Ekki verður séð að hægt verði að ná bættu eftirliti með hefðbundnum aðferðum. Nýta þarf tækni og gögn.
Ekki verður séð að hægt verði að ná bættu eftirliti með hefðbundnum aðferðum. Nýta þarf tækni og gögn. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég átti um ár eftir að ráðningartímanum mínum og var farinn að horfa í kringum mig og hafði alltaf langað að sinna þróunarmálum meira. Ég sá stöðuna auglýsta síðasta haust og sótti um. Mér bauðst staðan og ég ákvað að stökkva bara á þetta,“…

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Ég átti um ár eftir að ráðningartímanum mínum og var farinn að horfa í kringum mig og hafði alltaf langað að sinna þróunarmálum meira. Ég sá stöðuna auglýsta síðasta haust og sótti um. Mér bauðst staðan og ég ákvað að stökkva bara á þetta,“ svarar Ögmundur spurður hvað hafi orðið til þess að hann ákvað að skipta um starfsvettvang.

„Þetta snýst um ráðgjöf um sjávarútveg og bláa hagkerfið fyrir Vestur-Afríku sem hluta af verkefni Alþjóðabankans á þessu svæði. Ég þekki aðeins til þessa svæðis. Ég var meðal annars í doktorsnefnd hjá doktorsnema sem var að skrifa um sjávarútvegsmál í Líberíu og svo vorum við hjá Fiskistofu að vinna verkefni á vegum utanríkisráðuneytisins í Síerra Leóne. Þetta er mjög spennandi verkefni og verður hlutverk mitt fyrst og fremst ráðgjöf fyrir verkefnateymi sem eru að vinna á þessu svæði.“

Fyrst um sinn mun Ögmundur eiga aðsetur í Washington í Bandaríkjunum en til skoðunar er að flytja starfið til Vestur-Afríku og kveðst hann spenntur fyrir þeim möguleika.

Er það einhver ævintýralöngun sem dró þig í þetta?

„Já, það er svolítið þannig. Í gegnum tíðina hef ég verið að vinna að verkefnum sem snerta þróunarmál, meðal annars í gegnum sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna, GRÓ FTP, og hef verið í gegnum hann töluvert í Asíu og Karíbahafinu. Einnig hef ég unnið að svona verkefnum hjá Fiskistofu og áður hjá Alþjóðabankanum í Víetnam og Albaníu. Þetta dregur alltaf í mann.“

Nútímavæðing

Ögmundur er ánægður með tíma sinn hjá Fiskistofu og segir hann hafa verið mjög lærdómsríkan á margan hátt. „Þetta var svið í sjávarútvegi sem ég hafði ekki komið nálægt áður og margt nýtt að takast á við. Fiskistofa hefur mjög öflugt starfsfólk sem er mjög viljugt til verka. Þetta hefur verið mjög spennandi.“

Í tíð hans sem fiskistofustjóra voru gerðar töluverðar breytingar hjá Fiskistofu og var mikil áhersla lögð á stafræna þróun vegna mikillar tækniskuldar sem hafði safnast upp. „Byrjað var að vinna að þessu áður en ég mætti en við gáfum vel í og lögðum áhersluna skýrt á að þróa okkur og endurbyggja kerfi okkar, sem og að reyna að nýta gögn betur til eftirlits.“

Starfsfólki Fiskistofu hafði orðið ljóst að hefðbundið eftirlit þar sem eftirlitsmenn eru á vettvangi yrði alltaf mannskapsfrekt og mjög kostnaðarsamt, sem setti miklar takmarkanir á slíka eftirlitsframkvæmd.

Eins er með alla þjónustu stofnunarinnar, að sögn Ögmundar. „Afgreiðsla mála, útgáfa vottorða, umsóknir um veiðileyfi og alls konar þættir þurfa að vera sem mest sjálfvirkir og mannshöndin á að þurfa að koma sem minnst nærri. Það á ekki að þurfa að slá inn upplýsingar handvirkt og það hefur verið línan undanfarið og hefur hún skilað töluverðum árangri.“

Breyttar forsendur

Þrátt fyrir þær miklu úrbætur sem hafa verið gerðar innan Fiskistofu gaf Ríkisendurskoðun út skýrslu á síðasta ári þar sem stofnunin ítrekar að fullu eða hluta tíu af ellefu úrbótatillögum sem lagðar voru til 2018 í skýrslu um starfsemi Fiskistofu. Var meðal annars bent á að ekki hefði verið aukin yfirstaða við vigtun í samræmi við ábendingar Ríkisendurskoðunar, sem og að viðvera eftirlitsmanna í veiðiferðum hefði fækkað.

Inntur álits á þessari niðurstöðu segir Ögmundur að eðlisbreyting hafi átt sér stað í starfsemi stofnunarinnar og að ekki sé sjálfgefið að þær athugasemdir sem lagðar voru fram 2018 eigi allar við í dag.

„Á þessum tíma dróst fjármagn til Fiskistofu saman, sem gerði það enn erfiðara að koma til móts við tillögurnar. Svo er hitt að við náum ekki árangri í eftirliti nema þurfa að tvöfalda eða þrefalda fjármagnið sem ráðstafað er til eftirlits. Það er ekki leið sem nokkur vill fara – ekki greinin og ekki stjórnmálamenn eða aðrir. Við verðum því að hugsa þetta allt saman upp á nýtt.“

Eru þá athugasemdir Ríkisendurskoðunar með viðmið sem eiga ekki við?

„Þeir vinna þetta út frá ákveðnum forsendum og það sem gerist er að þeir koma með athugasemdir 2018 og skoða síðan 2023 hvernig hafi verið brugðist við þeim athugasemdum. Þær athugasemdir lutu að mjög miklu leyti að lagaumhverfinu, reglugerðum og fjármagni til stofnunarinnar – þáttum sem Fiskistofa ræður mjög litlu um.“

Jafnframt segir hann þá leið sem Ríkisendurskoðun leggur til kalla á aukið fjármagn og stórfellda fjölgun starfsmanna. „Ég tel þá leið ekki færa.“

Kallar á nýja umgjörð

Í ljósi þessa þarf að endurskoða lög og reglugerðir með það að markmiði að skýra betur hlutverk og verkfæri Fiskistofu, að mati Ögmundar, sem segir lausnina geta falist í að umbylta nálgun til eftirlits í sjávarútvegi.

„Grundvallaratriði hvað það varðar er að snúa sönnunarbyrðinni við, að fyrirtæki sem er að nýta nýta auðlindir þjóðarinnar þurfi að sanna hegðun sína í stað þess að hið opinbera þurfi að sanna að eitthvað hafi farið úrskeiðis. Þess vegna tel ég þurfa að þróa gæðakerfi sem fylgist með umgengni við auðlindina, sem verður svo hægt að votta. Þannig verði einnig hægt að auka samkeppnishæfni íslenskra sjávarafurða. Ég held að við séum í einstakri stöðu á Íslandi til að verða frumkvöðlar í þessu og leiða þessa þróun – og geta nýtt það forskot sem það gefur.

Við erum með tæknivæddasta sjávarútveg í heimi. Við erum einnig með samkeppnishæfasta sjávarútveg á heimsvísu hvað varðar afköst, verðmætasköpun og hagnað. Við þurfum að stíga upp og gera þennan eftirlitsþátt hluta af framleiðsluferli fyrirtækjanna. Í hverjum togara og öðrum stórum bátum eru óteljandi myndavélar en það er ekki endilega neinn að fylgjast með því hverju er hent frá borði.“

Erfið umræða

Ögmundur segir ánægður frá tilraunaverkefni Fiskistofu með tveimur útgerðum í tengslum við myndavélaeftirlit en segir langt í land að koma á kerfi þar sem bæði tækni og gögn eru nýtt saman. Það þurfi að gera með slíkum hætti að greinin hagnist einnig á því, sem tryggi að allir sjái sameiginlegan hag í að ná hámarksárangri í eftirlitinu.

Þá verði að gera breytingar á lagaumhverfi Fiskistofu og gildandi regluverki sem taki mið af þeirri stöðu sem sé uppi og langtímamarkmiðum. Ekki sé þó einfalt að gera nauðsynlegar breytingar, þar sem umræða um sjávarútveg byggi oft á heitum tilfinningum sem þvælist fyrir og því sé vegurinn að úrbótum þyrnum stráður.

Elín starfandi fiskistofustjóri

Samhliða því að tilkynnt var um starfslok Ögmundar var greint frá því að Elín Björg Ragnarsdóttir, sviðsstjóri veiðieftirlitssviðs og staðgengill fiskistofustjóra, tæki við starfi fiskistofustjóra þar til ráðið yrði í starfið. Alls hafa sjö sótt um stöðu fiskistofustjóra og mun þriggja manna hæfnisnefnd meta umsækjendur.

Höf.: Gunnlaugur Snær Ólafsson