„Auðvitað hafa verið langir vinnudagar og andvökunætur en það er bara eins og gengur þegar ástandið er með þessum hætti. Ég kveinka mér ekki undan því,“ segir Úlfar Lúðvíksson.
„Auðvitað hafa verið langir vinnudagar og andvökunætur en það er bara eins og gengur þegar ástandið er með þessum hætti. Ég kveinka mér ekki undan því,“ segir Úlfar Lúðvíksson. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Auðvitað vona ég fyrir hönd Grindvíkinga að hægt verði að búa aftur í bænum.

Frekar þröngt er um starfsfólk embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum í skrifstofuhúsnæðinu á Brekkustígnum í Reykjanesbæ. Gamla lögreglustöðin var að mestu leyti dæmd úr leik vegna myglu og annarra kvilla og nú er beðið eftir gámum sem leysa munu vanda útkallsliðs lögreglu til bráðabirgða. Langtímalausnin er þó að byggja nýja lögreglustöð og Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri er vongóður um að framkvæmdir geti hafist, vonandi með haustinu, enda liggi fyrir ákvörðun dómsmálaráðuneytisins um að hefja skuli nú þegar undirbúning að þeirri vinnu í samstarfi við framkvæmdasýslu ríkisins.

Úlfar tók við starfi lögreglustjóra á Suðurnesjum um miðjan nóvember 2020 og vissi að hann væri að fara inn í ákveðna óvissu vegna jarðhræringa á svæðinu. Það er skýrt dæmi um óvissuna að einungis fáeinum klukkustundum eftir að við sátum saman á skrifstofu hans byrjaði að gjósa í Sundhnúksgígaröðinni. Það er sjötta eldgosið á svæðinu á tæpum þremur árum.

„Jarðvísindamenn höfðu beðið í áratugi eftir því að Reykjanesið rumskaði og nokkru áður en ég tók hér við embætti voru sterkar vísbendingar um að það væri að gerast,“ segir Úlfar. „Skjálftavirkni var þegar orðin mikil á svæðinu og ég vissi því út í hvað ég væri að fara. 19. mars 2021 hófst svo fyrsta eldgosið. Síðan hef ég verið vakinn og sofinn yfir þessu verkefni. Almannavarnir eru alla jafna aukabúgrein hjá lögregluembættum en hér er veruleikinn annar og út frá því verður að vinna. Það er heldur ekki á hverjum degi sem rýma þarf 3.800 manna samfélag á einu bretti.

Stærri áskoranir

Úlfar var áður lögreglustjóri á Vesturlandi í tæp sex ár, með aðsetur í Borgarnesi, en gerði sér grein fyrir því að hans biðu aðrar og stærri áskoranir á Suðurnesjum, enda var embættið fyrir eldgosahrinuna engu öðru embætti líkt hér á landi út af alþjóðaflugvellinum. „Reglulega þarf að kalla saman aðgerðastjórn vegna hans, nú síðast í morgun vegna mögulegs olíuleka í flugvél á leið til landsins. Slíkar aðgerðir enda auðvitað sem betur fer oftast vel en kalla á ákveðið viðbragð. Stundum er stutt á milli þessara atvika, stundum lengra,“ segir Úlfar.

Hjá embættinu vinna í dag 210 manns, þar af 96 sem starfa á flugvellinum. Úlfar segist hafa fundið fyrir vissum óróa þegar hann tók við þessu starfi, en forveri hans í starfi hafði látið af störfum fyrr á árinu og lögreglustjóri var settur í embættið tímabundið ásamt aðstoðarmanni. Rættist vel úr og svo þarf nýr maður alltaf smá tíma til að gera reksturinn að sínum.

Náið samstarf hefur verið vegna jarðhræringa og eldgosa og frá 10. nóvember hefur Úlfar fundað með Fannari Jónassyni bæjarstjóra, öðrum lykilstjórnendum Grindavíkurbæjar og fleiri sérfræðingum á hverjum morgni, líka um helgar og á rauðum dögum. „Það heitir fundur vettvangs- og aðgerðastjórnar og fer fram á Teams. Þetta getur verið stór hópur, Vegagerðin, Veðurstofan, björgunarsveitir, fólk frá samhæfingarstöð almannavarna og jafnvel fleiri. Þá fundar aðgerðastjórn daglega með almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.“

– Hvaða áhrif hefur svona ástand á mann? Þú ert ekki bara lögreglustjóri, heldur líka manneskja?

„Eflaust er þetta krefjandi en það truflar mig ekki. Auðvitað hafa verið langir vinnudagar og andvökunætur en það er bara eins og gengur þegar ástandið er með þessum hætti. Ég kveinka mér ekki undan því. Sama á við um nánustu samstarfsmenn mína. Við erum í þessu verkefni saman. Ég er mjög ánægður með mitt fólk, í þessu verkefni sem öðrum. Samskiptin við fólkið í Grindavík og þá sem reka þarna fyrirtæki hafa líka verið á mjög jákvæðum nótum. Auðvitað eru menn ekki sammála um allar aðgerðir en samskiptin hafa eigi að síður verið góð. Sama á við um ykkur, blaðamenn, þó að formaður Blaðamannafélagsins hafi eitthvað verið að ýfa sig. Ég hef mikið séð um þessi samskipti og þau hafa verið góð. Auðvitað skil ég að blaðamenn vilji stundum meira en við verðum að halda okkur við ákveðið skipulag.“

– Finnst þér þú hafa gert allt sem þú mögulega hefur getað fyrir blaðamenn, sem leggja auðvitað metnað sinn í að skrásetja söguna á hverjum tíma?

„Ég er nú ekki viss um það en að mínu mati er sagan ágætlega skráð. Vilji menn sýna verkefnum og aðstæðum sanngirni er það mín skoðun að blaðamenn og ljósmyndarar hafi sinnt því verkefni með ágætum að segja frá og mynda þá atburði sem staðið hafa yfir hér á Reykjanesi undanfarin ár, þrátt fyrir takmarkanir á aðgengi. Það sem farið hefur forgörðum í Grindavík er þrjú einbýlishús, annað stendur. Mörg hús eru ónýt eða mikið löskuð en standa enn. Í snjóflóðunum fyrir vestan á sínum tíma glataðist mun meira, sumir misstu allt sitt. Mannfall varð líka mikið. Hér höfum við misst mann, í hræðilegu slysi, en að öðru leyti hafa mannslíf ekki tapast. Fráfall Lúðvíks Péturssonar hefur reynst okkur erfitt og samfélaginu öllu hér á Suðurnesjum. Hugur okkar er og hefur verið með aðstandendum hans og þeirra sem eiga um sárt að binda vegna banaslysa í umdæminu síðustu misseri. Starfsmenn hér hafa átt marga erfiða daga.”

Stormur í vatnsglasi

– Formaður Blaðamannafélagsins hefur kallað eftir gögnum frá þér varðandi ákvarðanatöku í málinu. Muntu verða við þeirri beiðni?

„Ég á eftir að skoða það. En ég held að hún sé að misskilja þarna hugtök eins og ritskoðun og tjáningarfrelsi. Við sjáum til með mín viðbrögð.“

– Byggist málflutningur hennar þá á misskilningi?

„Erfitt að segja en eilítill stormur í vatnsglasi að mínu mati.“

– Stormur í vatnsglasi, segirðu. En nú hefur Blaðamannafélagið stefnt ríkinu til viðurkenningar á rétti blaðamanna til að stunda störf sín í Grindavík.

„Blaðamannafélaginu er frjálst að gera það sem það vill gera. Ég hef margsagt í samskiptum mínum við fjölmiðlafólk að ég er hérna með 3.800 Grindvíkinga sem orðnir eru flóttamenn í eigin landi. Þó að ekki hafi borist skrifleg beiðni um að halda fjölmiðlum frá íbúðargötum er það samtalið sem leiðir mann að þeirri niðurstöðu.“

– Eru þessar ákvarðanir byggðar á skýrum heimildum?

„Þær eru byggðar m.a. á ákvæðum almannavarnalaga. Ég geri mér alveg grein fyrir því hverju fjölmiðlar sækjast eftir en stundum eru bara ákveðnar grensur.“

– Ertu þá að hugsa um öryggi fjölmiðlafólks?

„Ég get verið að hugsa um öryggi ykkar og þarf að gera það, eins og öryggi allra sem eru inni í bænum á hverjum tíma. Og ég þarf mannskap til að sinna því verkefni. Þannig hefur þetta verið síðustu daga, skipulögð fylgd með viðbragðsaðilum.“

– Ertu þá fyrst og fremst að hugsa um næði íbúanna? Aðgát skal höfð ..., og allt það.

„Já, það er helst það, sem og öryggi ykkar. Þessi sjónarmið hafa borist mér og á þau hlusta ég. Vefmyndavélar fjölmiðlanna eru staðsettar við bæinn og fylgjast vel með framvindu mála. Eins drónamyndavélar. Og bærinn er þarna enn. Við skulum ekki gleyma því, þó að jörðin hafi gefið talsvert eftir.“

– Tekur þú þessa ákvörðun einn eða koma fleiri að henni?

„Þetta er samtal milli þeirra sem málið varðar á vettvangi aðgerða- og vettvangsstjórnar. Lögreglustjóri er búinn að taka margar ákvarðanir að undanförnu, ekki síst í sambandi við eldgosin við Fagradalsfjall, og enginn slagur hefur verið um það sem ég hef lagt til og ákveðið. Ég hef ekki þurft að berjast fyrir því að sannfæra menn.“

– Þú vísar í samtöl. Hafa Grindvíkingar kvartað beint við þig út af ágangi fjölmiðla?

„Ég hef heyrt þessar raddir inni á daglegum fundum aðgerða- og vettvangsstjórnar, þar sem Grindavíkurbær á fulltrúa. Þar hefur stundum komið fram gagnrýni. Það er bara þannig.“

– Hvers konar gagnrýni?

„Fólk hefur til dæmis talað um að því þyki vont að vita af fjölmiðlamönnum inni í bænum þegar það hefur ekki heimild til að vera þar sjálft á sama tíma.“

– Finnst þér fjölmiðlar hafa verið of ágengir?

„Nei, í sjálfu sér ekki. Samskiptin hafa verið mjög góð við útsendara helstu fjölmiðla landsins og til fyrirmyndar. Síðan eruð þið með formann sem hefur sig mikið í frammi og er dálítið brött, þykir mér.“

– Finnst þér hún þá ekki skilja ykkar hlið á málinu?

„Ég átta mig ekki alveg á því. Þetta er auðvitað stórt samfélagslegt verkefni og mér finnst því sinnt mjög vel af fjölmiðlum. Tekin hafa verið fjölmörg viðtöl og myndir og sagan skráð, þó að ekki hafi náðst myndir af grátandi Grindvíkingum fyrir utan húsgaflinn hjá sér. Það eru fréttirnar sem selja.“

– Ertu að segja að það sé gulupressublær á umfjölluninni?

„Við tökum eftir því að það ber meira á neikvæðum fréttum í garð aðgerðanna en jákvæðum. En það er ágætt að fram komi að þegar heimilt var að dvelja og starfa í bænum, þó að lögreglustjóri mælti ekki með því enda svæðið skilgreint sem hættusvæði, var þegar mest lét dvalið í 90 húsum af á tólfta hundrað. Það segir ákveðna sögu um áhuga íbúa á að dvelja í bænum við núverandi aðstæður.“

– Finnst þér fjölmiðlar leggja meiri áherslu á að ná sorg, tárum og drama en að skrásetja söguna eins og hún blasir við?

„Ég held að það sé nú ekki reyndin en eitthvað ber þó á hinu. Mér finnst ekki skipta mestu máli að ná Grindvíkingum akkúrat í þessum aðstæðum [að tæma heimili sín]. Ég er ekki viss um að Grindvíkingur sem talað er við meðan hann er í miklu ójafnvægi vilji endilega þegar frá líður að sú mynd af honum lifi. Ef krafan er að fá að valsa um íbúðargötur í Grindavík er það fyrst og fremst af tillitssemi við íbúana sem við stýrum þessu svona.“

– En mega Grindvíkingar ekki ráða því sjálfir hvort þeir tala við fjölmiðla á staðnum?

„Jú, jú, en þó ekki, en þetta fór hins vegar ekki vel af stað, þegar starfsmaður RÚV reyndi að komast inn á yfirgefið heimili. Það fór gríðarlega illa í Grindvíkinga. Þá voru aðgerðir viðbragðsaðila gagnrýndar af Grindvíkingum sem öðrum.“

– Þurfum við hin sumsé að súpa seyðið af gjörðum hans?

„Þetta voru vond skilaboð inn í samfélagið og þessi einstaklingur skemmdi klárlega fyrir öðru fjölmiðlafólki vegna neikvæðrar upplifunar fólks og umræðu. Það er nú þannig. Hann setti blett á óheppilegum tíma, þegar enginn Grindvíkingur var inni í bænum.“

Komið að þolmörkum

Talið berst að öðru. Álagið í sambandi við jarðhræringar og eldgos hefur verið mikið undanfarin þrjú ár og Úlfar viðurkennir að það hafi að sjálfsögðu haft áhrif á aðra starfsemi embættisins. „Við höfum eðli málsins samkvæmt sett mikinn mannskap í þetta verkefni en njótum góðs stuðnings frá öðrum, þá helst embætti ríkislögreglustjóra, lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og lögreglunni á Suðurlandi. Aðstoð þeirra hefur skipt okkur máli,“ segir Úlfar.

Að sögn hans er viðbragðskerfið komið að þolmörkum í þessum aðgerðum, sem staðið hafa yfir svo lengi. Björgunarsveitir séu fyrst og fremst hugsaðar í leit og björgun en verkefni þeirra síðustu mánuði og ár hafi snúist um allt annað. Úlfar segir sveitirnar, Þorbjörn í Grindavík og aðrar, hafa staðið sig með miklum sóma, auk þess sem lykilmenn í öllum aðgerðum séu heimamenn í Grindavík. Þá sé að finna hjá sveitarfélaginu, slökkviliðinu og björgunarsveit, auk þess sem embættið hafi notið ómetanlegs stuðnings frá Brunavörnum Suðurnesja.

Og ekki er eins og ástandið sé að fara að breytast í bráð. „Það leggst þannig í mig. Við erum með fimm [nú sex] eldgos á tæpum þremur árum eftir 800 ára hlé og aldrei hefur jörðin opnast tvisvar á nákvæmlega sama stað. Vísindamenn eru með svæðið nokkuð afmarkað en vonlaust er að segja nákvæmlega fyrir um hvar gos kemur upp. Sumir segja að þetta ástand geti staðið árum saman, jafnvel í 100 til 200 ár, en vísindamenn hugsa gjarna í þúsundum og milljónum ára, meðan við hin hugsum meira um daginn í dag eða morgundaginn.“

Fyrir vikið er álag á viðbragðsaðila ekki að fara að minnka. „Ekki nema stjórnvöld endurskoði umgjörðina utan um þessar hamfarir. Það er kannski tímabært,“ segir Úlfar.

Hann vill ekki úttala sig um framtíð Grindavíkur en fyrir liggi að bærinn sé ekki vænlegur til búsetu á næstunni. Þess utan sé hávetur, sem flæki dvöl fólks í bænum ef rýma þyrfti í skyndi. Þá séu innviðir í lamasessi, vatn, rafmagn og annað. „Það er ómögulegt að segja fyrir um hvernig þetta mun þróast en auðvitað vona ég fyrir hönd Grindvíkinga að hægt verði að búa aftur í bænum. Það var auðvitað mikið áfall þegar Lúðvík heitinn féll niður í sprunguna og breytti að ég held afstöðu margra til búsetu í bænum en við skulum sjá hvað setur þegar frá líður.“

Hert löggæsla á flugvellinum

Við snúum okkur að allt öðru, alþjóðaflugvellinum. Þegar Úlfar tók við embætti fannst honum að betur mætti gera í löggæslu þar og hefur sú vinna verið í gangi. „Okkur hefur tekist að efla löggæslu á flugvellinum með mjög marktækum hætti, sem endurspeglast einna helst í fjölda frávísunarmála á innri landamærum Schengen. Það er alltaf hægt að gera betur, en ég er mjög ánægður með þróun mála síðustu árin. Það er gríðarleg áskorun að sinna löggæslu þar sem landamærin eru opin og við þurfum að sýna stöðugleika í löggæslu. Þurfum að hafa skýra sýn og styrka stjórn.”

Úlfar segir álagið í kringum eldgosin og Grindavík ekki hafa komið niður á löggæslunni á flugvellinum, enda megi það ekki gerast. Það sé vegna þess að starfsfólk vallarins sé eyrnamerkt honum sérstaklega og það raski ekki störfum þess þótt byrji að gjósa. „Ég er ekki mikið fyrir að kvarta og þegar menn tala um að það vanti meira fjármagn hér og þar tala ég frekar um gæði í starfsmönnum en einhverja tiltekna höfðatölu.“

Á heildina litið finnst honum starfið ganga vel og sækir tölfræði í tölvuna sína, máli sínu til stuðnings. Á síðasta ári var embætti hans með 559 rannsóknarkröfur fyrir dómi en höfuðborgarsvæðið með 817. „Við erum með 314 gæsluvarðhaldskröfur 2023 en Reykjavík með 214. Þessi mál verða að verulegu leyti til á flugvellinum. Í dag erum við með 14 í gæsluvarðhaldi, alla nema einn fyrir innflutning á fíkniefnum. Við förum sjaldan niður fyrir 11-12 í haldi á dag, en það þýðir auðvitað mikla vinnu fyrir rannsóknardeildina og mikinn tíma í fangaflutninga. Tölur þessar dreg ég fram til að sýna kraftinn í starfi okkar en ekki í einhverjum metingi milli embætta. Þá eru verkefnin ólík en eftir sem áður ágætt að draga þessar upplýsingar fram.“

Úlfar er 61 árs að aldri og er lögfræðingur að mennt. Hann starfaði sem lögreglumaður í Reykjavík á háskólaárum og var um tíma garðprófastur á Nýja Garði, stúdentagarði Háskóla Íslands. Þá var hann fulltrúi hjá bæjarfógetanum í Keflavík, Grindavík og Njarðvík og sýslumanninum í Gullbringusýslu 1988-89, fulltrúi hjá sýslumanninum í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu 1990-91, dómarafulltrúi hjá yfirsakadómaranum í Reykjavík 1991-92 og starfsmaður sýslumannsins í Reykjavík frá 1992 til 2008.

Hjá sýslumanninum í Reykjavík var Úlfar m.a. deildarstjóri þriggja deilda en skrifstofustjóri og staðgengill sýslumanns frá árinu 2005 þar til hann tók við embætti sýslumanns á Patreksfirði 2008. Hann var settur sýslumaður á Ísafirði og lögreglustjóri á Vestfjörðum 2010. Gegndi báðum embættum til loka árs 2014. Úlfar var einnig settur sýslumaður á Höfn í Hornafirði alls sex sinnum, síðast árið 2004.

Úlfar kveðst hafa kunnað vel við starf lögreglumanns á námsárunum og fengið áhuga á löggæslu. „Það blundaði lengi í mér að verða sýslumaður og síðan hefur eitt leitt af öðru. 2010 var ég svo aftur kominn inn í lögregluna eftir langt hlé. Ég hef kunnað vel við mig í öllum þessum störfum.”

Veröldin var mun einfaldari þegar Úlfar var óbreyttur lögreglumaður. Hann nefnir síma, tölvur og önnur snjalltæki í því sambandi. Nú séu slík tæki iðulega haldlögð við rannsókn sakamála, oft með afgerandi árangri.

Þá er samfélagið orðið mun fjölbreyttara en það var. „Hér býr orðið mun fleira fólk sem ekki talar íslensku og jafnvel litla sem enga ensku, sem getur gert samskiptin og verkefnin flóknari. Hér í Reykjanesbæ er hlutfall fólks af erlendum uppruna til dæmis 50% og þessi nýi veruleiki hefur ýmsar birtingarmyndir. Sumum sem fæddir eru á Íslandi finnst ekki boðlegt að geta ekki tjáð sig á sínu eigin tungumáli þegar þeir sækja verslun eða þjónustu, sem má vel skilja. Þetta er áskorun sem við þurfum að mæta sem samfélag.“

Harkan í samfélaginu er líka miklu meiri í dag en þegar Úlfar var fyrst í lögreglunni. „Það er óumdeilt. Ýmsir hópar vaða uppi, innlendir sem erlendir, og beita jafnvel mikilli hörku,“ segir hann. „Í dag geta lögreglumenn orðið fyrir aðkasti, skítkasti og jafnvel hótunum sem beinast að þeim sjálfum eða fjölskyldum þeirra.“

– Hefur þú sjálfur fengið hótanir?

„Já, mér hefur verið hótað. Það er ekki þægilegt. En svona er þessi veruleiki.“

Sækir í listir

Úlfar er kvæntur Halldóru R. Björnsdóttur og eiga þau þrjú börn og tvö barnabörn. Hann kveðst alla tíð hafa lagt áherslu á að aðskilja starf sitt og einkalíf. „Þegar ég kem heim skil ég lögregluna eftir fyrir utan og ræði helst ekki mál tengd vinnu minni.“

Ég spyr að endingu um tómstundir og áhugamál utan vinnu. Óræður svipur kemur á Úlfar, sem svarar: „Segðu bara að ég sé fjölskyldumaður.“

– Fæ ég ekki aðeins meira en það?

„Ég tala almennt ekki um mitt prívatlíf en þú getur sagt að ég sæki í listir, aðallega myndlist og tónlist.“

Ég finn og sé á svipnum á Úlfari að þessi yfirheyrsla er ekki að virka. Eitt enn verð ég þó að fá að vita.

– Með hvaða liði heldurðu í ensku knattspyrnunni?

„United.“

Jæja, vonandi segir það ykkur eitthvað um manngerðina. Eða ekki.

Höf.: Orri Páll Ormarsson