Sýning Egill Þórðarson við eitt veggspjaldanna þar sem er að finna margvíslegan fróðleik um óveðrið og skaðann við Nýfundnaland. Saman hafa Egill og sr. Þorvaldur Karl Helgason safnað heimildum þessu viðvíkjandi.
Sýning Egill Þórðarson við eitt veggspjaldanna þar sem er að finna margvíslegan fróðleik um óveðrið og skaðann við Nýfundnaland. Saman hafa Egill og sr. Þorvaldur Karl Helgason safnað heimildum þessu viðvíkjandi. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Við messu í Hafnarfjarðarkirkju á morgun, sunnudaginn 11. febrúar, verður þess minnst að 65 ár eru nú frá hrinu sjóslysa í óveðurstíð sem gekk yfir dagana 30. janúar til 18. febrúar 1959. Þá fórust alls fjögur skip frá fjórum löndum, Íslandi þar á meðal, í miklu óveðri sem þá gekk yfir

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Við messu í Hafnarfjarðarkirkju á morgun, sunnudaginn 11. febrúar, verður þess minnst að 65 ár eru nú frá hrinu sjóslysa í óveðurstíð sem gekk yfir dagana 30. janúar til 18. febrúar 1959. Þá fórust alls fjögur skip frá fjórum löndum, Íslandi þar á meðal, í miklu óveðri sem þá gekk yfir. Þrjú skipanna fórust nærri Grænlandi, tvö þar sem heita Nýfundnalandsmið. Sérstaklega verður haldið til haga við messuna á morgun að 8. eða 9. febrúar fórst Júlí, togari Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar, með 30 mönnum svo að eftir stóðu 39 börn föðurlaus.

Dimmir dagar

Atburðarásin þessa dimmu daga snemma árs 1959 hófst á því að 30. janúar fórst Grænlandsfarið Hans Hedtoft með 95 manns. Þetta var um 2.900 tonna flutningaskip, sérstaklega byggt til þess að rjúfa vetrareinangrun Grænlands. Þarna var skipið í jómfrúarferð sinni. Lagði það í haf frá Julianehaab á Grænlandi 29. janúar. Rakst á öðrum degi siglingar á ísjaka austur af Hvarfi og sökk. Um borð var 40 manna áhöfn og 55 farþegar, Danir og Grænlendingar, þar á meðal fimm börn og níu konur.

Neyðarkall barst frá Hans Hedtoft síðdegis 29. janúar og um stund hélst samband við þýskan togara. Það rofnaði og þar með var skipið horfið, nema hvað bjarghringur frá Grænlandsfarinu rak á land við Hraun, skammt vestan við Grindavík, nokkrum mánuðum síðar. Af þeim fundi birtist frásögn Morgunblaðsins og henni fylgdi áhrifarík ljósmynd Ólafs K. Magnússonar.

Hvarf Hans Hedtoft markar upphaf sjóslysahrinunnar snemma árs 1959. Á eftir kom svo Nýfundnalandsveðrið. Þann 9. febrúar fórst togari frá Nýfundnalandi, Blue Wave, með 16 mönnum. Þann sama dag fórst Júlí GK með 30 mönnum. Þessu ótengt er svo fjórða slysið. Það varð 18. febrúar, en þá fórst vitaskipið Hermóður úti af Stafnesi með 12 mönnum.

Kerti fyrir hvern og einn

Við minningarguðsþjónustu í Hafnarfjarðarkirkju á morgun, sunnudag, flytur Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands ávarp og Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands verður með hugleiðingu. Prestar kirkjunnar þjóna fyrir altari. Viðstaddir athöfnina verða sendiherra Danmerkur, fulltrúi í sendiráði Kanada og sendifulltrúi Grænlands. Lesin verða upp nöfn allra þeirra sem fórust með Júlí og Hermóði og jafnframt kveikt á kerti fyrir hvern og einn. Minning þeirra sem fórust með Hans Hedtoft og Blue Wave verður heiðruð með svipuðu móti.

Eftir minningarguðsþjónustuna verður opnuð tvíþætt sýning í safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju. Annars vegar verða sýnd fjölskyldutré hvers og eins hinna sjómanna sem fórust með Júlí, tekið saman og unnið af sr. Þorvaldi Karli Helgasyni. Hins vegar verður opnuð sýning sem Egill Þórðarson, loftskeytamaður í Hafnarfirði, hefur unnið um sjóslysin og aðstæðurnar. Aðaláherslan þar verður á togarann Júlí en hinum skipunum verða einnig gerð skil.

Þurfu að berjast viðstöðulaust fyrir lífi sínu

Mikil ágengni erlendra fiskiskipa að Íslandsmiðum og takmörkuð fiskgengd þar réðu því að á árinu 1958 fóru íslenskir skipstjórnarmenn að horfa til fjarlægari miða. Fundist höfðu fengsæl karfamið suður við Nýfundnaland, þangað sem var fjögurra sólarhringa sigling frá Íslandi. Menn létu slíkt þó ekkert aftra sér, heldur tóku stímið og í febrúarbyrjun 1959 voru alls 11 íslenskir togarar á þessum miðum. Það var svo 7. febrúar sem skall á með ofsaveðri og mikilli ísingu, svo að sjómenn þurftu að hafa sig alla við stundirnar langar að berja ísingu af togurunum, svo þeir héldust ofan sjávar.

„Í tvo til þrjá sólarhringa þurftu 330 menn á ellefu togurum að berjast viðstöðulaust fyrir lífi sínu. Harðfylgni sjálfsagt í bland við heppni bjargaði lífi flestra en nokkrir áttu ekki afturkvæmt úr þessum hildarleik og þess minnumst við nú. Ég man enn þessa daga fyrir 65 árum; sorgina og svo þetta mikla myrkur sem þarna grúfði yfir öllu á Íslandi,“ segir Egill Þórðarson, sem vel þekkir til þessarar sögu eftir heimildagrúsk síðustu ára.

Egill nefnir að síðla dags 9. febrúar hafi veður gengið niður og þá hafi menn áttað sig á því að togarann Júlí vantaði. Sent var skeyti til Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar og beðið um að leit úr lofti hæfist. Kalli var svarað. Björgunarliðar báru saman bækur sínar og frá Íslandi var haft samband við Kanada. Björgunarflugsveit kanadíska flughersins á Nýfundnalandi var ræst út og næstu sólarhringa leitaði fjöldi flugvéla og skipa að Júlí. Skýrslur frá kanadíska hernum um leitina, sem Egill fékk afhentar, sýna að mikið var lagt í aðgerðir við erfið skilyrði á hafsvæði sem var alls 53 þúsund fersjómílur.

Sjóslysið markaði líf og sál

„Nýfundnalandsveðrið og að togarinn Júlí skyldi farast skildi eftir sig djúp sár, eins og nærri má geta. Eðlilega setti þetta líka mark sitt á líf og sál sjómannanna á hinum togurunum tíu. Nokkrir þeirra lifa enn og einhverjir munu sennilega mæta á guðsþjónustuna á morgun. Úti í Færeyjum veit ég að er eldri maður sem í þessu óveðri var háseti á Þorkeli Mána ásamt tveimur bræðrum sínum. Þeir börðu ísinn af togaranum af miklum krafti og áttu stóran þátt í því að togarinn bjargaðist. Ónefndir eru svo afkomendur þeirra sem fórust með Júlí; stór hópur fólks, meðal annars héðan úr Hafnarfirði, sem lifir í skugga þessa hræðilega slyss,“ segir Egill Þórðarson, sem var nú í vikunni í Hafnarfjarðarkirkju að setja upp sýningarspjöld um þessa atburði. Áður hafa Egill og Þorvaldur Karl Helgason unnið fleiri sambærileg verkefni um sögu sjóslysa sem tengjast útgerðarbænum Hafnarfirði.

Myndaði lífið um borð

Góðir menn

Á sýningunni í Hafnarfjarðarkirkju eru á spjaldi myndir af lífinu um borð í Júlí sumarið 1958. Þær tók Kári Jónasson, fréttastjóri Ríkisútvarpsins til áratuga. „Ég var háseti á Júlí þetta sumar. Kynntist þar mörgum góðum mönnum. Og auðvitað tók ég myndavél með mér,“ segir Kári.

„Um haustið fór ég í Samvinnuskólann á Bifröst. Vorum á leiðinni ofan úr Norðurárdal í Borgarnesi í rútunni með Sæmundi þegar í útvarpinu kom þessi hræðilega frétt að Júlí væri saknað. Ég gleymi aldrei stundinni, enda þekkti ég marga af þeim sem voru í áhöfninni.“