Kertaljós Einar Jón Pálsson er stöðvarstjóri fjarskiptastöðvar í Grindavík.
Kertaljós Einar Jón Pálsson er stöðvarstjóri fjarskiptastöðvar í Grindavík. — Morgunblaðið/Eggert Jóhannesson
„Eftir að vatnið fór var nú bara vel heitt í húsinu,“ segir Einar Jón Pálsson, stöðvarstjóri fjarskiptastöðvar í Grindavík, í samtali við Morgunblaðið, inntur eftir því hvernig hann hafi staðið að húshitun á heimili sínu í Garðinum síðan heita vatnið fór af á Suðurnesjum í gosinu

Hermann Nökkvi Gunnarsson

hng@mbl.is

„Eftir að vatnið fór var nú bara vel heitt í húsinu,“ segir Einar Jón Pálsson, stöðvarstjóri fjarskiptastöðvar í Grindavík, í samtali við Morgunblaðið, inntur eftir því hvernig hann hafi staðið að húshitun á heimili sínu í Garðinum síðan heita vatnið fór af á Suðurnesjum í gosinu.

„Við hituðum ekkert upp fyrir nóttina en í morgun settum við í gang tvo blásara á hálfum styrk og ætlum að hafa það þannig í dag. Maður fór bara í síðu nærbuxurnar og ullina, eins og maður væri að fara í útilegu, og þá líður manni bara vel,“ segir Einar sem ræddi við Morgunblaðið í gær.

Kerti loga á heimili bæjarstjórnarforsetans og er hann spurður hvort þau séu hluti kyndingarinnar.

„Er það ekki það sem allir eru að tala um á Facebook, allt í einu fer konan að kveikja á kertum?“ spyr Einar á móti og hlær, játar að kertin séu auðvitað bara hluti af kuldavörnum heimilisins, „hafa smá velgju“.

En hvernig heldur hann þá að laugardagurinn verði þegar lengra er liðið á tímabil án heits vatns?

„Ég hef engar áhyggjur af því hjá okkur, ég held að það verði bara kósí,“ svarar Einar og er spurður út í snjóbræðslulögn í innkeyrslunni.

Hefur hann látið blása úr henni?

„Það er lokað kerfi sem betur fer og var ekkert mál að slökkva á því,“ svarar Einar Jón Pálsson í lok spjalls.

Morgunblaðið kom einnig við í Reykjanesbæ og ræddi þar við nafna Einars Jóns, Einar Jónsson, sem er forstöðumaður umhverfismiðstöðvarinnar í Reykjanesbæ.

Hann hefur valið heldur óvenjulega leið til að halda hita á heimili sínu. Hann hefur fjárfest í hitatúbu svokallaðri sem hann tengir við grind gólfhitakerfisins og hitar þannig vatn sem keyrt er í gegnum kerfið í stað þess að nota ofna eða hitablásara. „Nú er gott að eiga frænda sem er pípari og snillingur,“ segir Einar sposkur spurður hvernig standi á þessari leið hans til húshitunar. Nánar er rætt við Einar Jónson á mbl.is í dag.

Höf.: Hermann Nökkvi Gunnarsson