Viðtal
Ragnheiður Birgisdóttir
ragnheidurb@mbl.is
Ásta Jónína Arnardóttir varð á dögunum fyrsta konan til þess að hanna ljós fyrir sýningu á Stóra sviði Þjóðleikhússins. Hún leiddist óvænt út í heim ljósahönnunar, sem hefur hingað til verið nokkuð karllægur.
„Ég var alltaf að setja upp leikrit í bílskúrnum heima hjá mömmu og pabba. Það var hægt að kaupa miða við innganginn og svo var hlé og veitingasala. Svo var ég mikið að gera stuttmyndir í skólanum. En ég hugsaði aldrei að þetta væri eitthvað sem ég gæti farið að vinna við. Það var ekki mikið um að fólk í kringum mig væri í einhverju svona.“
Eftir menntaskóla, árið 2017, ákvað Ásta að sækja um í Kvikmyndaskólanum og sjá hvort sá bransi ætti við hana. „Þá var áherslan mín á klipp en ég fann strax að kvikmyndatakan hentaði mér betur. Ég var ár í skólanum og eftir það ár fékk ég fyrsta verkefnið mitt í leikhúsi, að hanna myndbönd fyrir sýningu í Þjóðleikhúsinu. Það var í rauninni þannig sem ég kom inn í leikhúsið. Haft var samband við skólann og þá var bent á mig. Ég þekkti engan í þessum geira, svo það var mjög gott að fara í Kvikmyndaskólann og prófa sig áfram, kynnast fólki og mynda tengslanet.“
Hann þurfti að taka áhættu
Ásta fékk í kjölfarið starf við að stýra tækni, ljósum og hljóði, á sýningum í Þjóðleikhúsinu. Í framhaldinu fékk hún fleiri verkefni við að hanna myndbönd fyrir sýningar, bæði í Þjóðleikhúsinu og utan þess. Hún vann sjálfstætt í nokkur ár við að gera slík myndbönd og við kvikmyndatöku fyrir stuttmyndir, tónlistarmyndbönd og auglýsingar.
Þegar hún byrjaði að gera myndbönd fyrir leikhúsið vann hún þó innan ljósadeildarinnar og það leiddi af sér misskilning. „Þá hélt fólk að ég væri að hanna lýsingu og var farið að fá mig í ljósaverkefni. Fyrsta sýningin sem ég gerði var sýning í Listaháskólanum. Þau héldu einmitt að ég væri að hanna lýsingu, sem ég var ekki byrjuð að gera á þeim tíma, en það var fínt að byrja þar.“
Ásta segist smám saman hafa lært á ljósin, en formlegt nám í ljósahönnun er ekki í boði hér á landi. „Ég var að hanna myndbönd í fjögur ár og sat þá við hliðina á ljósamanninum. Þetta tengist svo mikið að ég fór ómeðvitað að hafa sterkar skoðanir á ljósunum,“ segir hún. Myndböndin séu viss uppspretta ljóss, þannig að alltaf þurfi að samræma ljós og myndbönd og því vinni myndbandshönnuðurinn náið með ljósameistaranum. „Maður bara prófar sig áfram og spyr nóg þegar maður veit ekki eitthvað,“ segir hún.
Árið 2022 fékk Ásta svo ráðningu í ljósadeild Þjóðleikhússins. Hún vann með Þorleifi Erni Arnarsyni í Íslandsklukkunni, sem sett var á svið í Þjóðleikhúsinu á síðasta leikári. „Þá sá fólk að ég vissi eitthvað hvað ég var að gera og þá var farið að hafa samband með sýningarnar á þessu ári. Þorleifur vildi svo fá mig í Eddu, en ég hafði aldrei lýst á Stóra sviðinu og það átti upprunalega að fá einhvern annan í þetta. Svo að hann þurfti svolítið að berjast fyrir því. Þorleifur þurfti að sannfæra fólkið um að fá að hafa mig og var svolítið að taka áhættu, sem ég er mjög þakklát fyrir. Hann kom svo og sá Ást Fedru sem ég hannaði og var sáttur við ljósin þar. Hann var þess vegna rólegri að fara inn í þetta samstarf.“
Unnið út frá tilfinningu
Ásta segir að í þessu starfi séu miklar tarnir þar sem unnið er mikið. „En þegar maður hefur ástríðu fyrir þessu gefur maður allt í þetta. Þetta er alltaf bara viss tími og svo kemur frumsýning, þannig að maður þarf að klára það sem mann langar að gera. Svo ætti maður að ná að slaka aðeins á eftir frumsýninguna,“ segir hún.
Spurð hvernig ljósahönnuður vinnur segir Ásta: „Maður byrjar á því að kynna sér handritið og söguna og reyna að afla sér sem mestra upplýsinga. Finna eitthvað sem hægt er að byggja á og brjóta það svo niður. Í Eddu er ég til dæmis mikið að fylgja því í hvaða heimi við erum og hvernig hann lítur út fyrir mér. Ég er mikið að lýsa út frá því hvaða tilfinningar eiga að vera í hverri senu fyrir sig. Svo er misjafnt eftir sýningum hversu raunsætt eða abstrakt þetta á að vera, hvort verið er til dæmis að lýsa herbergi sem á að vera raunsætt eða hvort ljósin eiga að skapa myndina. Þetta er mikið bara tilfinning. Maður er oft búinn að sjá margt fyrir sér áður og getur verið búinn að teikna upp hverja senu fyrir sig en svo er það ekki fyrr en maður kemur á sviðið sem maður sér hvernig ljósin hitta á leikarana og leikmyndina,“ segir hún.
„Svo þarf auðvitað líka að ákveða hvernig er best að nota ljósin sem fyrir eru, hvort maður ætlar að nota mistur, reyk eða annað slíkt, stilla fókusinn á sviðið, setja ljós inn í leikmyndina og ákveða hvort maður vill bæta við auka ljósum einhvers staðar sérstaklega fyrir sýninguna.“
Aðspurð segir hún lýsinguna vera í nokkuð stóru hlutverki í Eddu. „Hún er það. Hún teiknar upp heimana, skapar stemningu og býr til skiptingar milli sena.“ Það hafi því að miklu leyti verið í höndum hennar að áhorfandinn upplifi að skipt sé milli atriða og farið sé á milli staða. „Þetta var svolítið mikið unnið út frá tilfinningu og einhverri dramatík,“ segir hún.
„Ég er heppin að vinna með frábærum ljósahönnuðum í leikhúsinu sem ég get lært af, leitað til og fengið ráð. Eitt besta ráðið sem ég hef fengið var frá Birni Bergsteini [Guðmundssyni] ljósameistara, sem hefur verið lærifaðir minn í Þjóðleikhúsinu, en það var að standa upp frá ljósaborðinu og labba hring í kringum leikhúsið þegar maður er fastur eða þarf innblástur. Ég hef mikið notað þetta ráð og leyst ýmis vandamál á þeirri göngu.“
Frumkvæði og fyrirmyndir
Ásta segist vona að konum fari að fjölga í faginu. Í því samhengi nefnir hún Juliette Louste, sem hún segir hafa verið ákveðna fyrirmynd. „Í fyrstu sýningunni sem ég hannaði lýsingu fyrir í atvinnuleikhúsi, Óbærilegur léttleiki knattspyrnunnar í Tjarnarbíói, vann ég með Juliette. Hún var fyrst kvenna til að fá tilnefningu til Grímunnar fyrir ljósahönnun í fyrra. Maður vonar kannski að eins og ég horfi á hana séu einhverjar sem sjái mig og það komi fleiri stelpur í þetta. Það er strax farið að gerast. Það hafa einhverjar haft samband við mig sem hafa áhuga á ljósum og það kom ein niður í leikhús og ég fór með hana um húsið, þá var ég að vinna að Eddu og sýndi henni frá því.“
Ásta segir miklu máli skipta að auka þátttöku kvenna í tæknistörfum tengdum leikhúsi og kvikmyndum. „Þegar ég var að byrja í kvikmyndabransanum voru svo fáar konur í kvikmyndatöku. En núna er til dæmis Magga Vala, sem var að skjóta Húsó, að gera ótrúlega flotta hluti og það er svo gaman að sjá konur verða meira áberandi í þessum brönsum. Að ég sé fyrsta konan til að lýsa á Stóra sviðinu er galið, en vonandi koma fleiri á eftir mér.”
Hún segir að oft þurfi ekki nema frumkvæði einstaklinga til að hlutirnir breytist. Hún nefnir dæmi af fyrirlestri sem hún hlýddi á hjá Tim Routledge, manninum sem sá um ljósin í Eurovision í fyrra. „Hann var með það að markmiði að jafna kynjahlutföllin í hópnum því það er svo auðvelt að leita bara í strákana og honum tókst að jafna þau og hafa teymið líka fjölbreyttara. Þau eru svo öll að vinna við þetta í dag. Það þarf stundum bara að stíga þetta aukaskref.“
Fram undan er vinna við söngleikinn Frost, en í vikunni hófust æfingar á Stóra sviðinu. „Ég er með myndbandshönnun í því og verð líka eitthvað að stússast í kringum ljósin. Það er það sem er á döfinni en svo á eftir að koma í ljós hvað tekur við eftir það. En það er líka bara fínt að geta einbeitt sér að einu í einu.“
Ásta segist ætla að einbeita sér að leikhúsinu, í það minnsta í bili, en sér þyki kvikmyndirnar líka spennandi. „Leikhúsið þarfnast svo mikillar orku og athygli að það getur verið erfitt að halda báðum þessum boltum á lofti. En ég skipti um skoðun á hverju ári svo að ég veit svo sem ekkert hvar ég enda.“