Skattspor sjávarútvegsins var 83,4 milljarðar árið 2022.
Skattspor sjávarútvegsins var 83,4 milljarðar árið 2022. — Morgunblaðið/Hafþór Hreiðarsson
Umræðan um hvað íslenskur sjávarútvegur greiði í opinber gjöld einskorðast oft og tíðum við fjárhæð veiðigjaldsins, eins og það sé eina framlag hans í hina opinberu sjóði. Því fer fjarri, enda er veiðigjald aðeins hluti af því sem sjávarútvegur greiðir í skatta og önnur opinber gjöld

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Umræðan um hvað íslenskur sjávarútvegur greiði í opinber gjöld einskorðast oft og tíðum við fjárhæð veiðigjaldsins, eins og það sé eina framlag hans í hina opinberu sjóði. Því fer fjarri, enda er veiðigjald aðeins hluti af því sem sjávarútvegur greiðir í skatta og önnur opinber gjöld. Það vill oft gleymast að sjávarútvegsfyrirtæki greiða skatta og opinber gjöld eins og öll önnur fyrirtæki landsins. Veiðigjald er hins vegar auðlindaskattur sem sjávarútvegsfyrirtæki greiða umfram aðrar atvinnugreinar hér á landi, þrátt fyrir að mörg önnur fyrirtæki nýti sér sameiginlegar auðlindir landsins. Gjaldið er reiknað af afkomu fiskveiða og nemur skatthlutfallið 33%,“ segir í greiningu Radarsins.

Bent er á að á hverju ári greiða íslensk sjávarútvegsfyrirtæki fleiri tugi milljarða króna í opinber gjöld. Greiddur er 21% tekjuskattur af hagnaði og 6,35% tryggingagjald af launum starfsmanna. Við þetta bætist 0,65% viðbótartryggingagjald vegna sjómanna.

Þá greiða sjávarútvegsfyrirtækin afla- og hafnargjöld, kolefnisgjald, skatta af eignum, mótframlag í lífeyrissjóð og ýmis stéttarfélagsgjöld. Auk þess þurfa fyrirtækin að standa skil á sköttum og gjöldum sem eru ekki gjöld þeirra sjálfra, en grundvallast á rekstri og þeim verðmætum sem af starfsemi fyrirtækjanna hljótast með beinum hætti, til að mynda tekjuskatti og útsvari af launum starfmanna og lífeyrisgreiðslum þeirra.

Þegar skattspor atvinnugreinar er reiknað er tekið tillit til allra þessara liða, sem og skatta og opinberra gjalda sem myndast vegna verðmætasköpunar sjávarútvegsfyrirtækja.

Má gera ráð fyrir að skattspor sjávarútvegsins hafi verið um 85 milljarðar króna árið 2022 en veiðigjaldið var 7,9 milljarðar króna. Sem hlutfall af skattspori voru veiðigjöld um 9% en 17% sem hlutfall af opinberum gjöldum sem sjávarútvegsfyrirtækin greiddu af rekstri.

Betri afkoma

„Skattspor sjávarútvegs hefur eflaust aldrei verið stærra en á árinu 2022 á föstu verðlagi. Það er augljóslega ekki vegna þess að fjárhæð veiðigjaldsins hafi verið sú hæsta í sögunni, heldur vegna þess að það gekk vel og greinin skilaði góðri afkomu, laun sjómanna sem reiknast af aflaverðmæti voru há og laun fiskverkafólks hækkuðu. Þegar vel gengur í rekstri fyrirtækja og afkoma er góð þá skilar það sér í hærri tekjum til ríkissjóðs. Þegar laun hækka, þá hefur það ekki einungis jákvæð áhrif á hag launafólks, heldur einnig ríkissjóð, sveitarfélög, stéttarfélög og lífeyrissjóði í gegnum launatengd gjöld,“ segir í greiningu Radarsins.

Vakin er athygli á því að skattsporið sem er til umræðu í greiningunni nær aðeins til sjávarútvegsfyrirtækja en ekki tengdra greina.

„Má þar nefna fyrirtæki sem þjónusta sjávarútveginn beint eða nýsköpunar- og tæknifyrirtæki sem nýta hliðarafurðir úr afla eða þróa hátæknibúnað sem snýr að meðferð á afla eða afurðavinnslu. Skattspor þessara fyrirtækja hvílir einnig á samkeppnishæfni íslensk sjávarútvegs. Vel rekin sjávarútvegsfyrirtæki, sem standast alþjóðlega samkeppni og hafa borð fyrir báru til þess að fjárfesta í aukinni verðmætasköpun til framtíðar, eru lykilbreytur í því að stuðla að auknum tekjum ríkissjóðs og samfélagsins alls af sjávarútvegi.“