Sviðsljós
Kristján Jónsson
kris@mbl.is
Ekki er óalgengt að heyra gárungana gera sér mat úr því að framtíðarspár jarðfræðinga séu ekki ýkja nákvæmar. Hafa þeir gaman af því þegar skekkjumörkin geta verið þúsund ár eða svo en jarðeldarnir eru nú ekki fyrirsjáanlegir til lengri tíma litið þótt skammtímaspár vísindamanna þjóðarinnar séu orðnar býsna góðar og stundum aðdáunarverðar.
Afar merkilegt er að lesa spádóma Jóns Jónssonar jarðfræðings í tímaritinu Vikunni fyrir nánast sextíu árum sléttum, í ljósi tíðinda síðustu mánaða, og er þá ekki fast að orði kveðið. Jón skrifar grein með fyrirsögninni Það má búast við gosi á Reykjanesi í Vikunni 13. febrúar árið 1964.
„Það er óhætt að slá því föstu, að alls engar líkur eru til þess að eldgosum sé að fullu og öllu hætt á Reykjanesi. Það verður þvert á móti að teljast í fyllsta máta líklegt að gos muni enn verða þar. Sé jafnframt litið á, hversu oft hefur gosið þar og hvað langt er liðið frá síðasta gosi, en það hefur líklega verið um 1340 er Ögmundarhraun brann, þá vaknar sú spurning hvort ekki muni nú líða að því að gos verði einhvers staðar á þessu svæði,“ skrifar Jón meðal annars í greininni.
Hraunrennsli í Vikunni
Þegar greinin er skrifuð hafði umræða um eldgos væntanlega verið mikil á Íslandi í nokkra mánuði vegna Surtseyjargossins sem hófst árið 1963. Vikan birti sögur eftir blaðamanninn Guðmund Karlsson þar sem umfjöllunarefnið var eldgos í byggð eða nærri byggð á Íslandi. Sagan í blaðinu 13. febrúar 1964 ber til dæmis yfirskriftina Æðislegt kapphlaup við hraunið – milljónaverðmæti í hættu. Sögurnar eru dramatískar þar sem mikið tjón verður í Reykjavík vegna hraunrennslis og textinn er skreyttur með teikningum eftir listmálarann kunna Baltasar Samper.
Hér er einnig rétt að setja í samhengi fyrir lesendur að enn voru níu ár þar til eldgos hæfist við byggðina í Vestmannaeyjum. Þar af leiðandi hefur eflaust mörgum landsmönnum þótt lesefnið athyglisvert og mögulega stuðandi.
Magnað niðurlag
Guðmundur skrifaði skáldskap í þessum sögum en Jón skrifaði sína grein sem fræðimaður en hún kom í framhaldi sögu Guðmundar í þessu tölublaði. Lokaorð Jóns í greininni eru mögnuð en þar spáir hann eldgosi á Reykjanesskaga og skekkjumörkin eru ekki þúsund ár. Hann njörvar spádóminn niður í þrjár kynslóðir eða svo, frá 1964, og sér fyrir sér hraun renna að byggð.
„Enginn veit hvar eða hvenær eldur kann næst að brjótast upp á Reykjanesskaga. Þeir sem nú byggja þessar slóðir sjá kannski ekkert af honum, kannski ekki heldur þeir næstu, en persónulega efast ég ekki um að, ef ekki við, þá muni einhver eða öllu heldur einhverjar komandi kynslóða verða að taka afstöðu til þess, hvað gera skuli er glóandi hraunflóð stefna að byggðu bóli – og þá væri gott að vera ekki alveg óviðbúinn.“
Morgunblaðið hafði samband við Sigurð Hreiðar, en hann var blaðamaður á Vikunni á þessum tíma og átti síðar eftir að ritstýra tímaritinu en hann hóf þar störf haustið 1962. Sigurður segist muna eftir því að sögur Guðmundar Karlssonar hafi vakið töluverða athygli enda hafi umfjöllunarefnið verið dramatískt. Skrif um eldgos nærri byggð á Íslandi hafi vakið nokkurt umtal. Sigurður staðfesti einnig að Baltasar hefði teiknað töluvert fyrir tímaritið á þessum árum.
Bendir á sögulega virkni
Í grein sinni reynir Jón einnig að leiða lesandann í skilning um sögulega eldvirkni á svæðinu. „Reykjanesskagi er meir eldbrunninn en nokkur annar hluti þessa lands. Ég ætla að enginn viti hversu margar þær eldstöðvar eru og því síður hversu mörg þau hraun eru, sem þar hafa brunnið frá því að jökla leysti af landinu,“ skrifar Jón og dregur upp sjónræna mynd:
„Um hraunflákana á þessu svæði fær maður nokkra hugmynd ef það er athugað að hægðarleikur er að ganga alla leið frá Þingvallavatni út á Reykjanestá án þess að stíga nokkurn tíma af hrauni.“
Jón Jónsson
Afkastamikill vísindamaður
Jón Jónsson jarðfræðingur fæddist í Landbroti í V-Skaftafellssýslu árið 1910. Jón nam jarðfræði við Uppsalaháskóla í Svíþjóð og lauk námi 1958 með tvöfaldri útskrift, þá 48 ára. Hann átti þó langan starfsferil því hann náði háum aldri og var lengi virkur.
Jón starfaði lengi hjá Orkustofnun sem þá hét Raforkumálaskrifstofan. Þótti hann afkastamikill vísindamaður og eftir hann liggja margar greinar hérlendis sem erlendis. Þótti hann vinna brautryðjandastarf við sundurgreiningu og kortlagningu hrauns á Reykjanesskaga.