eru auðvitað fyrir alla sem vilja koma og hlusta á hugljúfa tónlist og eiga notalega stund.

Hvaða lög vill fólk hlusta á?

Allt mögulegt. Þetta eru óteljandi lög sem ég hef lært fyrir fólk, bæði erlend og íslensk. Ég hef gaman af því að setja flókin rokklög í fallegan hugljúfan búning, því ef textinn er fallegur verður lagið fallegt í rólegri píanóútgáfu. Þá fyrst heyrir maður jafnvel textann.

Heldur þú sjálf upp á Valentínusardaginn?

Það er alveg nýtt fyrir mér en nú sá ég að hann bar upp á miðvikudag og ég var laus, þannig að mér fannst tilvalið að hvetja fólk til að gera sér glaðan dag og gera eitthvað með ástvinum sínum. Það er svo gaman að brjóta upp hversdagsleikann, og við þurfum sérstaklega á því að halda núna í skammdeginu.

Má fólk syngja með?

Nei, ekki núna. Þetta er eina skiptið á árinu þar sem ég held tónleika þar sem ég er með svona rólegt og rómantískt yfirbragð. Þetta er tækifæri fyrir þá sem vilja hlusta á lögin sín og njóta.

Áttu þér uppáhalds rómantískt lag?

Ég á mörg en ef ég á að velja eitt þá er það lagið Perfect með Ed Sheeran. Það er lagið okkar, mín og Sveinbjörns.

Á Valentínusardaginn 14. febrúar verður Guðrún Árný við píanóið, tekur spjallið og syngur fyrir gesti hugljúfar dægurlagaperlur í Bæjarbíói í Hafnarfirði. Tónleikarnir hefjast kl. 20. Miðar fást á tix.is.