Eftir árás Börn horfa út um glugga á skemmdu húsi eftir sprengjuárásir sem Ísraelsher gerði á borgina Rafah syðst á Gasasvæðinu í gær.
Eftir árás Börn horfa út um glugga á skemmdu húsi eftir sprengjuárásir sem Ísraelsher gerði á borgina Rafah syðst á Gasasvæðinu í gær. — AFP/Mahmud Hams
Ísraelsher gerði í gær loftárásir á borgina Rafah á Gasasvæðinu rétt við landamæri Egyptalands, en þangað hefur nærri helmingur íbúanna á svæðinu flúið undan átökunum sem geisað hafa í fjóra mánuði. Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels,…

Ísraelsher gerði í gær loftárásir á borgina Rafah á Gasasvæðinu rétt við landamæri Egyptalands, en þangað hefur nærri helmingur íbúanna á svæðinu flúið undan átökunum sem geisað hafa í fjóra mánuði.

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, segist hafa fyrirskipað her landsins að undirbúa aðgerðir í Rafah, einu stóru borginni á Gasasvæðinu sem landher Ísraels hefur ekki ráðist á. Sameinuðu þjóðirnar hafa varað við afleiðingum slíkra aðgerða og Bandaríkjastjórn segist ekki styðja umfangsmiklar aðgerðir Ísraelshers í Rafah nema vel verði gætt að því að óbreyttir borgarar verði ekki fyrir skaða. Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði í vikunni að viðbrögð Ísraels við hryðjuverkaárás Hamas-samtakanna á Ísrael 7. október sl. hefðu verið úr hófi. „Margt saklaust fólk sveltur og margt saklaust fólk lætur lífið og þessu verður að linna,“ sagði hann.

Anthony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem hefur rætt við ráðamenn í Ísrael og á Vesturbakkanum að undanförnu, hefur sagt að hann telji enn möguleika á að ná samkomulagi um vopnahlé og lausn gísla þótt Netanjahú hafi hafnað síðustu tillögum Hamas-samtakanna og sagt þær vera fáránlegar. Egyptar hafa boðið nýja lotu viðræðna með samningamönnum frá Hamas og Katar í þeirri von að hægt verði að lægja ófriðaröldurnar á Gasa. Palestínskur embættismaður á Gasa, sem hefur náin tengsl við herstjórn Hamas þar, segir að samningaviðræðurnar verði erfiðar en Hamas vilji ná samningum um vopnahlé.

Valdakerfi Hamas flækir mál

AFP fréttastofan segir að valdakerfið innan Hamas-samtakanna flæki friðarumleitanir á Gasasvæðinu. Ismail Haniyeh, sem stýrir stjórnmálaarmi Hamas, er í sjálfskipaðri útlegð í Doha í Katar og hefur tekið þátt í viðræðum við þarlend stjórnvöld og aðra sendimenn um möguleika á vopnahléi á Gasa. En Yahya Sinwar herstjóri Hamas fer huldu höfði á Gasa og hefur ekki tekið þátt í þessum viðræðum. Samningamenn verða að taka tillit til afstöðu þessara tveggja leiðtoga auk Ísraelsmanna. Heimildarmaður AFP, sem þekkir vel til samningaumleitananna sem stýrt hefur verið af Katar, Egyptalandi og Bandaríkjunum, segir að allar tillögur sem sendar séu til pólitískrar deildar Hamas þurfi einnig að bera undir herstjórnina á Gasa og síðan koll af kolli.

Eva Koulouriotis, óháður sérfræðingur í málefnum Mið-Austurlanda, segir að Sinwar hafi í raun sett Haniyeh til hliðar. Hann hafi smátt og smátt hert tökin á Hamas frá því honum var sleppt úr haldi í fangaskiptum Ísraelsmanna og Hamasliða árið 2011. Hún segir að Sinwar sé þeirrar bjargföstu trúar að pólitískur erindrekstur eigi að hafa það eina markmið að styðja hernaðaraðgerðir, en Sinwar sé nú undir þrýstingi frá pólitíska arminum að gefa eftir í kröfum sínum.