Kirkjan Enn gustar um þjóðkirkjuna og nú vegna þess að kosningar í tilnefningarferli til biskupskjörs ónýttust og því þarf að endurtaka þær.
Kirkjan Enn gustar um þjóðkirkjuna og nú vegna þess að kosningar í tilnefningarferli til biskupskjörs ónýttust og því þarf að endurtaka þær. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is

Baksvið

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Forsætisnefnd kirkjuþings, eða a.m.k. meirihluti hennar, ákvað að svara í engu beiðni kjörstjórnar kirkjunnar um að kosning um hverjir hlytu tilnefningu til biskupskjörs skyldi endurtekin og því varð ljóst að ekki var unnt að endurtaka kosningar sem til stóð að hefja í gær, föstudag, eins og kjörstjórnin lagði til. Í starfsreglum um biskupskosningu er mælt fyrir um að ákvarðanir kjörstjórnar í þessu efni séu háðar samþykki forsætisnefndar og þar sem það barst ekki voru kosningaáformin fyrir bí.

„Það var samkomulag um það í forsætisnefnd að svara erindi kjörstjórnar ekki formlega,“ segir Steindór Runiberg, einn þriggja nefndarmanna í forsætisnefnd, í samtali við Morgunblaðið.

Kristrún Heimisdóttir, sem sæti á í forsætisnefndinni, segir að ákvörðun nefndarinnar um að svara í engu erindi kjörstjórnar sé gjörningur forseta kirkjuþings, Drífu Hjartardóttur. Ekki náðist í Drífu, sem stödd er erlendis.

„Ekki að mínu frumkvæði“

„Ég á engan þátt í þessari ákvörðun. Við erum þrjú í forsætisnefnd og hin tvö höfðu áhyggjur af því að endurtaka kosninguna. Ég er ekki sannfærð um það og það var ekki að mínu frumkvæði að taka þann pól í hæðina. Mér fannst mestu skipta að kjörstjórn myndi vinna áfram með sínum hætti,“ segir Kristrún og að tilkynning kjörstjórnar um að hætta við tilnefningarferlið að sinni hafi komið sér á óvart. Hún segist gleðjast yfir mikilli þátttöku í tilnefningarferlinu og binda vonir við að þátttakan veiti á gott fyrir kirkjuna og verði henni til sóma.

Gert er ráð fyrir að kjörstjórn fundi um framhald mála í næstu viku og staðfestir Anna Mjöll Karlsdóttir, formaður kjörstjórnar þjóðkirkjunnar, það.

Ljóst virðist að byrja verður kosningaferlið upp á nýtt, þ.e. gerð kjörskrár, útsendingu kjörgagna, að auglýsa tilnefningarferlið og gera tillögu um dagsetningu kosninganna, en skv. starfsreglum skal gera kjörskrána tveimur vikum áður en ferlið hefst. Þeir 160 vígðu kirkjunnar þjónar og djáknar sem þátt tóku í kosningunum þurfa því að bíða um sinn eftir því að leikurinn verði endurtekinn.

Sextíu og fjórir tilnefndir

Sjö vígðir einstaklingar höfðu gefið til kynna að þeir myndu taka tilnefningu. Reglan er sú að þrír þeirra sem flestar tilnefningar hljóta verða í kjöri til biskups, að því gefnu að þeir samþykki að taka tilnefningunni, þ.e. gefa kost á sér í biskupskosningu. Einhverjir þeirra sem sóttust eftir tilnefningu gengu nokkuð hart fram í að afla sér atkvæða og skv. heimildum Morgunblaðsins fór það nokkuð fyrir brjóstið á ýmsum þeim tæplega 150 vígðu þjónum sem tilnefningarétt höfðu. Í raun eru allir hinir vígðu í kjöri í tilnefningarferlinu. Eins og Morgunblaðið hefur greint frá var kjörsókn mjög góð, 160 greiddu atkvæði, eða 97,5% kosningabærra manna. Hver og einn gat tilnefnt allt að þrjá í kjörinu. Hafi allir nýtt sér þann rétt voru 480 atkvæði í pottinum. Því kom það nokkuð á óvart hve margir hlutu tilnefningu, en blaðið hefur heimildir fyrir því að þeir hafi verið 64 talsins, eða um 45% kjörgengra. Munu atkvæðin hafa dreifst svo mjög af þeim sökum að mörgum þótti að sumir frambjóðendanna sjö væru jafnari en aðrir í ferlinu og full frekir til fjörsins.

Bilun í dulkóðunarlykli rafræns kosningakerfis Advania olli því að ekki var hægt að sjá hvernig atkvæði féllu, aðeins hversu margir kusu og hve margir hlutu tilnefningu.

Úr ranni kirkjunnar fékk blaðið þær upplýsingar að skýringin væri galli í forritun lykilsins. Mun tölvukerfið einungis hafa getað lesið nöfn hinna tilnefndu, en ef fleira var ritað á seðilinn, eins og t.a.m. kirkja, prófastsdæmi eða eitthvað ámóta, réði hugbúnaðurinn ekki við að lesa úr því. Ef vísukorn var ritað á seðilinn, sem ekki er óalgengt í kosningum, fór kerfið í hnút.

Dulkóðunarlykill sökudólgur

„Við erum með búnað í kosningakerfinu sem dulritar öll gögn sem koma inn, bæði kennitölur kjósenda og atkvæði. Þetta er slitið í sundur skv. ákveðnum aðferðum, þannig að ekki sé hægt að rekja saman kennitölur kjósenda og hvað þeir kusu. Ákveðinn dulritunarlykill er notaður til að opna þann hluta gagnagrunnsins sem sýnir atkvæðin en ekki kennitölurnar. Þessi lykill spilltist, þannig að ekki var hægt að telja atkvæðin og grunnurinn er ónýtur,“ segir Sigrún Ámundadóttir, framkvæmdastjóri hugbúnaðarlausna hjá Advania.

Búnaðurinn sem nýttur var í tilnefningarkosningunni er sams konar og notaður hefur verið við kosningar í félagasamtökum.

Sigrún segir Advania vera í samtali við Biskupsstofu varðandi framhaldið, en ekki sé komið í ljós hvort kosið verði að nýju með sama hætti eður ei. Búið sé að komast fyrir bilunina en svara sé beðið um hvort leikurinn verði endurtekinn.

Advania

„Við erum með búnað í kosningakerfinu sem dulritar öll gögn sem koma inn, bæði kennitölur kjósenda og atkvæði þeirra. Þetta er slitið í sundur skv. ákveðnum aðferðum í svona kosningakerfum, þannig að ekki sé hægt að rekja saman kennitölur kjósenda og hvað þeir kusu. Ákveðinn dulritunarlykill er notaður til að opna þann hluta gagnagrunnsins sem sýnir atkvæðin en ekki kennitölurnar. Þessi lykill spilltist, þannig að ekki var hægt að telja atkvæðin og grunnurinn er ónýtur,“ segir Sigrún Ámundadóttir, framkvæmdastjóri hugbúnaðarlausna hjá Advania.

Búnaðurinn sem nýttur var í tilnefningarkosningunni er sams konar og notaður hefur verið við kosningar í félagasamtökum.

Sigrún segir Advania vera í samtali við Biskupsstofu varðandi framhaldið, en ekki sé komið í ljós hvort kosið verði að nýju með sama hætti eður ei. Advania sé hins vegar búið að komast fyrir bilunina, en bíði svara um það hvort leikurinn verði endurtekinn.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson